[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bjarni fæddist í Reykjavík 31.7. 1954 en ólst upp á Laugarvatni: „Ég er nú stundum sagður fæddur á hestbaki og hef löngum unað mér best í hnakknum.

Bjarni fæddist í Reykjavík 31.7. 1954 en ólst upp á Laugarvatni: „Ég er nú stundum sagður fæddur á hestbaki og hef löngum unað mér best í hnakknum. Ég hallaðist snemma að þeirri leiðbeiningu sem felst í vísu Þorsteins á Skálpastöðum, frænda míns af Grundarætt í Skorradal, þótt hægt gangi að ná tilætluðum árangri:

Vel ég finn mér væri það

veigamestur auður

ef þú gætir gert mig að

góðum manni, Rauður.“

Bjarni ólst upp við almenn sveitastörf, gekk í barnaskóla, héraðsskóla og menntaskóla á Laugarvatni og lauk B.Ed.-prófi frá KHÍ 1980.

Bjarni æfði og keppti í blaki og körfubolta á sínum yngri árum: „Ég varð Íslandsmeistari í blaki árið 1973 en eftirlætisíþróttin var körfuboltinn. Ég lék í meistaraflokki í Skarphéðinsmótum og Íslandsmótum um 25 ára skeið og það mun vera vottfest í Morgunblaðinu frá þessum árum að sóknarþungi HSK- liðsins var jafnan mestur þegar mér var skipt inná.“

Bjarni var kennari við Lýðháskólann í Skálholti 1973-74, við Gagnfræðaskólann í Þorlákshöfn 1980-82 og við Gagnafræðaskólann á Laugarvatni 1982-2004.

Bjarni hefur verið bóndi á Þóroddsstöðum í Grímsnesi frá 1982 og hefur átt þar heima frá 1990. Hann hefur einkum búið við hross, en löngum átt kindur einneigin. Hann hefur stundum átt góð hross – og hrúta: „Þóroddur frá Þóroddsstöðum er nafntogaðasti hesturinn, marglofaður gæðingur og heiðursverðlaunastóðhestur – en líka rægður af öfundarmönnum, eins og fara gerir um dæmafáar persónur.“

Bjarni sat í sveitarstjórn Bláskógabyggðar um hríð, gegndi formennsku í fræðslunefnd Grímsnes- og Grafningshrepps eitt kjörtímabil, hefur sinnt félagsstörfum um málefni hestamanna um áratuga skeið, og skrifað greinar um hestamennsku og hrossarækt.

Fjölskyldan gengur fyrir hjá Bjarna en helstu áhugamál eru hestamennska, hrossarækt, íslenskt mál, lestur góðra bóka og tækifærisvísur. Hann á það til að bresta í söng ef réttar aðstæður skapast.

Þá segist Bjarni vera haldinn alvarlegri og ólæknandi skeiðfíkn: „Rétt er að segja frá því hér að nýverið var sett Íslands- og heimsmet í 250 m skeiði á Landsmóti hestamanna. Sami knapi og hestur urðu svo tvöfaldir Íslandsmeistarar í skeiði um liðna helgi, enn á nýju meti í 250 metrunum: 21,75. Og viti menn: Afmælisbarnið ræktaði þau sem metið settu, mann og hross!

Þótt aldur færist nú yfir, er þess vonandi langt að bíða að afmælisbarnið geti gert að sínum orð langalangafa síns, Bergsteins Vigfússonar á Torfastöðum í Fljótshlíð – en það kemur að því!:

Fjörið, sem að guð mér gaf

og gætti af sinni mildi

að mestu leyti máð er af

í margri lífsins hildi.“

Fjölskylda

Kona Bjarna er Margrét Hafliðadóttir, f. 25.12. 1946, bankastarfsmaður. Foreldrar hennar: Hafliði Magnússon, f. 6.7. 1917, kjötiðnaðarmaður, og Karla Nielsen, f. 4.8. 1921, var verkakona.

Börn Bjarna og Margrétar eru Þorkell, f. 16.1. 1984, lögfræðinemi í Reykjavík en kona hans er Camilla Petra Sigurðardóttir háskólanemi; Bjarni, f. 13.10. 1985, tamningamaður og reiðkennari á Laugarvatni en kona hans er Freyja Rós Haraldsdóttir menntaskólakennari og er sonur þeirra Hrói, f. 1.9. 2012; Ragnheiður, f. 18.10. 1988, viðskiptafræðingur og bankastarfsmaður á Þórvoddsstöðum.

Stjúpdætur Bjarna eru Guðrún Hafdís, f. 14.1. 1964, húsfreyja á Seltjarnarnesi og eru börn hennar Margrét María, f. 11.6. 1986, Hólmar Karl, f. 17.6. 1988, Sofía Elsie, f. 14.7. 1999, og Heba Guðrún, f. 8.11. 2000; Lilja, f. 31.3. 1966, leikskólakennari í Reykjavík en maður hennar er Hilmar Ólafsson og eru dætur þeirra Íris Ósk, f. 19.4. 1989, og Ólöf Ýr, f. 5.12. 1994; Erna, f. 24.11. 1971, húsfreyja á Seltjarnarnesi en börn hennar eru Bylgja Eybjörg, f. 27.11. 1991, Sóley, f. 20.1. 1994, og Óskar Máni, f. 12.4. 2010.

Systkini Bjarna eru Hulda Björk, f. 21.12. 1948, bókasafnsfræðingur í Keflavík; Guðmundur Birkir, f. 21.12. 1948, fyrrv. skólameistari, búsettur í Kópavogi; Þorbjörg, f. 26.11. 1955, hjúkrunarfræðingur á Selfossi; Þorkell f. 25.1. 1957, vélamaður á Flúðum; Hreinn f. 23.7. 1959, skólastjóri, búsettur á Laugarvatni, og Gylfi, f. 24.5. 1961, framhaldsskólakennari á Selfossi.

Foreldrar Bjarna voru Þorkell Bjarnason, f. 22.5. 1929, d. 24.5. 2006, hrossaræktarráðunautur, var búsettur á Laugarvatni, og Ragnheiður Ester Guðmundsdóttir, f. 9.1. 1927, húsfreyja og fyrrv. matmóðir menntskælinga, á Laugarvatni.