Gert er ráð fyrir að EBITDA verði á bilinu 140 til 150 milljónir dala á árinu.
Gert er ráð fyrir að EBITDA verði á bilinu 140 til 150 milljónir dala á árinu. — Morgunblaðið/Skapti Hallgríms
Kristinn Ingi Jónsson kij@mbl.is Tekjutap og beinn kostnaður Icelandair Group vegna vinnudeilna við flugstéttir nam 3,5 milljónum dala á öðrum ársfjórðungi.

Hagnaður Icelandair Group jókst um 21% á öðrum fjórðungi ársins og nam 22,4 milljónum Bandaríkjadala, sem jafngildir um 2,6 milljörðum íslenskra króna. Heildartekjur félagsins jukust um 12% á milli ára og nam EBITDA, þ.e. rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði, 45,2 milljónum dala samanborið við 42,9 milljónir dala á sama tímabili í fyrra.

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri félagsins, segir í tilkynningu að vinnudeilur við flugstéttir hafi haft áhrif á rekstur annars ársfjórðungs. „Vegna kjaradeilna þurfti að fella niður 157 flugferðir og breyta bókunum yfir 22 þúsund farþega. Tekjutap og beinn kostnaður Icelandair Group vegna þessa nam um 3,5 milljónum Bandaríkjadala,“ segir hann.

Hann bætir við að þrátt fyrir að afkoma af millilandastarfsemi hafi verið undir væntingum vegna verkfallsaðgerða hafi önnur starfsemi samstæðunnar gengið vel.

Björgólfur nefnir einnig að fjárhagsleg staða félagsins sé sterk. Heildareignir nemi nú 947,6 milljónum Bandaríkjadala og eiginfjárhlutfallið hafi verið 34% í lok fjórðungsins. Þá hafi vaxtaberandi skuldir farið lækkandi undanfarin ár og nemi nú 60,2 milljónum Bandaríkjadala á sama tíma og handbært fé og markaðsverðbréf nemi 283,3 milljónum dala.

„Bókunarstaða í millilandaflugi fyrir komandi mánuði hefur batnað eftir að vinnudeilum lauk og almennar horfur í rekstri samstæðunnar eru góðar. Miðað við núverandi rekstrarforsendur er gert ráð fyrir að EBITDA ársins verði á bilinu 145-150 milljónir Bandaríkjadala, sem er hækkun frá því sem tilkynnt var í júní. Betri heimtur krafna í leiguflugsstarfsemi vega þungt í hækkuninni,“ segir Björgólfur jafnframt.