Ingibjörg Bergþórsdóttir fæddist 27. ágúst 1930. Hún lést 12. júlí 2014. Útför Ingibjargar fór fram 19. júlí 2014.

Imba móðursystir mín var alvarleg og hugsandi, með hlýtt augnaráð og bros sem lýsti væntumþykju. Hún var hæg í fasi og hógvær en föst fyrir, jafnvel þrjósk og komst það sem hún ætlaði. Kímnigáfan var ríkuleg og pólitíkin afdráttarlaus undir áhrifum Guðmundar Böðvarssonar. Hún var jafnmikill hluti af æsku okkar á Húsafelli og Strútur og Eiríksjökull, fljótin, árnar og hraunið. Systurnar Imba í Fljótstungu og Rúna á Húsafelli voru nánar og mikill samgangur á milli bæja. Á Húsafelli er kapella og þar var messað oft á hverju sumri í mörg ár og Imba var organistinn. Hún spilaði í fermingum, við hjónavígslur og skírnir og bar með sér hátíðleika og spariskap. Fljótstungufólkið var líka sparifólk af því að samgangur var mestur á hátíðisdögum. Jól og áramót voru óhugsandi án þeirra og minningin um þau á gamlárskvöld er skýr, Árni skrafhreifinn og hláturmildur og Imba hljóðlátari en með kímnigáfuna á sínum stað.

Fljótstungufólkið, amma og móðursystkini mín, urðu fyrir hörmulegu áfalli þegar faðir hennar og eiginmaður drukknuðu á Arnarvatnsheiði. Imba mín ekki þrítug hélt á litla drengnum sínum undir skírn við kistur þeirra. Þau stóðu öll saman og komust í gegnum þetta á sinn hátt en þvílíkri byrði gætu ekki allir komist eins heilir frá og þau. Seinni maður Imbu, hann Árni, átti sinn þátt í því og var mikil gæfa fyrir hana þegar hann kom í Fljótstungu og þau áttu áratuga fallega samleið upp frá því.

Imba var menntuð og menntandi í bestu merkingu hugtaksins. Hún nýtti hæfileika sína vel, stjórnaði kórum, samdi og þýddi og skilur eftir sig undurfalleg lög og bókmenntir sem eiga eftir að lifa um ókomna tíð. Hún hefði átt skilið að heyra Dómkórinn flytja lög eftir hana í Reykholtskirkju fyrr í sumar en komandi kynslóðir fá að njóta uppskeru þess sem hún sáði. Þökk fyrir það og allt annað í þá rúmlega hálfu öld sem við áttum samleið.

Ingibjörg Kristleifsdóttir.