Kristján Gunnlaugur Bergjónsson fæddist 3. október 1932. Hann lést 4. júlí 2014. Útför hans fór fram í kyrrþey.

Hjartað mitt grætur af sorg, elsku afi minn, er ég kveð þig í hinsta sinn.

Ég á fullt af skemmtilegum minningum og veit ekki hvernig ég á að velja eða hvernig ég á að koma þeim niður á blað, en á sama tíma veit ég að sama hvað fer niður á blað þá yrði afi minn ánægður, hann var alltaf svo ánægður og stoltur af manni, maður gat sagt honum allt á milli himins og jarðar og hann gat hlustað á það, svo spurði hann alltaf meira um lífið og tilveruna.

Afi minn var rosalega flottur maður, var með hjarta úr gulli, hann var ekki bara trésmiður heldur var hann slökkviliðsmaður og sjúkrabílsstjóri, hann bjargaði mannslífum og alltaf hef ég verið stolt af því.

Ég man sérstaklega eftir því þegar ég var lítil, ætli ég hafi ekki verið fimm ára, var mjög veik og það þurfti að senda mig með sjúkraþyrlu frá Búðardal til Reykjavíkur, þá var afi að keyra sjúkrabílinn og hann kom og náði í mig. Ég man ennþá eftir því þegar hann kom inn með teppi til að taka mig í bílinn, þegar hann horfði á mig þá vissi ég að allt yrði í lagi af því afi var kominn.

Afi minn var ekki opinn en hann var hjartahlýr og góður, maður gat alltaf sest hjá honum og haldið í puttann hans sem vantaði á, alltaf þegar ég horfi á þumalinn á mér minnist ég afa, mér fannst puttinn svo merkilegur og fannst alltaf gaman að heyra söguna um þegar hann missti góðan hluta af þumlinum. Og svo hló maður alltaf þegar hann talaði um skítahoppara.

Sorgin er gjöf guðs, því að þeir einu geta syrgt sem hafa elskað.

Elsku afi minn, ég er rosalega þakklát fyrir þann tíma sem ég fékk með þér og þakklát að þú hafir fengið að kynnast litlu Emmu Sjöfn minni. Minningarnar geymi ég í hjarta mínu og ég mun alltaf minnast þín, við munum hittast aftur þegar minn tími kemur, ég elska þig.

Þín

Ruth Kjærnested.

Í dag kveð ég afa minn með miklum söknuði.

Elsku afi, ég á eftir að sakna þess alltaf þegar ég kem heim í Búðardal, að koma inn til þín þegar þú sefur með bókina á maganum eða inni í eldhúsi að drekka kaffi og hlusta á útvarpið. Við áttum margar eftirminnilegar umræður, sérstaklega um fótboltann og söguna um puttann þinn. Ég á eftir að sakna þess þegar ég fór aftur í bæinn að sjá þig í dyragættinni að vinka bæ og fylgja alveg þangað til ég gat ekki séð þig lengur. Afi, þú varst toppmaður með hjarta úr ást og hamingju. Góða ferð, elsku afi.

Þín

Birta Kjærnested.