Montreal. AFP. | HEXO+ fylgir mönnum eins og skugginn eða vel þjálfaður hundur en eltir þá ekki hvert fótmál á jörðinni, heldur á flugi.

Montreal. AFP. | HEXO+ fylgir mönnum eins og skugginn eða vel þjálfaður hundur en eltir þá ekki hvert fótmál á jörðinni, heldur á flugi.

Franska sprotafyrirtækið Squadron System þróaði HEXO+ og segir það vera fyrsta sjálfstýrða smáflygildið sem verði fjöldaframleitt fyrir almennan markað. Flygildið verður sett á markað í maí á næsta ári.

Notendur loftfarsins setja það í gang með appi í farsíma. Það flýgur síðan á eftir þeim í nokkurra metra fjarlægð á allt að 70 km hraða á klukkustund og tekur myndir af öllu því sem notendurnir taka sér fyrir hendur.

Margir iðkendur jaðaríþrótta hugsa sér gott til glóðarinnar og ætla að nota tækið til að gera afrek sín ódauðleg. „Ég hef aðallega lagt stund á það að taka myndir af snjóbrettamönnum og byrjaði að nota flygildi fyrir nokkrum árum,“ segir Xavier Delerue, einn stofnenda Squadron System. Hann segir flygildi mjög hentug til slíkrar myndatöku og kveðst ekki hafa áhyggjur af því smáflygildi verði notuð í illum tilgangi, t.d. til að njósna um börn að leik í almenningsgörðum. „Þegar hafa verið settar reglur sem vernda fólk gegn ólöglegri notkun,“ segir hann.

Þing landa í Evrópu og Norður-Ameríku virðast þó ekki hafa haldið í við þróunina á þessu sviði en kappkosta nú að finna leiðir til að setja reglur um notkun flygilda.

Flytji hjálpargögn frekar en pitsur

Ólíkt hernaðarflygildum, sem stundum eru nefnd drónar, geta flygildi fyrir almenna notkun aðeins flogið í allt að 20 mínútur í senn og yfirleitt ekki borið mikið meira en myndavél. Stór fyrirtæki vinna þó að því að þróa flygildi sem eru langfleygari og með meiri burðargetu.

Til að mynda olli netrisinn Amazon uppnámi fyrir síðustu jól þegar fyrirtækið kynnti áform um að nota flygildi til að koma bókum og öðrum varningi til kaupenda.

Rússneska skyndibitakeðjan Ilja Farafonov tók nýlega í notkun flygildi, sem eiga að koma pitsum til skila, og stefnir að því að nota þau í átján borgum.

Aðrir áhugamenn um flygildi vilja þó að þau verði notuð í þarfari verkefni en pitsuflutninga. „Þetta er alger vitleysa,“ segir Andreas Raptopoulos, framkvæmdastjóri Matternet, fyrirtækis sem leitar leiða til að nota flygildi við hjálparstörf í þróunarlöndum. „Hvers vegna notum við ekki sömu tækni til að bjarga mannslífi þegar móðir eða barn þarf lyf? Í mínum huga nýtist þessi tækni best í hjálparstarfi.“

Raptopoulos segir að meðal annars verði hægt að nota flygildi til að koma matvælum og öðrum hjálpargögnum til nauðstaddra á átaka- eða hörmungasvæðum. Matternet hefur þegar notað flygildi í tilraunaskyni á Haítí og í september hyggst fyrirtækið byrja að flytja blóðsýni þar fyrir samtökin Lækna án landamæra. Þá hafa Sameinuðu þjóðirnar notað flygildi til að fylgjast með uppreisnarmönnum í Austur-Kongó við landamærin að Úganda og Rúanda.