Ferðahelgi Í tilkynningu frá Samgöngustofu kemur fram að sá sem ekki er spenntur í bílbelti er mun líklegri til að slasast alvarlega lendi hann í slysi.
Ferðahelgi Í tilkynningu frá Samgöngustofu kemur fram að sá sem ekki er spenntur í bílbelti er mun líklegri til að slasast alvarlega lendi hann í slysi. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Líkt og hefur sennilega ekki farið fram hjá nokkrum landsmanni er verslunarmannahelgin, ein mesta ferðahelgi sumarsins, framundan.

Líkt og hefur sennilega ekki farið fram hjá nokkrum landsmanni er verslunarmannahelgin, ein

mesta ferðahelgi sumarsins, framundan.

Samgöngustofa hvetur í tilkynningu ökumenn til aðgæslu og minnir á mikilvægi þess að nota viðeigandi öryggisbúnað eins og öryggisbelti sama hversu langt eða stutt er farið.

„Það hefur margoft sýnt sig að einstaklingur sem ekki er spenntur í bílbelti er mun líklegri til að slasast alvarlega og jafnvel látast lendi hann í slysi. Miðað við slysatölur undanfarinna ára má ætla að nokkur hluti þeirra sem létust í umferðinni í bifreiðum hefðu komist lífs af með því að nota öryggisbelti. Um síðustu verslunarmannahelgi létust tvær stúlkur í bílveltu sem varð á Suðurlandsvegi. Í skýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa segir að stúlkurnar hafi kastast út úr bifreiðinni þegar hún valt en þær hafi ekki verið í bílbeltum. Þá segir ennfremur í skýrslunni að vanhöld á bílbeltanotkun séu ein af algengustu orsökum banaslysa í umferðinni. Nefndin ítrekar fyrri ábendingar sínar um að ökumenn og farþegar noti alltaf bílbelti, hvort sem er í fram- eða aftursæti. Njótum helgarinnar „spennt“ – komum heil heim,“ segir í tilkynningunni.

Hámarkshraði líka á sumrin

Þóra Magnea Magnúsdóttir, fræðslustjóri hjá Samgöngustofu, segir að þrátt fyrir að umferð dreifist nú yfir lengra tímabil en áður skipti það miklu máli að sýna tillitssemi og þolinmæði þessa helgi.

Þá segist hún hafa tekið eftir aukinni sölu hjólhýsa í sumar þannig að gera megi ráð fyrir að margir séu með ferðavagna þessa helgi. „Þá þarf að huga að tengingum í vagninum og að vera með spegla í lagi. Fyrst og fremst þarf fólk að athuga hvort bíllinn sem það keyrir geti dregið ferðavagninn. Við sjáum oft litla bíla draga stóra ferðavagna,“ segir Þóra.

Hún segir að um verslunarmannahelgina sé oft kvartað undan „lestarbílstjórum“, það er bílstjórum sem aki hægar en ferðahraðinn.

„Það á enginn að aka hraðar en hann treystir sér til,“ segir Þóra en bætir við að viðkomandi aðilar eigi þá að hleypa öðrum bílum fram úr sér með ábyrgum hætti. Það sé gert með því að gefa til kynna með stefnuljósi hvenær sé óhætt að taka fram úr. Varast skuli þó allan óþarfa framúrakstur.

Þá segir hún að fólk átti sig oft ekki á því hvað það tekur langan tíma fyrir áfengi að brotna niður í líkamanum og fólk skuli hafa það í huga um helgina. ash@mbl.is