Sumarsól Ein skipuleggjenda hátíðarinnar segist vera brennd eftir slæmt veður í fyrra en segir útlitið betra í ár. Myndin er frá hátíðinni árið 2012.
Sumarsól Ein skipuleggjenda hátíðarinnar segist vera brennd eftir slæmt veður í fyrra en segir útlitið betra í ár. Myndin er frá hátíðinni árið 2012. — Morgunblaðið/Sigurður Ægisson
„Við erum illa brennd eftir veðrið á síðasta ári en veðurspáin er okkur sæmilega hliðholl í ár,“ segir Aníta Elessen, ein skipuleggjenda hátíðarinnar.

„Við erum illa brennd eftir veðrið á síðasta ári en veðurspáin er okkur sæmilega hliðholl í ár,“ segir Aníta Elessen, ein skipuleggjenda hátíðarinnar. Hún segir að gert sé ráð fyrir um það bil fimm þúsund gestum á hátíðina í ár sem sé svipað og undanfarin ár.

„Við reynum eins og hægt er að láta sögu staðarins skína í gegn á hátíðinni en markmiðið er að þetta sé fjölskylduvæn hátíð og það sé skemmtun í boði fyrir alla aldurshópa,“ segir Aníta.

Aðspurð hvort það verði síld að finna á hátíðinni svarar hún um hæl að það verði stórt síldarhlaðborð á sunnudeginum á torginu þar sem gestum er boðið upp á síld og rúgbrauð og fleiri tunnur hafi farið út af síld í fyrra. Hún segir að einnig sé keppt í eldamennsku þar sem síldin sé í aðalhlutverki.

„Þeir á veitingastaðnum Hannes Boy, sem stendur niðri við höfnina, standa fyrir keppni um besta síldarréttinn um helgina. Það hefur verið gert áður og vakti keppnin þá mikla lukku. Fólk hefur ekkert svo mörg tækifæri til að spreyta sig á síldaruppskriftum svo þetta er mjög vinsælt,“ segir Aníta.

Þá segir hún að síld verði söltuð fjórum sinnum um helgina á Síldarminjasafninu. Aníta segir að hátíðin sé þó alls ekki hugsuð fyrir þá sem hafa sérstakan áhuga á síld heldur sé hún fyrir alla.

„Þetta er bara bónus fyrir þá sem njóta þess að borða síld,“ segir Aníta og hlær.

Meðal þess sem verður í gangi á hátíðinni fyrir þá sem minni áhuga hafa á síld spilar hljómsveitin Kaleo fyrir gesti hátíðarinnar. Þá munu lærdómsþyrstir hátíðargestir eiga þess kost að læra á bongótrommur og afríska dansa svo fátt eitt sé nefnt. Frítt verður á hátíðina að sögn Anítu en borga þarf inn á böllin. ash@mbl.is