Agnes Bragadóttir agnes@mbl.is Þótt sátt sé í öllum megindráttum á milli stjórnarflokkanna um niðurstöður stóru málanna í fjárlagafrumvarpi Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, er ágreiningur um með hvaða hætti eigi að breyta virðisaukaskattkerfinu.

Agnes Bragadóttir

agnes@mbl.is

Þótt sátt sé í öllum megindráttum á milli stjórnarflokkanna um niðurstöður stóru málanna í fjárlagafrumvarpi Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, er ágreiningur um með hvaða hætti eigi að breyta virðisaukaskattkerfinu. Frumvarpið verður kynnt þingflokkum stjórnarflokkanna í ágústmánuði. Niðurstaða þess er að fjárlög verði afgreidd með nokkurra milljarða króna tekjuafgangi.

Sjálfstæðismenn vilja lækka efra þrep skattsins úr 25,5% í 24,5% að lágmarki og hækka í áföngum, neðra þrepið fyrst í 11%, svo í 14%, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins. Jafnframt vilja sjálfstæðismenn leggja af flest vörugjöld.

Ákveðnir framsóknarmenn eru því andvígir að neðra þrepið, 7% skatturinn, oft nefnt matarskatturinn, verði hækkað. Engin niðurstaða hefur enn fengist í þetta ágreiningsmál stjórnarflokkanna.

Stórmál fyrir skattkerfið

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir m.a. í samtali við Morgunblaðið í dag: „Virðisaukaskattkerfið má ekki vera eins og gatasigti. Við viljum breikka skattstofninn og að fleiri taki þátt í að borga virðisaukaskattinn. Við viljum gera þessa skattheimtu skilvirkari.“ Fjármálaráðherra segir einnig: „Þetta er stórmál fyrir skattkerfið, til þess að við getum einbeitt okkur að því að lækka það sem hægt er að lækka í framhaldinu.“

Viðmælendur leggja áherslu á að breytingar á virðisaukaskattkerfinu séu ekki hugsaður sem tekjuauki fyrir ríkissjóð, heldur eigi að einfalda starfsumhverfi atvinnulífsins og líka það sem snýr að skattkerfinu, eins og Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, orðar það.

„Ég tel vera mjög mikilvægt að breytingar á skattkerfinu komi ekki niður á þeim sem minnst hafa á milli handanna,“ segir Eygló.