Virðingarleysi banka fyrir lögum er vandamál, segir William Dudley, seðlabankastjóri í New York.
Virðingarleysi banka fyrir lögum er vandamál, segir William Dudley, seðlabankastjóri í New York.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ginu Chon í Washington Bankar hafa lagt áherslu á að styrkja áhættustýringu og regluvörslu, en siðferðið hefur ekki batnað eftir bankakreppuna að mati eftirlitsaðila.

Seðlabankinn í New York (The Federal Reserve Bank of New York) hefur sett aukinn þrýsting á stærstu banka heims um að þeir herði siðareglur sínar og verklag tengt þeim. Ástæðan er sú að rannsókn á meintum tilraunum banka til að hagræða millibankavöxtum hefur leitt til þess að embættismenn líta svo á að bankamenn hafi ekkert lært af fjármálakreppunni.

Samkvæmd heimildarmönnum sem til þekkja hafa rannsóknir á hægræðingu á LIBOR-vöxtum og gjaldmiðlum dregið fram í dagsljósið tölvupósta og önnur sönnunargögn sem embættismenn seðlabankans í New York telja endurspegla ábyrgðarleysi og ólögmæta hegðun.

Það kom jafnframt starfsmönnum seðlabankans í New York á óvart að sum hinna meintu brota áttu sér stað eftir að fjármálakreppan skall á árið 2008. Mat þeirra er að þetta sé til marks um að bankamenn hafi ekki bætt framferði sitt.

Spurt út í siðareglur

Seðlabankinn í New York er nú farinn að spyrja sérstaklega út í siðareglur og verklag tengt þeim þegar hann gerir úttektir á störfum þeirra banka sem undir hann heyra. Markmiðið með því er að fá stærstu banka heims til að taka þessi mál föstum tökum. Meðal þess sem er athugað er hvort viðeigandi úrræði séu fyrir hendi innan bankanna til að refsa fyrir slæma hegðun og þá sérstaklega þegar kemur að launagreiðslum til starfsmanna.

Seðlabankinn í New York hefur ekki reglusetningarvald yfir bönkum sem starfa í hans umdæmi. En þar sem stærstu bankar heims – meðal annars Goldman Sachs, JPMorgan, Citigroup, Barclays og Deutsche Bank – heyra undir hann hafa áherslur seðlabankans mikil mótunaráhrif á þróun regluverks fjármálamarkaða. Seðlabankinn í New York leggur mat á starfsemi banka með reglulegum úttektum, sem byggjast þó frekar á leiðbeinandi tilmælum en stöðluðum viðmiðum.

Thomas Baxter, yfirmaður lögfræðisvið seðlabankans, hefur að sögn kunnugra fundað að undanförnu með framkvæmdastjórum banka og lagt áherslu á að æðstu stjórnendur þurfi að setja gott fordæmi þegar kemur að siðlegu framferði í bankastarfsemi. Stefnt er að því að seðlabankinn haldi vinnustofur um málaflokkinn í haust.

Mikið starf hefur verið unnið innan bankageirans við að taka í gegn áhættustýringu og á sama tíma hafa þúsundir verið ráðnar til að styrkja regluvörslu. En áhyggjur eru uppi um hvernig eftirlitsaðilar koma til með að fylgjast með hvernig bankar standast auknar kröfur um siðareglur og verklagi í tengslum við þær.

Heimildarmaður innan bankageirans segir að menn taki skilaboðin frá seðlabankanum alvarlega: „En við verðum að tryggja að við vitum hverjar reglurnar eru.“

„Augljóst virðingarleysi fyrir lögum“

Þau skref sem seðlabankinn í New York hefur trekið að undanförnu koma í kjölfar óvenjulega harkalegra ummæla sjálfs seðlabankastjórans, Williams Dudleys, í nóvember. Þá lét Dudley þau orð falla að auknar eiginfjárkröfur leystu ekki endilega þann vanda í bankageiranum sem stafaði af „augljósu virðingarleysi fyrir lögum og reglum“.

„Það er djúpstæður veikleiki til staðar í mörgum stórum fjármálafyrirtækum, tilkominn vegna skorts á vinnustaðamenningu og siðferði,“ sagði Dudley í ræðu sinni. „Erfitt er að dæma um það, hvort vandinn stafar af stærð og flókinni samsetningu fjármálafyrirtækjanna, slæmum hvötum eða öðrum þáttum. Hvað sem veldur er þetta alvarlegur vandi sem þarf að taka á.“

Sarah Dahlgren, sem er yfirmaður fjármálaeftirlits seðlabankans í New York, sagði ennfremur í október: „Traustið á milli almennings og fjármálageirans hefur hugsanlega aldrei verið minna.“

Starfsmenn seðlabankans hafa bent bönkum á að líta til annarra geira sem hafa farið í gegnum meiriháttar áföll og álitshnekki, til að mynda olíuiðnaðarins, og reyna að læra af reynslu þeirra. Þeir hafa einnig fundað með háskólafólki og áhrifamiklum hugsuðum í leit að hugmyndum að bættu siðferði og vinnustaðamenningu innan bankageirans.