Hrafnhildur J. Scheving fæddist í Reykjavík 3. júlí 1961. Hún andaðist á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 24. júlí 2014.

Foreldrar hennar voru Guðrún Sesselja Guðmundsdóttir, f. 16.9. 1927 og Jón Guðjónsson Scheving, f. 1.3. 1924, d. 19.12. 1992. Bræður Hrafnhildar eru Guðmundur Óli, Ómar og Viðar. Hrafnhildur átti fjórar dætur: Guðrún Þóra, f. 2.11. 1975. Sonur hennar er Ragnar Þór, f. 26.7. 1996. Sigurósk Tinna, f. 9.12. 1983. Synir hennar eru Birgir Sveinn, f. 15.12. 2004 og Magnús Kohnke, f. 30.10. 2012. Heiðrún Sara, f. 18.8. 1986. Börn hennar eru Rúnar Hrafn, f. 11.7.2010, d. 11.7. 2010 og Elísa Björk, f. 6.10. 2011. Ásthildur Gréta, f. 26.2. 1999 nemi.

Hrafnhildur var gift Páli Óskarssyni, þau skildu. Hrafnhildur giftist eftirlifandi eiginmanni sínum, Símoni Grétari Ingvaldssyni, þann 14. júní 2014 eftir 16 ára sambúð.

Hrafnhildur lauk sínu skyldunámi og fór svo í hárgreiðslunám í Iðnskólanum í Reykjavík en hætti vegna veikinda. Hún fór þá að vinna á skrifstofu Lögregluembættisins í Reykjavík. Hrafnhildur flutti nokkru síðar til Skagafjarðar og hóf búskap þar með Páli þangað til þau fluttust til Siglufjarðar þar sem þau bjuggu í nokkur ár eða þangað til að þau fluttu aftur til Reykjavíkur þar sem leiðir þeirra skildu. Hrafnhildur fór um víðan völl í starfsvali; hún starfaði meðal annars sem matráður í mötuneyti Íslandsbanka við Suðurlandsbraut, við ræstingar og í mötuneyti Háskóla Íslands. Hún starfaði við akstur skólabíls til móts við Símon eiginmann sinn eftir að hafa lokið meiraprófi.

Hrafnhildur var formaður Slysavarnadeildarinnar í Reykjavík, áður Slysavarnadeild kvenna í Reykjavík þegar hún lést. Hún starfaði þar um langt skeið og sinnti því verkefni vel og unni hún deildinni mikið. Henni var mjög hugleikið allt það sem viðkom björgunar- og hjálparstörfum. Hrafnhildur hafði mikinn áhuga á tónlist og ferðalögum, og voru þau Símon samhent í þessum áhugamálum.

Útför Hrafnhildar verður gerð frá Grafarvogskirkju í dag, 31. júlí 2014, og hefst athöfnin kl. 13.

Gott er sjúkum að sofna

meðan sólin er aftanrjóð

og mjallhvítir svanir syngja

sorgblíð vögguljóð.

(DS)

Hjartans elsku barnið mitt.

Sorgin nístir mig og hugsunin um að heyra ekki röddina þína eða getað faðmað þig er sár og óbærileg. Það er mér aðeins huggun hvað ég gat verið mikið með þér allt þetta síðasta ár og sér í lagi síðastliðið sumar, og reynt að styðja þig í þessum hræðilegu veikindum þínum. Við áttum svo margar samverustundir tvær einar og höfðum mikið að tala um. Þú gerðir þér fulla grein fyrir að hverju stefndi og eitt sinn sagðir þú:

„Mamma, það er oft sagt að Guð sendi englana sína til jarðarinnar og þeir verði til í annarri manneskju, ég vona að hann velji mig og ég fái að hjálpa og líkna þeim sem eru veikir eins og allt þetta yndislega fólk sem hefur annast mig í mínum veikindum.“

Og ég sem móðir hennar vil af öllu hjarta þakka öllum þeim mörgu sem hlúðu að henni, hjúkrunarfólki á Líknardeildinni í Kópavogi, í Karitas og Sigríði B. Sigurðardóttur frænku hennar sem kom til hennar á hverjum degi síðastliðna mánuði. Það er svo mörgum sem ber að þakka allan stuðninginn og alla elskuna. Fallega bréfið sem þú skrifaðir mér og ég fékk afhent kvöldið sem þú kvaddir og yndislega jólabréfið sem ég fékk frá þér. Ég mun alltaf geyma þau sem dýrmæta gimsteina. Góður guð styðji mann þinn og dætur, við munum alltaf muna þig.

Svo djúp er þögnin við þína sæng,

að þar heyrast englar tala,

og einn þeirra blakar bleikum væng,

svo brjóstið þitt fái svala.

Nú strýkur hann barm þinn blítt og hljótt

svo blaktir síðasti loginn.

En svo kemur dagur og sumarnótt

og svanur á bláan voginn.

(DS)

Þín mamma,

Guðrún Sesselja

Guðmundsdóttir.

Elsku besta mamma mín, að vita til þess að ég fái ekki að sjá þig aftur fær hjartað mitt til að rifna. Ég sakna þín svo mikið að mér finnst ég ekki geta andað. Þó ég hafi vitað að kveðjustundin kæmi fyrr en seinna þá er þetta svo sárt, að missa mömmu mína og ömmu elsku litlu Elísu minnar. Ég finn að hún saknar þín, að það sé engin amma lengur í ömmu- og afahúsi. Ég mun vera dugleg að tala um þig við hana, sýna henni myndir af þér, kenna henni bænirnar sem þú kenndir mér og vera ávallt til staðar fyrir hana eins og þú varst fyrir mig.

Elsku hjartans mamma mín, takk fyrir allt sem þú kenndir mér, allt sem þú gerðir fyrir mig. Takk fyrir að hafa gefið mér líf.

Ég veit að þú passar Rúnar minn fyrir mig, þú hlakkaðir svo til að hitta hann aftur. Loksins fær hann tíma með elsku ömmu sinni.

Ég elska þig, að eilífu. Þín,

Heiðrún Sara.

Elsku mamma mín.

Ég sakna þín svo mikið og það er sárt að vita að ekki muni ég sjá þig meir. Sárt að vita að ég mun ekki heyra rödd þína aftur, heyra þig hlæja né fá ráð þín og ráðleggingar meir. Sá ekki þitt fallega bros sem ætíð var stutt í hjá þér. Fái ekki að kúra í hálsakoti þínu eða fá koss á kinn.

Elska þig svo heitt. Þú kenndir mér svo margt sem er mér mikils virði og mun ég kenna sonum mínum, Birgi Sveini og Magnúsi, það einnig. Birgir Sveinn og Magnús, ömmustrákarnir, áttu eina þá bestu ömmu sem til var og elskuðu þeir þig mjög. Magnús fékk því miður lítið að kynnast ömmu sinni en mun ég tala um þig, segja honum sögur af þér, sýna honum myndir af þér og kenna honum það sem kenndir þú mér.

Elsku mamma, þú varst mér ekki einungis sem mamma heldur varstu mín besta vinkona. Eru margar dásamlegar stundir sem ég á með þér sem ylja mér um hjartarætur og sem verma mitt hjarta um ókomna tíð. Þú fórst svo fljótt en samt vissi ég að þinn tími væri að koma, en aldrei er maður undirbúinn fyrir það að missa mömmu mína.

Takk fyrir að vera mamma mín, vinkona mín, amma strákanna minna, kletturinn minn, kennt mér allt sem ég kann, verið til staðar fyrir mig og fyrir að hafa gefið mér líf.

Þú munt lifa í hjörtum okkar og huga um alla tíð.

Í augum þínum sá ég fegri sýnir

en sólhvít orð og tónar geta lýst, –

svo miklir voru móðurdraumar þínir,

þó marga þeirra hafi frostið níst.

Sem hetja barst þú harmana og sárin,

huggaðir aðra – brostir gegnum tárin,

viðkvæm í lund, en viljasterk.

Þau bregða um þig ljóma, liðnu árin.

Nú lofa þig – þín eigin verk.

Ég flyt þér, móðir, þakkir þúsundfaldar,

og þjóðin öll má heyra kvæðið mitt.

Er Íslands bestu mæður verða taldar,

þá mun þar hljóma fagurt nafnið þitt.

Blessuð sé öll þín barátta og vinna,

blessað sé hús þitt, garður feðra minna,

sem geymir lengi gömul spor.

Haf hjartans þakkir, blessun barna þinna,

– og bráðum kemur eilíft vor.

(Davíð Stefánsson)

Elska þig, elsku mamma mín.

Þín að eilífu,

Sigurósk Tinna.

Elsku besta mamma mín. Þú sem fórst frá okkur of fljótt en situr nú á meðal englanna. Mamma, þú varst besta og fallegasta mamman og amman. Allt sem þú hefur kennt mér og leiðbeint mér með í gegnum lífið mun ég meta allt mitt líf. Þú varst mín stoð og stytta í gegnum allt sem ég hef gengið í gegnum og ekki sé talað um allt sem þú hjálpaðir mér með í sambandi við Ragnar Þór. Alltaf verið til staðar fyrir okkur, það er ekki hægt að telja upp þau skipti. Við elskum þig svo mikið, elsku mamma og amma.

Ég flyt þér, móðir, þakkir þúsundfaldar,

og þjóðin öll má heyra kvæðið mitt.

Er Íslands bestu mæður verða taldar,

þá mun þar hljóma fagurt nafnið þitt.

Blessuð sé öll þín barátta og vinna,

blessað sé hús þitt, garður feðra minna,

sem geymir lengi gömul spor.

Haf hjartans þakkir, blessun barna þinna,

- og bráðum kemur eilíft vor.

(Davíð Stefánsson)

Þín dóttir Guðrún og ömmustrákur Ragnar Þór.

Elsku besta Sys mín.

Hér sit ég með sorg í hjarta og fer yfir farinn veg. Efst í huga mínum núna er þakklæti fyrir að hafa fengið að verða samferða þér í lífinu. Smitandi lífsgleði þín, hlátur og umhyggja fyrir þínum nánustu.

Ég sendi þér kæra kveðju

nú komin er lífs þíns nótt,

þig umvefji blessun og bænir

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði nú sorg mitt og hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfin úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Þá er komið að kveðjustund um sinn, við ætlum að hittast aftur.

Elsku Símon, Guðrún Þóra, Tinna, Heiðrún, Ásthildur, Rúna frænka og allir sem elskuðu Hrafnhildi. Minning hennar verður alltaf ljós í lífi okkar allra.

Ástarkveðjur. Þín Sys,

Sigríður Breiðfjörð Sigurðardóttir.

Elsku Hrafnhildur mín.

Ég er eins og svo margir engan veginn tilbúin að kveðja þig núna en ég veit að það var kominn tími á þitt ferðalag og ég sit hér með kökk í hálsinum og kveð þig, elsku frænka. Þú hefur verið mikilvæg í lífi mínu frá því að ég man eftir mér, svo glöð og brosmild og ég man eiginlega ekki eftir þér öðruvísi en segjandi brandara og hlægjandi. Það var alltaf gaman að vera með þér.

Þú hefur verið miðjan í fjölskyldunni og dregið alla til þín á jólum og í vorfjölskylduferðinni okkar í maí á hverju ári, alltaf tilbúin að hjálpa öllum í fjölskyldunni. Margar sögur eru mér minnisstæðar, t.d. sagan um okkur tvær þegar þú varst unglingsstúlka og ég pirrandi smábarn sem blaðraði stanslaust, þegar ég var hjá þér í vist fyrir norðan, í heimsókn á Siglufirði, í Kópavoginum eða á fallega heimilinu þínu í Grafarvogi, það var alltaf skemmtilegt að vera með þér. Ég er búin að halda lengi í vonina að kraftaverk myndi gerast og þú myndir ná aftur fullri heilsu og ég myndi fá póstkort frá Rio de Janeiro, sem var staður sem þig dreymdi um að fara til, en svo varð ekki og ég kveð þig í hinsta sinn, elsku frænka mín.

Elsku amma, Símon, Ásthildur, Guðrún Þóra, Tinna, Heiðrún Sara og fjölskyldur, ég sendi ykkur öllum samúðarkveðju.

Um undra-geim, í himinveldi háu,

nú hverfur sól og kveður jarðarglaum;

á fegra landi gróa blómin bláu

í bjartri dögg við lífsins helgan straum.

(Benedikt Gröndal)

Kristín Scheving.

Elsku Hrabba frænka,

þú hefur gefið okkur svo margt, margar góðar minningar, ást og hlýju. Þú varst einstök manneskja, sú allra yndislegasta og ljúfasta manneskja sem ég þekkti.

Við erum þakklát fyrir öll árin sem við áttum saman. Minning þín lifir í hjörtum allra sem voru þér næstir, sem elskuðum þig og litum upp til þín.

Hvíldu í friði, elsku Hrafnhildur okkar. Þín er sárt saknað.

Guðrún S. Scheving, Jón Stefán Scheving og Guðmundur Óli Scheving.

Hrafnhildur gekk til liðs við Slysavarnadeildina í Reykjavík árið 1993 og starfaði með hugsjónina að leiðarljósi til hinsta dags. Hún réðist strax til stjórnarstarfa og var varaformaður fyrstu þrjú árin sem hún starfaði en tók við formennsku árið 1996 og var þá formaður til 1998. Hún gegndi formannsembættinu einnig á árunum 2004 til 2006. Og tók síðan enn og aftur við embætti formanns í október 2013. Þess má geta að flest árin sem hún var ekki í formannsembættinu átti hún sæti í stjórn deildarinnar. Það má með sanni segja að hún hafi verið fyrirmynd okkar hinna og slysavarnakona af lífi og sál. Þar sem Hrafnhildur var þar var gaman. Væru ferðalög eða skemmtanir á dagskrá var hún í undirbúningsnefnd. Þegar þörf var á var Hrafnhildur fyrsta manneskja til að stíga fram, hjálpa og styrkja aðra í starfinu. Og það var nákvæmlega það sem hún gerði í október síðastliðnum þegar hún þrátt fyrir veikindi sín tók enn og aftur að sér formennsku í deildinni. Það hefur verið einstakt að vinna undir hennar stjórn á síðustu mánuðum. Við erum þakklátar fyrir það sem hún hefur kennt okkur og fyrir þann vinskap og kærleika sem hefur einkennt starfið undir hennar forystu. Hrafnhildur taldi ekki klukkustundirnar sem hún vann fyrir deildina. Það var henni hjartans mál að samstaða og eining ríkti og lagði hún mikið á sig til að svo mætti verða. Ástríða hennar fyrir málstaðnum hefur verið félögum í deildinni innblástur og verður áfram um ókomna tíð. Minning Hrafnhildar er ljós í lífi okkar sem fengum að vera henni samferða um stund. Kæra fjölskylda, Símon, Guðrún fyrrverandi formaður deildarinnar og móðir Hrafnhildar, dætur hennar, Heiðrún Sara félagi í deildinni, Guðrún, Tinna, Ásthildur, barnabörn og aðrir sem syrgja. Guð veri með ykkur.

Fyrir hönd stjórnar Slysavarnadeildarinnar í Reykjavík,

Birna G. Jónsdóttir, Caroline Lefort, Hrönn Jónsdóttir og Svanfríður A. Lárusdóttir.

HINSTA KVEÐJA
Elsku besta amma.
Æ, amma, hvar ertu? Æ, ansaðu mér.
Því ég er að gráta og kalla eftir þér.
Fórstu út úr bænum eða fórstu út á haf?
Eða fórstu til Jesú í sælunnar stað?
(Höf. ók.)

Margt er það og margt er það
sem minningarnar vekur,
og þær eru það eina
sem enginn frá mér tekur.
(Davíð Stefánsson)
Takk fyrir allt, þú varst sú besta.
Elskum þig svo og söknum.
Þínir ömmustrákar
Birgir Sveinn og Magnús.