Leiðangur Mynd sem sýnir leið geimvagnsins Opportunity á Mars.
Leiðangur Mynd sem sýnir leið geimvagnsins Opportunity á Mars. — AFP
Washington. AFP. | Geimvagninn Opportunity hefur nú ekið lengri vegalengd á Mars en nokkurt annað farartæki sem sent hefur verið til annarra hnatta, að sögn Geimferðastofnunar Bandaríkjanna (NASA).

Washington. AFP. | Geimvagninn Opportunity hefur nú ekið lengri vegalengd á Mars en nokkurt annað farartæki sem sent hefur verið til annarra hnatta, að sögn Geimferðastofnunar Bandaríkjanna (NASA).

Frá því að geimvagninn var sendur til Mars árið 2004 hefur hann ekið rúma 40 kílómetra á plánetunni. Fyrra metið átti sovéski geimvagninn Lúnokhod 2 sem lenti á tunglinu 15. janúar 1973 og fór 39 kílómetra á tæpum fimm mánuðum, að sögn Geimferðastofnunar Bandaríkjanna.

„Opportunity hefur ekið lengra en nokkurt annað farartæki á hjólum á öðrum hnetti,“ sagði John Callas, sem stjórnar rannsóknarleiðangri geimvagnsins. „Þetta er merkilegt í ljósi þess að Opportunity átti aðeins að fara einn kílómetra og var ekki hannaður fyrir langferðir.“

Ólíklegt að Curiosity slái metið

Opportunity og geimvagninn Spirit, sem er nú óvirkur, hafa aflað upplýsinga um jarðveginn á Mars og meðal annars fundið ummerki um vatn og vísbendingar um að þar hafi verið lífvænlegar aðstæður.

Annar geimvagn, Curiosity, lenti á Mars árið 2012 og hefur nú ekið um 8,6 kílómetra. Hann er tvöfalt lengri en Spirit og Opportunity og öflugasta tæki sem komið hefur verið fyrir á annarri reikistjörnu. Vísindamenn NASA telja þó ólíklegt að Curiosity slái met Opportunity, að sögn Guy Webster, talsmanns geimferðastofnunarinnar.

„Opportunity á eftir að fara lengra og enginn veit hversu langt geimvagninn kemst,“ sagði Webster.