Það er undirstöðuatriði í réttarríkinu að fólk og fyrirtæki geti átt trúnaðarsamskipti við lögmann um réttarstöðu sína og þegið ráðgjöf frá lögmanni án þess að eiga á hættu að slík samskipti rati síðar inn á borð eftirlitsaðila.

Samkvæmt samkeppnislögum nr. 44/2005 er Samkeppniseftirlitinu falið mikið vald í tengslum við rannsóknir samkeppnismála. Felst þetta meðal annars í víðtækum heimildum eftirlitsins til að krefja fyrirtæki um gögn og upplýsingar sem og í sérstakri lagaheimild til að framkvæma húsleit og haldleggja gögn á starfsstöð fyrirtækis ef ríkar ástæður liggja til slíks. Í síðara tilvikinu þarf Samkeppniseftirlitið þó að afla sér dómsúrskurðar um heimild til leitar og haldlagningar en ekki er vitað um dæmi þess að slíkri beiðni hafi verið hafnað af dómara.

Eðlilegt er að Samkeppniseftirlitið geti aflað nauðsynlegra gagna frá fyrirtækjum til að geta skorið úr um hvort ákvæði samkeppnislaga hafi verið brotin. Afar mikilvægt er hins vegar að í slíkum rannsóknum, eins og alltaf annars þegar stofnanir ríkisvaldsins hlutast til um málefni einstaklinga og lögaðila, njóti sá sem til rannsóknar er í hvívetna fullrar réttarstöðu til varnar. Í því felst meðal annars réttur fyrirtækis til að þurfa ekki að afhenda samkeppnisyfirvöldum gögn og upplýsingar um samskipti við og ráðgjöf frá sjálfstætt starfandi lögmanni.

Það er undirstöðuatriði í réttarríkinu að fólk og fyrirtæki geti átt trúnaðarsamskipti við lögmann um réttarstöðu sína og þegið ráðgjöf frá lögmanni án þess að eiga á hættu að slík samskipti rati síðar inn á borð eftirlitsaðila og verði notuð gegn viðkomandi til að koma fram áfellisdómi eða úrskurði og eftir atvikum refsingu. Mikilvægi þessa réttar er sérstaklega augljós í tilviki samkeppnismála þar sem Samkeppniseftirlitinu er falið að beita matskenndum og oft afar óljósum lagareglum til að ákveða hvort fyrirtæki hafi ástundað lögmæta samkeppni eða ekki. Viðurlög vegna niðurstöðu um samkeppnisbrot geta numið hundruðum, jafnvel þúsundum, milljóna króna. Við þessar aðstæður verða fyrirtæki að geta átt í samskiptum við lögmann til að vega og meta samkeppnishætti sína og markaðsfærslu almennt með hliðsjón af ákvæðum samkeppnislaga og um slík samskipti þarf að ríkja alger trúnaður. Réttindi þessi eru viðurkennd í flestum þeim ríkjum sem við Íslendingar viljum bera okkur saman við að þessu leyti. Þar á meðal er réttur til trúnaðarsamskipta við sjálfstætt starfandi lögmann viðurkenndur í samkeppnisrétti Evrópusambandsins en íslenskur samkeppnisréttur er að mestu leyti mótaður eftir þeirri fyrirmynd.

Upplýsingaöflun Samkeppniseftirlitsins tekur hins vegar ekki mið af þessu. Sem dæmi má nefna hvernig staðið er að haldlagningu rafrænna gagna við húsleit en alkunna er að hvers kyns samskipti fyrirtækja við utanaðkomandi aðila, þar á meðal lögmann, eiga sér stað með rafrænum hætti, einkum í gegnum tölvupóst. Ráðist Samkeppniseftirlitið í húsleit hjá fyrirtæki eru öll rafræn gögn viðkomandi fyrirtækis haldlögð með því að þau eru afrituð í heild sinni án þess að nein skoðun fari fram á því á staðnum hvort gögnin skipti máli fyrir rannsóknina. Þar á meðal eru öll rafræn samskipti fyrirtækisins við lögmann sinn. Í þeirri rannsókn sem á eftir fylgir telur Samkeppniseftirlitið sér heimilt að yfirfara öll þessi gögn án þess að viðkomandi fyrirtæki viti af því eða hafi nokkra möguleika til að gæta réttar síns. Þessi háttur stenst ekki meginreglur um réttláta málsmeðferð samkvæmt stjórnarskrá eða Mannréttindasáttmála Evrópu sem lögfestur er hér á landi.

Þessari framkvæmd verður að breyta með atbeina löggjafarvaldsins. Tryggja þarf fullan trúnað um samskipti fyrirtækja við sjálfstætt starfandi lögmenn og setja að öðru leyti eðlilegan ramma um rannsóknar- og upplýsingaheimildir Samkeppniseftirlitsins.