[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ágúst Ásgeirsson agas@mbl.is Hjólreiðakeppnin Tour de France (Frakklandsreiðin) var sviptingasamari í ár, ófyrirsjáanlegri og meira spennandi en um langt árabil.

Sviðsljós

Ágúst Ásgeirsson

agas@mbl.is

Hjólreiðakeppnin Tour de France (Frakklandsreiðin) var sviptingasamari í ár, ófyrirsjáanlegri og meira spennandi en um langt árabil. Ungir knapar margra þjóða slógu í gegn og þykir það vísa á gott fyrir framtíð þessarar mestu og erfiðustu þolraunar íþróttanna.

Lyktir Frakklandsreiðarinnar (Tour de France) á hjólreiðum þykja undirstrika, að skil hafi átt sér stað við fortíð sem einkenndist af flóknu svindli með lyf til að auka sigurlíkur keppenda. Með sigri Vincenzo Nibali, fánabera baráttunnar gegn lyfjanotkun íþróttamanna á Ítalíu, hafi hjólreiðarnar sagt skilið við aldarfjórðungs svikaskeið sem náði hámarki með sjö sigrum bandaríska knapans Lance Armstrong í röð – sem hann var síðan sviptur.

Frakkar hafa verið í fararbroddi baráttunnar gegn lyfjanotkun íþróttamanna og fátítt er að hjólreiðamenn þeirra hafi verið gómaðir fyrir slíka iðju. Stóðu tveir franskir knapar á verðlaunapallinum í París sl. sunnudag við hlið Nibali, hinn 37 ára gamli Jean-Christophe Peraud, silfurmaður í Peking á torfæruhjólum, og hinn 24 ára gamli Thibaut Pinot. Þykir árangur þeirra hnykkja enn frekar á að tekist hafi að útrýma lyfjasvindli úr Frakklandsreiðinni.

Nibali er fyrsti Ítalinn í 16 ár til að vinna Tour de France og fangaði hann athygli landa sinna með öryggi og yfirburðum. Vann hann gulu leiðtogatreyjuna á öðrum degi og lét hana ekki af hendi eftir það. Átti hann aldrei slakan dag keppnisvikurnar þrjár og vann þrjár dagleiðir. Til marks um fögnuð Ítala lagði íþróttadagblaðið Gazzetta dello Sport sjö fyrstu síðurnar í mánudagsblaðinu undir sigur hans. Og skipti út bleika pappírnum venjulega og gerði forsíðuna gula.

Hákarlinn frá Messína

Nibali, sem er frá Messína á Sikiley, hlaut viðurnefnið „hákarlinn“ á unglingsárunum fyrir beittar taktískar árásir í keppni, en það vörumerki sitt sýndi hann líka í Tour de France nú. Spurður um lyfjanotkun íþróttamanna sagðist hann hafa fært miklar fórnir til að komast á toppinn og það væri ekki þess virði að hætta því öllu með svindli. Ólíkt fyrri sigurvegurum í Frakklandsreiðinni vék hann sér ekki undan spurningum um lyfjasvindl. „Um þetta er spurt því við erum enn að borga fyrir það sem átti sér stað forðum daga.“

Auk þessa stærsta sigurs hans á ferlinum hefur Nibali einnig unnið Ítalíureiðina (Giro d'Italia) og Spánarreiðina (Vuelta a España) en það höfðu aðeins fimm hjólreiðamenn afrekað í sögunni á undan honum.

Fara þarf allt aftur til ársins 1984 til að finna tvo franska keppendur á verðlaunapallinum. Þá sigraði hinn ungi Laurent Fignon og hleypti goðsögninni Bernard Hinault ekki ofar en í annað sætið. Árið eftir vann Hinault á ný en síðan hefur enginn franskur knapi staðið á efsta þrepi verðlaunapallsins í París. Árangur Perauds og hins 24 ára gamla Pinots – auk hins 23 ára Romains Bardet sem varð sjötti – gefur vonir um að breytingar verði þar á.

Sérfræðingar eru sammála um, að nýtt skeið sé framundan í Tour de France-keppninni og vinsældir þessarar erfiðustu þrekraunar íþróttanna eigi eftir að aukast, ekki bara heima fyrir heldur og víðar, ekki síst þar sem fram hafi komið í keppninni í ár ný kynslóð öflugra ungra knapa sem séu lausir við bagga fortíðarinnar og óhræddir við að sækja til sigurs með taktískum atlögum.

Til marks um nýja tíma hafa þýskar sjónvarpsstöðvar ákveðið að hefja aftur beinar útsendingar frá keppninni eftir að hafa hætt þeim fyrir nokkrum árum er flett var ofan af hverju lyfjahneykslinu af öðru þar sem þýskir toppmenn í hjólreiðum áttu í hlut. Létu ungir þýskir knapar að sér kveða í ár, en þar bar hæst sigur hins sprettharða Marcels Kittel á lokadeginum í París, en áður hafði hann unnið þrjár dagleiðir aðrar.

Hjóluðu 3.664 kílómetra

Frakklandsreiðin stendur yfir í þrjár vikur og fór nú fram í 101. sinn. Lögðu keppendur að baki 3.664 kílómetra á níu flötum dagleiðum, fimm hæðóttum og sex erfiðum fjallaleggjum, svo og einni leið þar sem hver og einn hjólaði 54 kílómetra einn og sér í kapp við klukkuna. Inn á milli voru aðeins tveir hvíldardagar. Eins og svo oft áður leið vart sá dagur að ekki yrðu byltur í hópnum sem taldi 198 keppendur en alla leið í mark náðu 164.

Meðal þeirra sem meiddust það mikið við fall að þeir urðu að hætta voru Bretinn Chris Froome, sem sigraði í fyrra og var talinn sigurstranglegastur nú. Leið ekki á löngu uns helsti keppinautur hans og gamall sigurvegari í Tour de France, Spánverjinn Alberto Contador, féll og fótbrotnaði. Þá urðu vonbrigði Breta mikil er hinn sprettharði Mark Cavendish flaug á hausinn á rúmlega 60 km/klst hraða og slasaðist á fyrsta degi rétt fyrir endamarkið í Jórvík á Englandi. Hann hafði unnið 25 dagleiðir í Frakklandsreiðinni frá 2007 og ætlaði sér ekkert annað en sigur á heimavelli þar sem markið var aðeins nokkrum metrum frá heimili móður hans.

Að þessu sinni hófst Frakklandsreiðin í Englandi og þar voru þrjár fyrstu dagleiðirnar háðar. Aðstandendur keppninnar voru agndofa af undrun vegna góðra undirtekta almennings sem flykktist á vettvang til að fylgjast með. Hefur aldrei verið jafn þröngt á þingi á vegum Jórvíkurskíris og síðar á leiðinni frá Cambridge til London.

Hefur keppt 17 ár í röð

Annar knapi sem lét að sér kveða sem fyrr kvaddi Frakklandsreiðina hinsta sinni, eftir að hafa keppt 17 ár í röð, oftast með ágætum. Þar var um að ræða þýska 43 ára gamla knapann Jens Voigt. Hann hefur nóg að sýsla við í framtíðinni því heima bíður hans eiginkona og sex börn.

Allt er breytingum undirorpið í Tour de France, eins og brotthvarf Voigts sýnir. Nema þó hinn 68 ára gamli ítalski blaðamaður Gianni Mura sem fylgst hefur með og fjallað um keppnina frá 1967, tæpa hálfa öld. Hann skrifar greinar sínar enn á handsnúna 38 ára gamla Lettera 32-ritvél. Að því búnu hringir hann heim og les pistlana fyrir ritara sem skrifar þá inn í tölvu. Allt kunnugar aðferðir en þó varla á tölvuöld.