Það má heldur betur búast við fjöri hér innanlands í dag, en þetta er síðasti dagurinn sem félagaskiptaglugginn er opinn í fótboltanum.
Það má heldur betur búast við fjöri hér innanlands í dag, en þetta er síðasti dagurinn sem félagaskiptaglugginn er opinn í fótboltanum. Nú fer hver að verða síðastur að grípa þá bita sem bjóðast á markaðnum, ef einhverjir eru eftir, en þessi lokadagur getur oft verið óútreiknanlegur og hlutirnir fljótir að gerast.

Nú þegar hefur verið nokkurt líf í mannabreytingunum. Menn eins og Jóhann Laxdal og Steven Lennon eru komnir aftur í deildina og aðrir hafa yfirgefið hana eins og Ögmundur Kristinsson og Þorsteinn Már Ragnarsson. Svo eru enn aðrir spennandi leikmenn sem hafa fært sig um set innan hennar og vonast til að blómstra á nýjum stað.

Mig grunar að margir stuðningsmennirnir hafi miklar væntingar til dagsins, kannski of miklar, og vonist til að leggjast á koddann í kvöld uppfullir af bjartsýni yfir framtíð síns liðs. Sumir virðast oft halda að mannabreytingar séu lausn á öllum vandkvæðum. Það er bara ekki svo einfalt.

Fyrir utan peningahliðina, sem oft er stærsti þátturinn, tekur auðvitað tíma að venjast nýjum aðstæðum, liði og samherjum. Auðvitað eru leikmenn sem hafa reynst dýrmætur fengur og við höfum séð það gerast í gegnum tíðina. En að ætla sér að leggja allt traust á ný andlit til að snúa gengi liðs við er ekki rétt nálgun að mínu mati.

Svona svipað og að ætla alltaf að reka þjálfarann ef ekkert gengur. Íslensk lið hafa oft verið svolítið fljót á sér að henda burt þjálfaranum í stað þess að leggja á hann traust og byggja upp stöðugleika. Það er enginn farinn enn það sem af er sumri í Pepsi-deild karla, en verður spennandi að sjá.