Brjánn Guðjónsson fæddist að Skáldalæk í Svarfaðardal 19. nóv. 1923 og lést þann 22. júlí sl.

Foreldrar hans voru þau Snjólaug Jóhannesdóttir, f. 16. mars 1888, d. 13. mars 1974 og Guðjón Baldvinsson, f. 7. mars 1892, d. 24 des. 1947. Systkini Brjáns voru Börkur, f. 1. desember 1916, d. 31. júlí 1947, Bragi, f. 17. nóvember, 1917 d. 11. sept. 1984, Baldur f. 7. apríl 1920 d. 9. nóv. 1945. Yngst er Björk f. 25. júlí 1930 og er hún ein eftirlifandi þeirra systkina. Brjánn ólst upp á Skáldalæk við venjubundin sveitastörf og hlaut almenna barnamenntun eins og hún tíðkaðist í þá daga. Hugur hans stefndi til búskapar og árin 1945-46 stundaði Brjánn nám við Bændaskólann á Hólum í Hjaltadal og útskrifaðist þaðan sem búfræðingur. Brjánn stundaði síðan búskap á Skáldalæk ásamt foreldrum sínum. Á haustdögum 1947 flutti að Skáldalæk unnusta Brjáns, Ragnheiður Júlíusdóttir, frá Sunnuhvoli á Dalvík, f. 10. júlí 1927, d. 19. Júlí 2013. Brjánn og Ragnheiður gengu í hjónaband 1948 og hugðust þau búa á Skáldalæk í samvinnu við Guðjón og Snjólaugu. Skyndilegt fráfall Guðjóns 1947 breytti þeim áætlunum og rúmu ári síðar fluttu þau ásamt Snjólaugu og yngstu systurinni Björk til Akureyrar og áttu þar heimili alla tíð upp frá því. Á fyrstu árum Brjáns starfaði hann í Skóverksmiðjunni Iðunni sem tilheyrði svokölluðum Sambandsverksmiðjum á Akureyri. Lengst af sínum starfsferli starfaði hann hinsvegar við verslunarstörf, fyrst sem meðeigandi Nýju Kjötbúðarinnar en eftir nokkur ár hóf hann störf hjá KEA þar sem hann starfaði síðan þar til starfsævi hans var öll. Lengst af var hann deildarstjóri í Nýlenduvörudeild en síðar sviðsstjóri matvörusviðs KEA. Þau hjónin eignuðust 6 börn en þau eru, 1) Baldur Brjánsson, f. 1948, maki Birna Hannesdóttir. 2) Júlíus Ingvar Brjánsson, f. 1951, maki Ásta Fanney Reynisdóttir. 3) Guðjón Svarfdal Brjánsson, f. 1955, maki Dýrfinna Torfadóttir. 4) Björk Elfa Brjánsdóttir, f. 1959, maki Angantýr Arnar Árnason. 5) Snjólaug Jónína Brjánsdóttir, f. 1962, maki Kristján Már Magnússon og 6) Þráinn Brjánsson, f. 1965, maki Petra Sif Gunnarsdóttir. Barnabörn Brjáns eru 19 og barnabarnabörnin orðin 32 talsins.

Útför Brjáns fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 31. júlí 2014, og hefst athöfnin kl. 13.30.

Jæja, pabbi minn, þá er ferðalagið hafið og þú færð aldeilis veðrið til þess. Mig langar að fá að þakka þér fyrir samfylgdina og þakka þér fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig og kennt mér. Fórnfýsi, umhyggja og alúð er það sem kemur fyrst upp í hugann þegar hugurinn reikar til baka og minningin um góðan og umhyggjusaman föður yljar mér. Margar spurningar vakna þessa dagana og mikið hefði verið hægt að spjalla en við eigum eftir að setjast niður jafnvel með hákarlsbita og ræða málin þegar þar að kemur og spjalla um sprettu og bústörf en gamli tíminn var þér kær og sveitin átti ætíð stóran stað í hjarta þínu og hin síðustu ár þegar hugurinn var reikandi leið þér best við spjall um dagana í sveitinni. Þú varst samvinnumaður fram í fingurgóma og naut samvinnuhreyfingin starfskrafta þinna um árabil og svo ekki sé minnst á útgerðarmanninn Brján sem lét til sín taka á þeim vettvangi. Hagleiksmanninn Brján þekktu allir og mörg listasmíðin liggur eftir þig hvort sem um er að ræða sumarhús, blómaskála eða bifreiðasmíði. Tónlistargyðjan fór um þig höndum og varstu búinn að leika á nikkuna á mörgum dansleikjunum gegnum tíðina og einnig varstu söngmaður góður og kirkjukór Akureyrar fékk að njóta krafta þinna og launaði þér það með því að gera þig að heiðursfélaga sem þér þótti vænt um. Kirkjurækinn varstu og margar messurnar var maður búinn að sitja uppi á sönglofti og fylgjast með ykkur í kórnum. Já, það er margs að minnast pabbi minn og þrátt fyrir áföll í lífinu komstu sterkur til leiks og skilaðir þínu svo sannarlega. Núna tekur við nýr kafli í tilverunni en eftir standa fallegar minningar og að lokum vil ég þakka þér fyrir að hafa tekið mig í fang þitt og fylgt mér þessa leið. Petra Sif, Finnur Marinó og Íris Björk þakka fyrir öll árin og minnast þín með gleði. Farðu í friði, elsku pabbi.

Þráinn Brjánsson.

Elskulegur pabbi minn er nú fallinn frá á nítugasta og fyrsta aldursári. Við sem eftir sitjum tökumst nú á við söknuðinn, ljúfu minningarnar og tómarúmið sem myndast eftir allar samverustundirnar. Á Hlíð, þar sem hann átti heimili síðustu árin, áttum við saman góðar stundir daglega eftir að minni vinnu lauk á daginn en ég hef verið það lánsöm að starfa á Hlíð og getað verið nálægt pabba og getað litið til hans og spjallað stundarkorn. Í gegnum hugann fljúga margar minningar, bernskuárin, bænirnar sem hann kenndi mér, allar stundirnar á kirkjuloftinu þegar hann söng í kirkjukórnum og ég sat lotningarfull, í mínu fínasta pússi og dáðist að söngfólkinu og þá sérstaklega pabba mínum sem hafði þessa björtu fallegu tenórrödd. Fyrir mér var pabbi ætíð kletturinn, hann sýndi öllum málum áhuga og alltaf var hægt að fá ráð, huggun og skilning ef eitthvað bjátaði á. Ég veit að pabbi er kominn á fallegan stað í faðm mömmu og allra ættingjanna og gömlu vinanna sem farnir eru yfir móðuna miklu og sé ég hann fyrir mér þar sem hann er búinn að slá upp harmonikkudansleik og Mikki vinur hans leiðir dansinn. Takk fyrir samfylgdina í gegnum lífið, elsku pabbi. Guð blessi þig.

Á hendur fel þú honum,

sem himna stýrir borg,

það allt, er áttu í vonum,

og allt, er veldur sorg.

Hann bylgjur getur bundið

og bugað storma her,

hann fótstig getur fundið,

sem fær sé handa þér.

(Björn Halldórsson)

Björk Elfa Brjánsdóttir.

Pabbi hefur kvatt okkur. Brjánn í Kaupfélaginu, eins og hann var oft nefndur, hefur lokið hlutverki sínu í þessu lífi.

Í uppvextinum skipuðu KEA og Akureyrarkirkja stóran sess í lífi fjölskyldunnar, enda starfaði pabbi hjá KEA í um 40 ár og söng jafnlengi í kirkjukór Akureyrar. Ég á minningar um sunnudaga sem byrjuðu á kirkjuloftinu þar sem pabbi söng með kórnum og síðan lá leiðin í matvörudeildina þar sem ég aðstoðaði við að taka brauð úr frysti fyrir mánudaginn. Og oftar en ekki endaði ferðalagið í Skjaldarvík þar sem heimsóttir voru aldraðir ættingjar eða þeir sem áttu engan að. Síðustu daga hef ég verið að hugsa um hvað einkenndi pabba og það fyrsta sem kom upp í hugann var góð nærvera, kærleikur og manngæska. Pabbi var svo sem ekki maður margra orða en hafði ótrúlega góða nærveru. Ég man aldrei eftir að hafa heyrt pabba hallmæla neinum. Það sem komst næst því var að hann segði: „Hann er svolítið sérstakur“. Hann gaf öllum tækifæri, dæmdi aldrei fyrirfram. Það var gestkvæmt í Rauðumýrinni og oft glatt á hjalla við spilamennsku, bæði á spil og orgel. Oftar en ekki var stiginn dans ef komið var í aðra tána. Pabbi var hagleiksmaður, ég man ekki eftir að hafa séð iðnaðarmann heima í Rauðumýri þrátt fyrir framkvæmdir. Pabbi vildi gera hlutina sjálfur, hvort sem það var að byggja sumarbústað, gera upp bíla eða saumavélar. Ökuleikni var hins vegar ekki hans sterka hlið enda báru bílar hans þess merki, sérstaklega í seinni tíð. Honum var nú ekkert um það gefið að lána bílana sína og sér í lagi reyndi hann hvað hann gat til að komast hjá því að hleypa dætrunum tveimur undir stýri. Rétt eftir að ég fékk bílpróf ætlaði ég að láta á það reyna hvort karlinn myndi lána mér bílinn og spurði um leyfi. Hann tók sér góðan umhugsunarfrest en sagði svo: „Ég skal frekar aðstoða þig við að fá lán svo þú getir keypt þér bíl“. Ég er svo óendanlega þakklát fyrir að hafa átt hann pabba og að börnin mín fengu að kynnast honum og muna hann. Ég hef fulla trú á að hann sitji nú við hlið, ekki guðs almáttugs, heldur mömmu og vina sinna og taki lagið á nikkuna.

Við sjáumst pabbi minn.

Snjólaug Jónína

Brjánsdóttir.

Hann var trúr sínu. Eitt sinn eftir að Hagkaup var opnað á Akureyri spurði ég tengdaföður minn hvort hann vildi keyra mig og skoða nýju búðina. Það kom löng þögn og svo kom svar með semingi: „Viltu ekki bara fá bílinn?“ Þetta kom á óvart því yfirleitt lánaði hann engum bílinn. Mér varð fljótlega ljóst að hann gat ekki með nokkru móti hugsað sér að láta sjá sig í grennd við þessa verslun sem var í forhertri samkeppni við KEA sem átti hug hans og krafta alla. Þessi ljúfa minning er meðal margra sem læðast fram. Þannig var hann, blessaður tengdafaðir minn sem við kveðjum nú í dag, trúr, einlægur og tryggur, bæði fjölskyldunni og vinnuveitanda sínum í áratugi.

Hann barst ekki mikið á og vildi ekki hafa mikið umleikis og mörgum í kringum hann fannst skorta svolítið á dirfskuna að afla sér hinna veraldlegu gæða. En það var ekki það. Hann hafði metnað gagnvart sínu, það sýna merkin þegar horft er um öxl, húsið, garðurinn, gróðurinn, sjálfsbjargarviðleitnin og góðu gildin sem hann miðlaði til allra þeirra sem í kringum hann voru. Ég held að hann hafi haft djúpan skilning á lífinu enda gekk hann um sína daga í gegnum erfiðar raunir. Allt hans líf einkenndist af mikilli virðingu fyrir fólki og hann naut samskipta og samveru, umræðunnar, að sýna greiðvikni og hjálpsemi og tryggð við fólkið sitt, bæði ættmenni og gamla sveitunga. Hann var glettinn og gamansamur og naut þess að koma fjölskyldunni á óvart með ofsögum og ýkjum, sérstaklega ef honum tókst svo vel upp að alla setti hljóða en í þessari fjölskyldu gerist það reyndar sjaldan.

Sögurnar voru aldrei á kostnað annarra, aldrei hnjóðsyrði. Hann var yfirleitt miðdepillinn í ævintýrum og oftast einhverjum óförum. Hann var völundur í höndum og smíðaði innréttingar, bólstraði húsgögn, málaði, teppalagði, gerði við saumavélar og bjó til eðalvagna úr a.m.k. þremur bílhræjum og sumarbústað sem er fjölskyldunni dýrmætur minnisvarði um nýtni og ýmislegar sérlausnir. Hann var gæddur tónlistargáfum, spilaði á hljóðfæri og söng í hálfan mannsaldur í Kirkjukór Akureyrar sem var hans eina frístundaiðja. Hann kaus Framsóknarflokkinn, hafði trú á fulltrúum flokksins. Já, það var eitthvað í ætt við trú þessi tryggð hans. Því fannst honum eiginlega slegnar tvær flugur í einu höggi þegar sonur prestsins bauð sig fram og komst á þing. Frá því ég kynntist fjölskyldunni hef ég upplifað þar margar sérstakar og ánægjulegar samverustundir, t.d. stórtæka sláturgerð og bjúgnagerð á haustin. Seinni árin byggði hann sér kofa á lóðinni í Rauðumýrinni, dvaldi þar löngum, dyttaði að viðhaldi, útskurði, smíðaði klukkur, maulaði af hákarli og harðfisk, það var oft sérkennilegur eimur í loftinu. Minningin lifir og fyrir hlý og dýrmæt kynni þakka ég. Norðanfólki í fjölskyldunni þakka ég af alhug fyrir umönnun og stöðuga ræktarsemi við föður sinn allt til loka og sömuleiðis starfsfólki á Hlíð en viðmót þess var ætíð til fyrirmyndar og sérstaklega þegar leið að hinsta degi. Hvíl í friði og sátt, kæri Brjánn.

Þín tengdadóttir,

Dýrfinna Torfadóttir.

Afi okkar kær er nú horfinn af vettvangi lífsins eftir langt og viðburðaríkt líf. Hann var af þeirri kynslóð sem upplifði stórkostlegar samfélagsbreytingar, fæddist í torfbæ í Svarfaðardal við örbirgð og segja má að hann hafi brotist af eigin rammleik til allsnægta. Á hans unga aldri voru engar vélar og búnaður til að létta bústörfin var fábreyttur og treysta þurfti á mannshöndina og hugvit til að leysa málin. Það einkenndi alltaf afa einmitt hvernig hann lá yfir hlutunum og leysti verkefni á sinn eigin hátt. Oft fannst okkur það reyndar hálf sérviskulegt. Afi var tryggur og trúr framsóknarmaður og talaði fyrir sjónarmiðum félagshyggju alla tíð. Eftir að vídeóöldin gekk í garð eignaðist hann og amma upptökutæki sem afi náði reyndar aldrei fullum tökum á en tókst þó alltaf að taka upp áramótaávörp Steingríms Hermannssonar og þau voru varðveitt eins og gersemi á besta stað í stofuskápnum. Þetta fundum við bræður út þegar við komum í heimsókn í Rauðumýrina og vorum að leita að einhverju skemmtiefni til afþreyingar. Þessar upptökur þótti okkur ekki nein dægradvöl. Afi var hreinasti og sannasti jafnaðarmaður sem við höfum kynnst og lifði sannarlega eftir því. Honum var ekki gefið um að sækjast eftir gæðum heimsins umfram það að tryggja velferð fjölskyldunnar eftir bestu getu en það þurfti nokkuð til. Hann lagði aldrei illt orð til nokkurs manns og það allra neikvæðasta sem af vörum hans kom var kannski að viðkomandi „væri svolítið sérstakur“. Hann var glaðsinna og félagslyndur og naut þess að ræða við mann og annan um dagleg viðfangsefni. Afi var ekki skaplaus og vildi hafa skikk á hlutunum og litlir óróaseggir urðu að ganga um gleðinnar dyr hægar en ella þegar við komum norður til þeirra gömlu hjónanna. En það var alltaf gaman. Amma með sína miklu hlýju og afi sem alltaf vildi heyra af því hvernig gengi, taka lagið á orgelið og gantast. Viðdvöl í skúrnum hjá honum, fylgjast með þegar hann var að sýsla, skera út eða huga að veiðigræjum, rétta honum hjálparhönd við rabarbarauppskeruna, fá að fylgjast með honum austur í bústað við endurbætur og viðhald, borða með þeim ömmu og afa eftirlætið, vel feitt og saltað hrossakjöt. Allar þessa minningar hrannast nú upp og geymast og eru okkur dýrmætar.

Afi kveður nú á tíræðisaldri eftir dálítið erfiðan undirbúning til brottfarar og ef einhver á það skilið að fá góða heimkomu, þá er það afi. Hans verður minnst sem góðs manns sem lifði fallegu og göfugu lífi og hafði jákvæð áhrif á þá sem í kringum hann voru. Ljóðlínur skáldsins á Sigurhæðum lýsa sannarlega góðum eiginleikum hans:

Hinn vonda soll varast og vanda þitt mál.

Og geymdu nafn guðs þíns í grandvarri sál.

Ver dyggur, ver sannur, því drottinn þig sér

Haf daglega Jesúm í verki með þér.

(M. Joch.)

Við bræðurnir kveðjum nú aldinn ættarhöfðingja og þökkum fyrir dýrmæta samveru. Þau eru nú bæði horfin okkur, afi og amma en eitt ár og fjórir dagar voru á milli þeirra. Við vitum að endurfundir verða kærir.

Brjánn Guðjónsson og

Hallur Guðjónsson.