Kolbrún Bergþórsdóttir: "Þjóðir hljóta að hafa rétt á því að verja sig ef á þær er ráðist. Um leið ætti öllum að vera ljóst að dráp á börnum á ekkert skylt við vörn."

Þjóðir hljóta að hafa rétt á því að verja sig ef á þær er ráðist. Um leið ætti öllum að vera ljóst að dráp á börnum á ekkert skylt við vörn. Þess vegna ber að fordæma framferði Ísraelsmanna á Gaza og koma vanþóknun og hryggð vel til skila til ríkisstjórnar Ísraels. Þar hefur Ísland hlutverki að gegna eins og aðrar þjóðir. Um leið og við horfum í sjónvarpsfréttum á foreldra á Gaza leita að líkamsleifum barna sinna í rústum getum við ekki bara yppt öxlum og sagt að óhjákvæmilegt sé að börn þjáist í stríðsátökum, þau hljóti að láta lífið eins og aðrir borgarar og auk þess séu þessi átök í fjarlægum heimshluta og komi okkur ekkert við og nógu sé nú að sinna hér heima. Við eigum ekki að lifa lífinu í skeytingarleysi gagnvart þjáningum annarra. Hluti af því að vera manneskja er að láta sér annt um annað fólk. Því megum við ekki gleyma.

Í stjórnmálum verður þess venjulega ekki sérlega vart að stjórnmálamenn hafi samlíðan með öðrum og sýni þegar þeim ofbýður ranglæti og harmi og fordæmi voðaverk. Einmitt þess vegna er rétt að virða það óendanlega við forsætisráðherra, Sigmund Davíð Gunnlaugsson, að hafa sent forsætisráðherra Ísraels bréf þar sem hann segir að Ísrael verði að axla sína ábyrgð á stöðu mála og láta af hernaðaraðgerðum sínum á Gaza. Forsætisráðherra, sem er faðir ungs barns, talar þarna í nafni mannúðar og það mættu fleiri íslenskir stjórnmálamenn svo sannarlega gera. Utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, er annar stjórnmálamaður sem brást við og ákvað að styrkja stofnanir Sameinuðu þjóðanna sem starfa á Gaza. Það var vel gert af stjórnmálamanni sem virðist vera að vaxa mjög í embætti.

Í bréfi því sem Sigmundur Davíð sendi forsætisráðaherra Ísraels talar hann á yfirveguðum nótum en skilaboðin eru ákveðin og skýr; blóðbaðið verður að stöðva.

Fréttirnar af Gaza verða stöðugt skelfilegri og skiljanlega hafa margir krafist þess að Íslendingar slíti stjórnmálasambandi við Ísrael. Það er fjarska auðvelt að hafa samúð með þessari skoðun, en stjórnmálaslit eru mjög líklega ekki árangursríkasta leiðin. Rétt er að taka undir með fyrrverandi utanríkisráðherra, Össuri Skarphéðinssyni, sem segir að ekki eigi að nota málið fyrir botni Miðjarðarhafs sem pólitískan hælkrók. „Við eigum að stilla til friðar en ekki taka pólitíska glímu um þetta mál,“ segir hann.

Auðvitað er það þannig að lítil þjóð í norðri hefur ekki bolmagn til að stöðva fjöldamorð á almennum borgurum, en hún hlýtur samt að leggja sitt af mörkum til að gera heiminn friðvænlegri. Einn þáttur í því er að forsætisráðherra settist niður og skrifaði lítið bréf sem er samt svo mikilvægt. Ekki er víst að forsætisráðherra Ísraels þakki starfsbróður sínum fyrir sendinguna, en íslenska þjóðin hlýtur að þakka forsætisráðherra sínum.

kolbrun@mbl.is

Kolbrún Bergþórsdóttir