[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Víðir Sigurðsson vs@mbl.

Fótbolti

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

„Ég ætla að halda áfram að spila fótbolta, það er alveg á hreinu, svo framarlega sem ég finn eitthvert lið sem hentar mér og fjölskyldunni,“ sagði knattspyrnumaðurinn Eiður Smári Guðjohnsen í samtali við Morgunblaðið í gær.

Eiður er laus allra mála hjá Club Brugge í Belgíu þar sem hann hefur spilað síðustu átján mánuðina. Fregnir bárust af því í gærmorgun að hann væri að æfa með danska úrvalsdeildarliðinu OB en með því spilar liðsfélagi hans úr landsliðinu síðustu árin, Ari Freyr Skúlason. Eiður sagði að hann væri ekki á leiðinni til félagsins þó hann væri þar við æfingar í bili.

Að mínu frumkvæði

„Það er ekkert á bakvið það annað en að ég er staddur í Danmörku til að fylgjast með Sveini syni mínum spila með U17 ára landsliðinu. Mig langaði til að komast í fótbolta svo ég hafði samband við Ara til að kanna hvort ég mætti mæta á æfingu hjá OB. Það var auðsótt mál og ætli ég mæti ekki á 2–3 æfingar í viðbót á meðan ég er hérna. En það er ekkert í gangi að öðru leyti með það, þetta var algjörlega að mínu frumkvæði, en vakti greinilega strax einhverja athygli og vangaveltur,“ sagði Eiður.

Sveinn Aron sonur hans, sem er sextán ára gamall og spilar með 2. og 3. flokki HK, er í íslenska drengjalandsliðinu sem tekur þátt í Norðurlandamótinu í Danmörku þessa dagana.

Eiður kvaðst vera að skoða framhaldið í rólegheitunum. „Ég held áfram einhvers staðar, það er allavega stefnan. Mér finnst alltof gaman í fótbolta ennþá til þess að fara að hætta strax. Ég er í fínu standi, algjörlega laus við meiðsli, og er bara að horfa í kringum mig hvort eitthvað komi upp sem hentar mér.“

Fyrirspurnir frá Ástralíu og Asíu

Síminn hefur hringt nokkrum sinnum. „Já, það hafa verið þreifingar hér og þar en þá hefur fyrst og fremst verið um eitthvað að ræða sem ekki hefur verið nógu spennandi vegna fjarlægðarinnar. Ég hef til dæmis fengið fyrirspurnir frá Ástralíu og Asíu en það er of langt í burtu fyrir mig,“ sagði Eiður Smári sem verður 36 ára í haust.

Um þessar mundir eru nákvæmlega 20 ár síðan hann hóf atvinnuferilinn með PSV Eindhoven í Hollandi, eftir að hafa verið markahæsti leikmaður Vals tímabilið 1994, þá tæplega sextán ára gamall.