Íslandspóstur hefur einkarétt á að flytja póst undir fimmtíu grömmum.
Íslandspóstur hefur einkarétt á að flytja póst undir fimmtíu grömmum. — Morgunblaðið/Eggert
Kristinn Ingi Jónsson kij@mbl.is Forstjóri Íslandspósts segir að alþjónustuhluti félagsins hafi verið rekinn með ófullnægjandi hætti. Útlit er fyrir áframhaldandi taprekstur.

Íslandspóstur tapaði 119 milljónum króna í fyrra samanborið við 53 milljóna króna hagnað árið áður.

Það liggur í hlutarins eðli að þegar tekjur standa ekki undir kostnaði, þá hefur það í för með sér taprekstur, segir Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts. „Ef magn bréfa fer minnkandi á næstu árum, eins og fyrirsjáanlegt er, þá batnar ástandið ekki og gengið er á eigið fé félagsins sem er í eigu landsmanna allra.

Íslenska ríkið hefur þá skyldu lögum samkvæmt að tryggja öllum landsmönnum aðgang að póstþjónustu með ákveðnum gæðum og á viðráðanlegu verði.

Íslandspóstur hefur samkvæmt sérstöku rekstrarleyfi tekið að sér þessa þjónustu og eins og staðan er nú, þá er gengið á eigið fé félagsins til þess að standa undir henni. Þegar svo háttar til kemur að því að ríkisvaldið verður með einhverjum öðrum hætti að finna leiðir til þess að póstþjónustan geti staðið undir sér.“

Þar komi þrennt til greina: að draga úr kostnaði við óarðbæra þjónustu, veita framlag úr ríkissjóði til þess að halda uppi tilskilinni þjónustu eða hækka verð fyrir veitta þjónustu.

Á undanförnum árum hafa þær verðhækkanir á póstburði á bréfum innan einkaréttar, sem Íslandspóstur hefur talið nauðsynlegar, ekki gengið eftir að fullu. Af þessum ástæðum hafa tekjur Íslandspósts verið lægri en vonir stóðu til. Það hefur leitt til taprekstrar hjá félaginu.

Ekki er hægt að hækka verðið á bréfum án samþykkis Póst- og fjarskiptastofnunar. Eins og greint hefur verið frá munu bréf innan einkaréttar hækka um 11,5%, en beiðni Íslandspósts var um hækkun sem næmi á bilinu 19-26%.

Í erindi Íslandspósts er vísað til þess að þó að þær hækkanir, sem félagið fór fram á, hefðu gengið eftir, þá myndi afkoma félagsins áfram verða neikvæð.

Íslandspóstur hefur einkarétt á að flytja póst sem er undir fimmtíu grömmum. Hins vegar hvílir svokölluð alþjónustuskylda á félaginu, sem felst í því að dreifa allt að tuttugu kílóa sendingum um allt land alla virka daga ársins. Hluti þeirrar þjónustu er á samkeppnismarkaði en annar er utan virkra markaðssvæða, enda kostnaður við dreifingu þar jafnan meiri en nemur tekjum.

Ingimundur segir að alþjónustuhluti félagsins hafi verið rekinn með ófullnægjandi hætti. „Ástæðan fyrir því er fyrst og fremst sú að bréfum fækkar jafnt og þétt og Íslandspósti er skylt að halda uppi tiltekinni þjónustu samkvæmt lögum og reglugerðum.

Þannig að við höfum hvorki fullt forræði yfir því að ákvarða verð fyrir veitta þjónustu né að draga úr kostnaði á móti minnkandi magni. Það er þetta misvægi sem veldur því að afkoman á þessum hluta rekstrarins er ófullnægjandi.“

Meiri samdráttur á næstu árum

Á fyrstu fimm mánuðum ársins varð 12% samdráttur í bréfamagni borið saman við sama tímabil í fyrra. Fyrri áætlanir félagsins gerðu ráð fyrir að bréfamagn myndi minnka um 5% á milli áranna 2013 og 2014, en ekki 12%, líkt og raunin er.

Einkarétturinn nemur um 40% af tekjum félagsins. Ingimundur segir að grípa hafi þurft til ýmissa aðgerða til að mæta tekjutapi af þessum samdrætti. Það hafi hins vegar ekki dugað til, því minnkunin sé það mikil. Áætlað er að samdráttur í bréfasendingum í einkarétti verði allt að 20% á næstu fimm árum.

Hann bendir þó á að samkeppnisrekstur Íslandspósts styðji vel við rekstur félagsins og hafi almennt skilað ágætri afkomu og drjúgum tekjum til þess að standa undir dreifikerfi þess.