Kjartan Örn Kjartansson
Kjartan Örn Kjartansson
Eftir Kjartan Örn Kjartansson: "Vænta má að uppbygging einkaaðila verði fyrr á ferðinni, fjölbreyttari og skemmtilegri en það sem er undir lognhatti ríkisforræðisins"

Fyrir stuttu birtist hér í blaðinu grein eftir gamlan kunningja vestan úr bæ, Ólaf Schram ferðamálamann, og ráðlegg ég þeim, sem misstu af henni að verða sér úti um hana. Ólafur fór um víðan völl og var m.a. með hugleiðingar um hvernig ætti og ætti ekki að skipuleggja ferðamannastaði og ferðir um landið og kom svo með þann skemmtilega vinkil, að það megi ekki taka sjarmann af ævintýrinu Ísland með fábreytni og fjöldarútulanglestum einum saman og það að óbrúaðar sprænur og drulludý hafi einnig sitt seiðmagn, sem er auðvitað rétt.

Það er úr vanda að ráða í þessum efnum með öllum þeim fjölda, sem heimsækir landið nú orðið og með sama áframhaldi verður þess e.t.v. ekki langt að bíða að fólk fari að detta út af stútfullu skerinu til náttúrulegra sjóbaða, líklega gratís nema það muni þá þurfa eitthvert opinbert sjóbréf til. En málið er stórt og mikilvægt og það þarf að gera einhverja samræmda áætlun um þessi mál, sem mér reyndar skilst að sé á leiðinni, en sem fyrr þá fellur mér ekki alls kostar við það og tel ekki farsælt ef aðeins ríkið megi og eigi að standa að þessum málum í einu og öllu eins og mér sýnist að hinn ágæti Ólafur vilji einmitt ekki að verði. Ef það er rétt skilið hjá mér þá er ég sammála þér, Óli minn, enda yrði væntanlega allt straujað eins með sama flata og hugmyndasnauða nefndajárninu.

Ríkisvæðing og hindranir

Það er athyglisvert að yfirráð ríkisins skuli vera andstæð gjaldtöku að ferðamannastöðum til viðhalds og uppbyggingar þeirra jafnvel þótt þeir séu í umsjón og eigu einkaaðila, nema þá að það sjálft sjái um innheimtuna og útdeilingu á eftirtekjunni, en þá má gera ráð fyrir að eitthvað kvarnist úr slíkum sjóðum að vanda í eigin rekstur og fundahöld væntanlegrar eftirtekjuútdeilingarstofu. Ég minni einnig á ríkisinnanlandsferðaognáttúruskoðunarheimildarpassann eða Reichsbeschränkterreiseundnaturbeschauungserlaubnispass, sem er hugmynd, sem ég hef reyndar ekki séð útfærða, en kann að ganga upp, en er síður góð hugmynd fyrir minn smekk ef hún á að ganga yfir einkarekstur og einkaeigur manna.

Allar hendur upp á dekk

Ríkið er loksins farið að setja peninga til málaflokksins, en það þarf mikið fé til þess að standa undir þeirri stóru uppbyggingu og öllu því mikla viðhaldi og áframhaldandi viðhaldi sem þarf að gerast og má ekki bíða. Því væri best að sem flestir kæmu að málinu til þess að sem mest gott verði gert sem fyrst. Það er ávallt svo og er eðli máls að einstaklingurinn hefur forskot á hið opinbera er kemur að hugmyndaauðgi og nýbreytni. Einstaklingurinn hefur gjarnan viljann, en til þess að kraftur einkaframtaksins fái að leysast sem mest og best úr læðingi þarf hið opinbera að fara frá og vera ekki fyrir þar sem það á ekki við, heldur ætti það að fagna því að sköpunargleðin fái notið sín. Það finnst öllum eðlilegt að greiða fyrir það sem þeir fá. Hvers vegna má þá ekki leyfa einkaaðilum að selja aðgang að eigin landi í viðkomandi tilgangi, en þeir, eins og aðrir, þurfa þá jafnframt að gæta hófs í afgjaldinu svo að það mælist vel fyrir og að gestir vilji þá nýta sér þjónustu viðkomandi. En það er einkennilegur andskoti að ríkisforsjáin sé á móti því, að sem mest verði til sem víðast og vilji ekki nýta frumkvæði einstaklingseljunnar og að flýtt sé fyrir almennri eflingu á sviðinu eða þá að létt verði á ríkissjóði og skattgreiðendum. Vænta má að viðhald og uppbygging einkaaðila verði fyrr á ferðinni og fjölbreyttari og skemmtilegri en það, sem er eitt og eingöngu undir lognhatti ríkisforræðisins.

Höfundur er fyrrverandi forstjóri.