Jónas Garðarsson
Jónas Garðarsson
Eftir Jónas Garðarsson: "Hvorki ThorShip né álrisarnir svara nokkru þegar sjómenn beina til þeirra spurningum og athugasemdum."

Á heimasíðu sinni segjast þeir hjá ThorShip vera snjallari en annað fólk; væntanlega snjallari en íslenskir sjómenn. Í hverju snilld þeirra liggur er á huldu. Alþjóðaflutningaverkamannasambandið hefur ítrekað þurft að hafa afskipti af drullumixi þeirra. Þeir segjast bjóða skjóta og örugga þjónustu eins og viðskiptavinir vilja hafa hana. Helstu viðskiptavinir þeirra eru álrisarnir Alcoa og Rio Tinto og viðskiptasagan er helst til dapurleg; tafir, fúsk og svik.

Á dögunum lá dallur á vegum skúffufyrirtækis ThorShip – Cargow GV – heilan mánuð í Reyðarfirði vegna vanskila, eigandinn var tekinn til gjaldþrotaskipta í Þýskalandi. Um borð í skipum á vegum ThorShip eru skipverjar á hungurlaunum; menn með rúmlega 100 þúsund króna laun fyrir 178 stunda vinnumánuð og 100 stunda yfirvinnu; já, liðlega hundrað þúsund fyrir 278 vinnustundir á mánuði.

Í desember síðastliðnum var skip á vegum ThorsShip kyrrsett í Straumsvík vegna vangoldinna launa, skipverjar riftu ráðningarsamningum, afmunstruðu og stukku í land. Frægt er þegar ryðdallur var dreginn úr Straumsvík inn í Hafnarfjörð vegna vélarbilunar. Dallurinn var rústbarinn og slíkur var gauragangurinn að hann hélt vöku fyrir Hafnfirðingum. Svona er nú snilld snillinganna.

Sjómönnum ekki skemmt

Þeir sumsé hika ekki við að bera fram lygi, svo talað sé að sjómannasið, en kannski eru álrisarnir bara ánægðir með tafirnar sem hljótast af fúskinu og lygina um leið og álforstjórarnir segjast axla samfélagslega ábyrgð! Íslenskum sjómönnum er ekki skemmt. Álrisarnir hafa haft af þeim um 100 störf til þess að skipta við siðblinda fúskara sem grafa undan íslenskri farmannastétt. Það þykir sjálfsagt að vernda íslenskan sjávarútveg en ekki farmenn. Menn skulu ekki gleyma því að þjóðin missti sjálfstæði eftir að þraut um íslensk skip undir lok þjóðveldis. Það var þjóðinni til happs að til var öflug íslensk farmannastétt í tveimur heimsstyrjöldum 20. aldar. Öflug íslensk farmannastétt varðar þjóðaröryggi.

Þegar sýslumaðurinn á Eskifirði kyrrsetti dallinn á Reyðarfirði upp úr miðjum júní yppti Karl Harðarson, forstjóri ThorShip, öxlum, líkt og hann væri fórnarlamb. „Við erum eingöngu þolendur,“ sagði hann með tárin í augunum en var ekki að skýra frá því að dallurinn á Reyðarfirði var á vegum Cargow BV sem liggur í skúffu innan um bréfsefni ThorShip á Selhellu í Hafnarfirð. Eigendur Cargow BV eru sómapiltarnir Karl Harðarson, Bjarni Ármannsson og hinn norski Øvind Sivertsen. Drullumix þeirra þolir ekki dagsbirtu.

Hvorki ThorShip né álrisarnir svara nokkru þegar sjómenn beina til þeirra spurningum og athugasemdum. Þögn þeirra er skömm þeirra.

Höfundur er framkvæmdastjóri Sjómannafélags Íslands og fulltrúi ITF á Íslandi.