Þéttur hópur Þær Andrea Björk Andrésdóttir (t.v.), Berglind Sunna Stefánsdóttir, Valgerður Þóroddsdóttir og Anna Gyða Sigurgísladóttir vinna að verkefninu Reconesse Database sem er alþjóðlegur gagnagrunnur.
Þéttur hópur Þær Andrea Björk Andrésdóttir (t.v.), Berglind Sunna Stefánsdóttir, Valgerður Þóroddsdóttir og Anna Gyða Sigurgísladóttir vinna að verkefninu Reconesse Database sem er alþjóðlegur gagnagrunnur. — Morgunblaðið/Þórður
Ingileif Friðriksdóttir if@mbl.

Ingileif Friðriksdóttir

if@mbl.is

„Við á Íslandi höfum ekki staðið okkur vel með kynjahlutföll í sögubókum í skólum og svipað vandamál má finna víða um heim og þess vegna vildum við búa til síðu sem hýsir gagnagrunn yfir merkilegar konur,“ segir Berglind Sunna Stefánsdóttir, en hún er ein af upphafsmanneskjum verkefnisins Reconesse Database, sem kemur til með að hýsa alþjóðlegan gagnagrunn á netinu. „Það að gera konur sýnilegri teljum við draga okkur nær jafnrétti kynjanna,“ segir Berglind.

Gagnagrunnurinn er ekki orðinn aðgengilegur ennþá, en heimasíðan reconesse.org var opnuð á dögunum og er þar hægt að skrá sig á póstlista, senda inn tillögur að merkilegum konum og skrifa um þær greinar.

Fortíð, nútíð og framtíð

Að sögn Berglindar verður heimasíðan þrískipt; fortíð, nútíð og framtíð. Fortíðarhlutinn verður gagnagrunnur yfir merkilegar konur sem hafa haft áhrif á gang sögunnar en ekki endilega ratað í skólabækur. Nútímahlutinn verður fréttaveita um konur sem eru að gera flotta hluti í dag og mikilvæga í jafnréttisbaráttunni um allan heim. Að lokum verður framtíðarhlutinn gagnagrunnur með yfirliti yfir tækifæri sem konur geta nýtt sér eftir að hafa fyllst innblæstri og fengið hugmyndir frá síðunni. „Þetta er hugsað sem nokkurs konar ferli. Maður skoðar og fræðist, fyllist innblæstri og gerir svo sitt eigið,“ segir hún.

Berglind Sunna stundaði nám við KaosPilot, frumkvöðlaskóla í Danmörku, en hugmyndin að síðunni kviknaði þegar hún var í vinnuferð með skólanum í Kólumbíu. Þar heyrði hún fyrst getið konu að nafni Policarpa Salavarrieta, sem var njósnari og frelsishetja í landinu á 19. öld. „Þegar ég frétti af henni tók ég eftir því að hún var fyrirmynd margra stelpna í Kólumbíu og ég áttaði mig á því að ég hafði aldrei heyrt um hana,“ segir Berglind. „Ég bar þetta undir vini mína sem eru sagnfræðingar og enginn kannaðist við hana,“ bætir hún við. Berglind segir ákveðna forvitni hafa kviknað í kjölfarið um það hvaða fleiri kvenfyrirmyndir væru þarna úti sem hún hefði aldrei heyrt af. „Stuttu seinna las ég grein um það hvað við stæðum okkur illa með konur í sögukennslu hérna á Íslandi,“ segir Berglind, en hún ákvað að nota hugmyndina í lokaverkefni sitt í skólanum. Í dag starfa átta einstaklingar að verkefninu, en því hafa verið veittir ýmsir styrkir, þar á meðal frá Rannís og Evrópu unga fólksins. „Þetta hefur hjálpað okkur gríðarlega,“ segir Berglind.

Koma efninu í skólabækur

Undirbúningsvinna Reconesse Database hefur staðið í rúmt ár og nú þegar er búið að skrifa um 60 prófíla fyrir gagnagrunninn. Stefnt er að því að þeir verði mun fleiri. Að sögn Berglindar Sunnu hafa nú þegar nokkrir kennarar samþykkt að prófa efnið í kennslu þegar það er tilbúið. „Við stefnum á að vera komin með beta-útgáfu núna í haust og ætlum að prufukeyra hana á afmörkuðum hópum,“ segir Berglind. „Við höfum einblínt á að finna konur sem passa inn í námsefnið og bækurnar sem eru kenndar á fyrsta ári í menntaskóla svo það sé hægt að bæta því beint inn í kennsluefnið.“ Síðan er alþjóðleg og stefnan því sett á skóla erlendis líka. „Við byrjum á að prófa hana á ungu fólki hér og förum svo með hana út og sjáum hvað gerist,“ segir Berglind.