[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Landsvirkjun áformar að reisa í nánustu framtíð þrjár virkjanir á veituleið Blönduvirkjunar, það er frá uppistöðulóni að aflstöð.

Baksvið

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Landsvirkjun áformar að reisa í nánustu framtíð þrjár virkjanir á veituleið Blönduvirkjunar, það er frá uppistöðulóni að aflstöð. Þar á milli eru um það bil 25 kílómetrar og 69 metra ónýtt fallhæð sem nú á að fullnýta. Virkjunarkostur þessi þykir góður, þar sem til staðar eru miðlað rennsli, gott aðgengi og möguleikar til samþættingar við núverandi rekstur á svæðinu. „Bygging þessara þriggja virkjana er einn af nærtækustu virkjunarkostunum sem við höfum í dag. Umhverfisáhrifin eru lítil og framkvæmdin hagkvæm,“ segir Guðmundur R. Stefánsson, stöðvarstjóri Landsvirkjunar við Blöndu.

Orku þarf í Eyjafjörð

Unnin hefur verið matsskýrsla um umhverfisáhrif þessara framkvæmda og er hún nú til umfjöllunar hjá Skipulagsstofnun. Frestur til þess að skila inn athugasemdum rann út sl. föstudag, 25. júlí. Áður hafði verið meðal annars fundað með fólki í héraði og fleirum þar sem farið var ítarlega yfir áform þessa. Niðurstöðu Skipulagsstofnunar um áhrif þessara virkjana á umhverfið er vænst í haust.

Afstaða Skagafirðinga hefur áhrif í Blöndumálinu – það er hvort í framkvæmdir verði farið. Í dag stendur takmarkað framboð raforku uppbyggingu orkufrekri atvinnustarfsemi á Sauðárkróki og á Eyjafjarðarsvæðinu fyrir þrifum. Með virkjunum á veituleið Blönduvirkjunar á að bæta úr því, það er með háspennulínu sem Landsnet áformar að liggja myndi þvert yfir sveitir í framanverðum Skagafirði. Við það hefur verið nokkur andstaða meðal fólks á svæðinu.

Heildaraflið yrði 31 MW

Heildarafl virkjananna þriggja á veituleið Blöndu yrði alls 31 MW. Efst þeirra, það er upp við Blöndulón, yrði Kolkuvirkjun, sem nýta myndi allt að 17 metra fallhæð til framleiðslu 8 MW af raforku. Nokkrum kílómetrum neðar yrði Friðmundarvirkjun, 11 MW og fallhæðin 25 metrar. Úr svonefndri Smalatjörn yrði vatni veitt um nýjan 1.800 metra aðrennslisskurð í 0,4 km2 inntakslón sem myndað yrði meðal annars með stíflugarði. Úr lóninu kæmi annar skurður, 700 metra langur, sem lægi að inntaki virkjunarinnar. Útfallið þar færi í Austara-Friðmundarvatn, sem aftur yrði inntakslón Þramarvirkjunar nyrst og neðst í keðjunni. Uppsett afl þeirrar virkjunar yrði 12 MW og fall 27 metrar.

Blönduveitur voru settar í nýtingarflokk þegar svonefnd rammaáætlun um orkunýtingu var kynnt fyrir nokkrum misserum. Takmörkuð umhverfisáhrif voru útgangspunkturinn þegar virkjunarkostunum var raðað upp þar með tilliti til nýtingar eða verndar.

„Virkjanagerð hefur breyst mikið á undanförnum árum. Þú sérð kambinn þarna framundan, þetta er stífla sem var gerð fyrir nokkrum árum sem tekist hefur að fella svo vel inn í landslagið að ókunnugir verða hennar ekki varir. Svona eru öll framkvæmdaáform mátuð við landið í tölvugerðum myndum með það fyrir augum að umhverfisáhrif séu takmörkuð,“ sagði Guðmundur R. Stefánsson í síðustu viku þegar hann sýndi Morgunblaðinu fyrirhugað framkvæmdasvæði.

„Við nýtum alla þá aðstöðu sem fyrir er, þegar og ef út í þessar framkvæmdir verður farið. Við Blöndustíflu er svæði fyrir vinnubúðir sem nýtast myndu við Kolkuvirkjun en við hinar stöðvarnar yrði komið upp aðstöðu á um 10.000 fermetra svæði á hvorum stað. Aðrennslisskurðir eru að nokkru þegar til staðar og lón sömuleiðis. Það sem munar kannski mest um eru losunarsvæði jarðvegs og námurnar.“

Efni nýtt og gamlar námur

Guðmundur bætir við að eftir föngum yrði jarðvegur sem til fellur settur í þær stíflur og garða sem þarf að setja upp og grjót verði að miklu leyti sótt í námur sem voru opnaðar voru við gerð Blönduvirkjunar fyrir um aldarfjórðungi.

Áætlað sé þó að um 1,6 milljónir m3 af jarðefnum, umfram það sem nýtt verður aftur í tengslum við framkvæmdirnar, falli til. Vegna þess hafa landslagsarkitektar gert tillögur að átta efnislosunarsvæðum þar sem landform, fagurfræði og gróðurþekja voru þættir sem hafðir eru í huga svo umhverfisáhrifin yrðu í lágmarki

Hugsanlega allar samtímis

Helgi Jóhannsson hjá Landsvirkjun stýrir mati á umhverfisáhrifum fyrirhugaðra framkvæmda við Blöndu. Hann segir verkhönnun virkjananna nú að ljúka og hægt verði að hefja framkvæmdir vorið 2016 og gangsetja virkjanirnar að tveimur árum liðnum þaðan í frá. „Hugsanlega verða allar virkjanir byggðar samtímis,“ segir Helgi. Sá möguleiki sé einnig fyrir hendi að Friðmundarvirkjun og Þramarvirkjun verði byggðar fyrst en þær séu hagkvæmari en Kolkuvirkjun, það er stöðin upp við Blöndulón. Hann segir áætlað að verkefni þetta muni skapa 200 til 250 ársverk á framkvæmdatíma.

Hliðstæðar hugmyndir

Hugmyndin um virkjanirnar þrjár í Blönduveitu á sér íslenska hliðstæðu. Í Laxá í Þingeyjarsýslum eru þrjár virkjanir og þar nýtist 107 metra fallhæð til framleiðslu á 27,5 MW af raforku. Og í Soginu, þar sem einnig eru þrjár virkjanir, Steingrímsstöð, Ljósafoss og Írasfoss, skilar 75,5 metra fall 91 MW. Landfræðilegar aðstæður á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu eru hinar sömu, virkjanirnar þar eru 6 talsins; það er Búrfell, Sultartangi, Búðaháls, Hrauneyjarfoss, Sigalda og Vatnsfell. Þar er raunar verið að skoða hvort hægt sé að byggja sjöundu virkjunina, það er Búfell II, sem nýta myndi umframvatn sem nú rennur um hinn gamla farveg Þjórsár suður fyrir Búrfellið. Þá byggja fyrirætlanir um byggingu þriggja aflstöðva í neðri hluta Þjórsár, það er Urriðafoss, Holta, og Hvammsvirkjun, á sömu hugmynd, það er að nýta eins og aðstæðurnar leyfa fallhæð frá upptökum til ósa.

„Stefnan í dag hjá Landsvirkjun er sú að að auka orkuvinnslu á svæðum sem þegar eru nýtt og virkjanir eru fyrir. Almennt hefur það minni umhverfisáhrif og er betri kostur en ef farið er inn á óröskuð svæði,“ segir Helgi Jóhannesson hjá Landsvirkjun.

Ný Blöndulína mætir andstöðu meðal Skagfirðinga

• Skipulagsstofnun hefur þegar samþykkt umhverfisáhrif Hjá Landsneti er gert ráð fyrir að ný Blöndulína verði 220 Kv og liggi frá virkjun yfir í Skagafjörð og þar þvert um sveitir. Tveir valkostir eru í stöðunni um línustæði þar. Línan, sem yrði 107 kílómetrar á lengd, myndi svo liggja áfram um Öxnadalsheiði og fram dali í spennivirki við Akureyri. Skipulagsstofnun samþykkti fyrirhugaða línulagningu á síðasta ári en setti þó ákveðin skilyrði, svo sem endurheimt votlendis, áætlun um vöktun á flugi fugla á raflínur og að huga þyrfti að fornleifum á línusvæðinu.

Spillir möguleikum

Margir í Skagafirði setja sig upp á móti framkvæmdinni. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Mótmælaskilti hafa verið sett upp í héraðinu og fundir haldnir. Helga Rós Indriðadóttir á Hvíteyrum hefur verið framarlega í flokki þeirra sem andæfa og í samtali við Morgunblaðið á síðasta ári sagði hún sveitunga sína tilbúna að halda merki sínu og málstað hátt á lofti.

„Nei, fólk hér óttast ekki að þetta rýri verðgildi jarða. Við horfum á þetta í víðara samhengi, til dæmis að verði þessar fyrirætlanir að veruleika muni það spilla náttúru og draga úr möguleikum landbúnaðar og ferðaþjónustu,“ sagði Helga.