Árni Böðvarsson á Ökrum á Mýrum var mesta rímnaskáld 18. aldar. Í Íslensku skáldatali Menningarsjóðs segir að hann hafi ort 19 rímnaflokka og margt að auki: trúarljóð, háð- og níðkvæði, gamankviðlinga og stökur.

Árni Böðvarsson á Ökrum á Mýrum var mesta rímnaskáld 18. aldar. Í Íslensku skáldatali Menningarsjóðs segir að hann hafi ort 19 rímnaflokka og margt að auki: trúarljóð, háð- og níðkvæði, gamankviðlinga og stökur.

Benedikt Jónsson Gröndal orti um Árna:

Þegar Árni ýtir

örgum Frosta tólum

út úr Akra vör,

vitið frá sér flýtir;

ferst það allt í hjólum,

þeim er snúast snör;

þá slíkir koma sótraftar af sjónum,

settir fram af Árna kvæðagrónum,

fretar allt og fratar inn í lónum,

fælast allar landvættir af trjónum.

Sigurður Breiðfjörð gat ekki látið kyrrt liggja:

Því mun Gröndal gjöra spott

um gamla skáldið Akra?

Eins að níða illt og gott

ekki er siður spakra.

Árna rímur allmargir

eiga og með þær hlaupa,

en hans Gröndals góða kver

girnast fáir kaupa.

Gísli Konráðsson segir frá því, að þeir frændur séra Gunnlaugur Snorrason og Árni Böðvarsson hafi eitt sinn rætt um sálmakveðskap og hafi Árni þá kveðið vísu þessa:

Sver ég það við mold og málm,

mitt parruk og hattinn,

aldrei skal ég yrkja sálm,

þó eldri verði en skrattinn.

Gunnlaugur prestur svaraði og lagði við fyrri hendingu Árna:

að einhvern skal ég yrkja sálm

áður en fúnar skrattinn.

„Og segja menn,“ segir Gísli, „ að eftir það kvæði prestur Fæðingarsálmana.“

Carl E. Bardenfleth var stiftamtmaður 1837-1841 og konungsfulltrúi á tveim fyrstu þingunum eftir að Alþingi var endurreist 1845. Um hann orti Guðmundur Torfason, síðast prestur á Torfastöðum:.

Ef hann gerir öngvum rétt

og öllum sýnir hrekki,

bölvaður veri Barðenflett

og bænin skeikar ekki.

En ef hann gerir öllum rétt

og öngvum sýnir hrekki,

blessaður veri Barðenflett,

og bænin hjálpar ekki.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is