Hanna Birna Kristjánsdóttir
Hanna Birna Kristjánsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, ritaði í gær Hönnu Birnu Kristjánsdóttur bréf með ósk um tilteknar upplýsingar um samskipti hennar við Stefán Eiríksson, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, vegna lögreglurannsóknar sem embætti hans vann að og...

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, ritaði í gær Hönnu Birnu Kristjánsdóttur bréf með ósk um tilteknar upplýsingar um samskipti hennar við Stefán Eiríksson, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, vegna lögreglurannsóknar sem embætti hans vann að og beindist að meðferð trúnaðarupplýsinga í innanríkisráðuneytinu.

Ræddi við Stefán og Sigríði

Umboðsmaður Alþingis ritaði bréfið til Hönnu Birnu eftir að DV fullyrti í fyrradag að Stefán Eiríksson hefði hætt störfum sem lögreglustjóri vegna afskipta Hönnu Birnu af rannsókninni á lekanum úr innanríkisráðuneytinu.

Ósk um viðbrögð frá ráðherra birtist á vefsíðu umboðsmanns Alþingis. Í bréfinu, sem þar er birt, segir að Tryggvi hafi í kjölfar umfjöllunar DV í gær rætt við bæði Stefán og Sigríði Friðjónsdóttur ríkissaksóknara. Í kjölfarið ákvað hann að óska eftir eftirfarandi upplýsingum frá Hönnu Birnu:

Hvort hún hafi að eigin frumkvæði óskað eftir að lögreglustjórinn kæmi til viðtals eða fundar í ráðuneytinu, þar sem hún hafi rætt við hann um rannsóknina sem embættið vann að á sama tíma.

Óskar eftir tilefni funda

Umboðsmaður óskar eftir að fram komi í svari ráðherra hvert tilefni þessara funda var, hvenær þeir fóru fram og að Hanna Birna lýsi hvað kom þar fram af hennar hálfu í samtali við Stefán um rannsóknina og starfshætti lögreglu. Einnig óskar hann þess að tiltæk gögn um þessi samskipti verði send.

Með sama hætti óskar Tryggvi eftir upplýsingum um símtöl sem Hanna Birna kunni að hafa átt við Stefán um lögreglurannsóknina. Óskað er eftir því að fram komi hvenær símtölin fóru fram, hvert tilefni þeirra var og hvað kom þar fram af hálfu Hönnu Birnu um rannsóknina. Umboðsmaður óskar þess að innanríkisráðherra sendi honum tiltæk gögn um þessi símtöl.

„Ég tek það fram að beiðni mín um þessar upplýsingar er sett fram til þess að ég geti tekið afstöðu til þess hvort ég tek mál þetta til formlegrar athugunar,“ segir Tryggvi í bréfinu og vísar í reglur og sjónarmið sem talin eru eiga við um samskipti ráðherra, sem fer með yfirstjórn lögreglu, við stjórnendur lögregluembætta og með tilliti til sjálfstæðis þeirra embætta og ákæruvalds við rannsókn sakamála.

Hætti ekki vegna þrýstings

„Það á sérstaklega við þegar umrædd rannsókn tengist málefnum ráðuneytis viðkomandi ráðherra,“ segir í bréfinu. Þess er óskað að innanríkisráðherra svari fyrirspurninni eigi síðar en 15. ágúst.

Sjálfur hefur Stefán ekki viljað tjá sig um málið að öðru leyti en því að hann hætti ekki vegna þrýstings. Hann hefur hinsvegar ekki viljað segja af eða á um það hvort innanríkisráðherra hafi haft afskipti af rannsókn lekamálsins. „Ég hætti ekki nema út af því að ég hafði áhuga á að skipta um starf og fara að gera eitthvað annað og taldi það tímabært,“ sagði Stefán í samtali við mbl.is.

„Ég er ekki að hætta út af þrýst-ingi frá ráðherra. Ástæðan fyrir því að ég ákvað að sækja um nýtt starf var að mér fannst það áhugavert og að það væri tímabært að breyta til eftir átta ár hjá lögreglunni. Það er það sem réð minni ákvörðun, annað ekki,“ sagði Stefán.

Gerir engar athugasemdir

„Aðdróttanir DV eru þess eðlis að ég tel það farsælt að umboðsmaður Alþingis fari yfir málið og geri ég engar athugasemdir við spurningar hans,“ segir Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra. Hún mun svara spurningum umboðsmanns fyrir helgi.

Hún segist enga aðkomu hafa átt að ákvörðun lögreglustjóra um að skipta um starfsvettvang og hvorki beitt hann þrýstingi né haft óeðlileg afskipti af einstökum málum sem eru eða hafa verið til meðferðar hjá lögreglu.