Þrif Nú geta Borgnesingar þrifið bílana sína innan sveitarfélagsins.
Þrif Nú geta Borgnesingar þrifið bílana sína innan sveitarfélagsins. — Morgunblaðið/Golli
Fyrsta og eina bílaþvottaaðstaðan í Borgarnesi var opnuð í gær við bensínstöð OLÍS í bænum. Íbúar Borgarbyggðar hafa í langan tíma beðið bensínstöðvar í sveitarfélaginu að koma upp slíkri aðstöðu.

Fyrsta og eina bílaþvottaaðstaðan í Borgarnesi var opnuð í gær við bensínstöð OLÍS í bænum. Íbúar Borgarbyggðar hafa í langan tíma beðið bensínstöðvar í sveitarfélaginu að koma upp slíkri aðstöðu.

Sigurjón Bjarnason hjá OLÍS segir framkvæmdina gerða í samráði við bæjarstjórn. „Bílaþvottaaðstöðu hefur lengi vantað í Borgarbyggð, enda höfum við fengið mikið hrós fyrir framkvæmdirnar en við unnum þær í samráði við bæjarfélagið. Þetta er ekki beinlínis arðbær fjárfesting, en við erum að þjóna viðskiptavinum okkar og það er frábært að geta gert það. Menn hafa beðið eftir bílaþvottaaðstöðu lengi í Borgarnesi og loksins fá þeir slíka aðstöðu.“

Björn Bjarki Þorsteinsson, forseti bæjarstjórnar í Borgarbyggð, fagnar opnun bílaþvottaaðstöðunnar. „Þetta er mikið gleðiefni og við, bæði íbúar og ferðafólk, höfum margsinnis óskað eftir því að olíufélögin bæti úr hvað þessa sjálfsögðu aðstöðu varðar,“ segir hann. „Loksins er þetta að gerast, að OLÍS opni bílaþvottaaðstöðu í Borgarnesi. Það er löngu orðið tímabært að boðið sé upp á þessa þjónustu. Þetta er þjónusta sem olíufélög um allt land veita.“

Þá segir Björn mikið af malarvegum í sveitarfélaginu en þeir verða drullugir og gera bíla skítuga. Um 800 kílómetrar eru af vegum í sveitarfélaginu. Þá bætir Björn við að hann viti ekki til þess að aðrar bensínstöðvar í bænum ætli að opna bílaþvottaaðstöðu. isb@mbl.is