Guðmundur Karl Jónsson
Guðmundur Karl Jónsson
Eftir Guðmund Karl Jónsson: "Þarna tókst fyrrverandi ríkisstjórn sem vonsviknir kjósendur refsuðu harkalega í síðustu kosningum að skaða samgöngumál landsbyggðarinnar í heild."
Þökk sé núverandi innanríkisráðherra sem viðurkenndi eftir síðustu stjórnarskipti að tímabært væri að flýta útboði Dýrafjarðarganga, það yrði í síðasta lagi 2014. Best væri að það yrði ákveðið strax til þess að framkvæmdir geti hafist í síðasta lagi 2015. Ein og sér tryggja þau aldrei öruggar heilsárssamgöngur milli byggðanna sunnan Arnarfjarðar og norðan Hrafnseyrarheiðar. Mín skilaboð til innanríkisráðherra og allra þingmanna Norðvesturkjördæmis eru þau að skoðaðir verði á þessu kjörtímabili möguleikar á veggöngum sunnan Arnarfjarðar í beinu framhaldi af Dýrafjarðargöngum áður en framkvæmdum við Vaðlaheiðar- og Norðfjarðargöng lýkur að fullu eftir 3–4 ár. Skammarlegt er að menn skuli taka hreppaflutninga og uppbyggða vegi í meira en 600–700 m hæð á illviðrasömum og snjóþungum svæðum fram yfir þetta samgöngumannvirki sem ætlað er að tryggja öryggi byggðanna um ókomin ár. Ólíðandi er að tilefnislausar rangfærslur um samgöngumál fjórðungsins skuli í tíð fyrri ríkisstjórnar hafa fleytt stuðningsmönnum Vaðlaheiðarganga alla leið inn í sali Alþingis. Nú ættu allir þingmenn Norðvesturkjördæmis og sveitarstjórnirnar á sunnanverðum og norðanverðum Vestfjörðum að kynna sér þörfina á nýrri samgönguáætlun fyrir allt landið í stað þeirrar sem Alþingi var blekkt til að samþykkja í tíð Ögmundar Jónassonar, þáverandi innanríkisráðherra. Þarna tókst fyrrverandi ríkisstjórn, sem vonsviknir kjósendur refsuðu harkalega í síðustu kosningum, að skaða samgöngumál landsbyggðarinnar í heild. Þingmenn Norðvestur- og Norðausturkjördæmis tóku það ekki nærri sér þegar Steingrímur J. lét útboð Bolungarvíkurganga fara í taugarnar á sér og beitti um leið öllum brögðum til að troða stóra samgönguhneykslinu undir Vaðlaheiði fram fyrir önnur þarfari verkefni á Vestfjörðum og Mið-Austurlandi sem hafa allt of lengi setið á hakanum. Til að losna við allar hættur á snjóflóðum, grjóthruni og aurskriðum í Mjólkárhlíð ættu allir þingmenn Norðvesturkjördæmis að flytja á Alþingi tillögu um stutt veggöng undir Meðalnesfjall og kynna sér reynsluna sem meirihluti Austfirðinga hefur af Almannaskarðsgöngunum. Þessum ágætu landsbyggðarþingmönnum mætti vera ljóst að öruggar heilsárssamgöngur milli byggðanna sunnan Dynjandisheiðar og norðan Hrafnseyrarheiðar eru óhugsandi án þess að önnur jarðgöng verði sett inn á vegaáætlun í beinu framhaldi af Dýrafjarðargöngum sem Alþingi samþykkti í tíð Sturlu Böðvarssonar, þáverandi samgönguráðherra, árið 2000. Án þeirra hefði aldrei átt að leggja niður sýslumannsembættið á Patreksfirði og setja um leið Austur- og Vestur-Barðastrandarsýslur undir embættið á Ísafirði. Þess iðrast menn nú á meðan veggöng sunnan Arnarfjarðar eru ekki í sjónmáli. Fyrir þessum samgöngumannvirkjum skulu báðar heiðarnar víkja endanlega til þess að örugg vegtenging milli byggðanna á norðan- og sunnanverðum Vestfjörðum verði tryggð næstu áratugina. Sunnan Arnarfjarðar hefði verið hægt að ráðast í jarðgöng á þessu ári ef menn hefðu séð sóma sinn í því að bjóða Dýrafjarðargöng út að loknum framkvæmdum við Fáskrúðsfjarðargöng 2005. Það kærðu fyrrverandi þingmenn Vestfirðinga sig ekki um því þeim voru þessi samgöngumannvirki ekki að skapi. Á sama tíma lýstu örfáir þingmenn Norðausturkjördæmis andúð sinni á samgöngumálum Norðvesturkjördæmis þegar þeir fluttu þingsályktunartillögu um fjármögnun hálendisvegarins með þrjú þúsund króna veggjaldi á hvern bíl, sem er óskynsamlegt án þess að öryggi vegfarenda sé haft í huga. Fyrir árásirnar á heilbrigðisþjónustuna utan Reykjavíkur og Akureyrar skal fyrrverandi ráðherra heilbrigðismála, Guðbjartur Hannesson, bæta með því að berjast gegn þessari þingsályktunartillögu og kröfu þingmanna Norðausturkjördæmis um að öll umferðin milli Reykjavíkur og Akureyrar verði leidd framhjá Varmahlíð og Blönduósi í andstöðu við Húnvetninga og Skagfirðinga. Hún er sett fram undir pólitísku yfirskini til að réttlæta tilefnislausar árásir á samgöngumál Norðvesturkjördæmis, sem eru ekki á forræði þingmanna Norðausturkjördæmis. Líkurnar á því að þeim takist að halda Hvalfjarðargöngunum og Norðvesturkjördæminu utan hringvegarins eru einn á móti milljarði þegar það sannast að Vegagerðin festist næstu þrjár aldirnar í svikamyllu Vaðlaheiðarganga. Ákveðum útboð Dýrafjarðarganga strax.

Höfundur er farandverkamaður.

Höf.: Guðmund Karl Jónsson