Vefsíðan Þýsku vöruhönnunarverðlaunin Red Dot voru veitt fyrr í mánuðinum.

Vefsíðan

Þýsku vöruhönnunarverðlaunin Red Dot voru veitt fyrr í mánuðinum. Hundruð fyrirtækja senda þar inn sínar nýjustu vörur í von um að hreppa þá eftirsóttu vegtyllu sem verðlaunin eru, og um leið laða til sín heilu hjarðirnar af neytendum með næmt skynbragð á stefnur og strauma í hönnun.

Nú má finna á heimasíðu Red Dot netsýningu á vinningshöfunum í ár og ekki úr vegi að líta þar inn, til að vera með á nótunum.

Hver veit nema íslenskir framleiðendur geti þar fundið innblástur, eða í það minnsta séð hvað erlendir keppinautar eru að afreka. Slóðin er www.red-dot.org og þarf að velja „online exhibition“ vinstra megin.

Eins og fyrri ár eru verðlaunagripirnir af ýmsum toga, allt frá úthugsuðum fiðlutöskum og íþrótta-brjóstahöldurum yfir í stílfærða ísskápa, skrifborðsstóla, ljósritunarvélar og stígvél.

Sumir vinningshafarnir láta ekki mikið yfir sér, eins og ECSTA PS91-bíldekkið frá Kumho, sem þykir sameina snotra hönnun og mikið notagildi. Aðrir handhafar Red Dot-verðlaunanna geta hýst heilu fjölskyldurnar, eins og fjöldaframleiddu einingahúsin Tind frá sænska fyrirtækinu Fiskarhedenvillan, sem dómnefndinni þykir hið prýðilegasta dæmi um gegnheilan arkitektúr.