Ebóla Læknar bera látinn sjúkling.
Ebóla Læknar bera látinn sjúkling. — AFP
Evrópusambandið kveðst vera undir það búið að meðhöndla sjúklinga sem smitaðir eru af ebólu, komi slíkt tilfelli upp innan landamæra sambandsins.

Evrópusambandið kveðst vera undir það búið að meðhöndla sjúklinga sem smitaðir eru af ebólu, komi slíkt tilfelli upp innan landamæra sambandsins. Ebólufaraldurinn sem nú geisar í Vestur-Afríku er sá versti til þessa en alls hafa 672 týnt lífi vegna hans auk þess sem 1.201 einstaklingur er smitaður.

„Við getum ekki útilokað þann möguleika að smitaður einstaklingur ferðist til Evrópu. Hins vegar býr Evrópusambandið yfir þeim eiginleikum að geta fundið og einangrað hvaða smitsótt sem er,“ segir heimildarmaður innan Evrópusambandsins í viðtali við AFP. „Upp kom hugsanlegt tilfelli á Valensíu á Spáni en niðurstöður rannsóknar reyndust neikvæðar. Kerfið virkaði, sjúklingurinn var settur í einangrun og rannsóknir voru gerðar skjótt.“

Ógn við Bretland

Philip Hammond, utanríkisráðherra Bretlands, segir Bretlandi stafa ógn af ebólufaraldrinum. „Við vitum ekki til þess að breskir ríkisborgarar séu smitaðir og engin tilfelli hafa komið upp í Bretlandi. Hins vegar lítur forsætisráðherra svo á að ógn stafi af faraldrinum,“ sagði utanríkisráðherrann í sjónvarpsviðtali við Sky-fréttastofuna.