Félag Úlfars og Kristjáns eignaðist Toyota á Íslandi að fullu vorið 2013.
Félag Úlfars og Kristjáns eignaðist Toyota á Íslandi að fullu vorið 2013. — Morgunblaðið/Sigurgeir
Hörður Ægisson hordur@mbl.is Hlutafé Toyota hækkað um 390 milljónir til að mæta taprekstri. Viðskiptavild lækkuð um 600 milljónir.

Eftir tæplega 900 milljóna króna tap á rekstri Toyota á Íslandi á síðasta ári, sem kom til að stærstum hluta vegna niðurfærslu á viðskiptavild, var hlutafé félagsins nýlega hækkað úr 222 milljónum í 612 milljónir. Á hluthafafundi Toyota hinn 5. júní var hlutafé félagsins í kjölfarið lækkað um 551,5 milljónir til að mæta uppsöfnuðu tapi á rekstrinum.

Úlfar Steindórsson, forstjóri Toyota á Íslandi, segir í samtali við Morgunblaðið að viðskiptavild félagsins hafi verið lækkuð úr 1.675 milljónum í 1.075 milljónir. Lækkunin endurspegli þá staðreynd að þær rekstraráætlanir sem lagt var upp með við fjárhagslega endurskipulagningu félagsins, sem lauk í ársbyrjun 2012, hafi ekki ræst. „Frá og með vorinu 2012 og á árinu 2013 varð ekki sú aukning í bílasölu sem vonast var eftir,“ útskýrir Úlfar.

Það var eignarhaldsfélagið Bifreiðainnflutningar, sem er í eigu Úlfars og Kristjáns Þorbergssonar, framkvæmdastjóra fjármálasviðs Toyota, sem stóð að baki hlutafjáraukningunni, að hluta til með fjármögnun frá Landsbankanum. Toyota á Íslandi er að fullu í eigu Úlfars og Kristjáns eftir að þeir keyptu 40% hlut Landsbankans vorið 2013.

Úlfar og Kristján tóku við rekstri Toyota þegar þeir eignuðust 60% hlut í félaginu í júní 2011 en Landsbankinn hélt þá eftir 40% eignarhlut. Var samkomulagið hluti af viðamiklu uppgjöri Toyota á Íslandi við Landsbankann þar sem skuldir voru lækkaðar um samtals 3,76 milljarða króna. Skuldum fyrirtækisins var þá breytt í hlutafé auk þess sem gerð var leiðrétting á erlendum lánum félagsins.

Eftir að hlutafé Toyota var lækkað til jöfnunar tapi stendur það í um 60 milljónum. Eiginfjárhlutfall Toyota er í dag því aðeins lítillega jákvætt.

Aðspurður segist Úlfar hins vegar ekki reikna með að grípa þurfi til frekari aðgerða til að styrkja fjárhagsstöðuna. „Eigið fé er að styrkjast þar sem félagið hefur skilað hagnaði það sem af er þessu ári. Sala á nýjum bílum hefur aukist um 25% frá því á sama tíma fyrir ári og allt útlit fyrir að framundan séu raunveruleg umskipti á þessum markaði.“