Það voru stórtíðindi þegar Steve Jobs kynnti iPad-spjaldtölvuna til sögunnar 2010, en nýjungar af þeirri vigt hafa verið fátíðar hjá Apple undanfarin ár.
Það voru stórtíðindi þegar Steve Jobs kynnti iPad-spjaldtölvuna til sögunnar 2010, en nýjungar af þeirri vigt hafa verið fátíðar hjá Apple undanfarin ár. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Izabella Kaminska Styrkur Apple liggur í góðri hönnun og hagnýtingu tækninýjunga sem í mörgum tilfellum hefur orðið til fyrir opinbert fé. Izabella Kaminska svarar eigin spurningum um framtíð Apple.

„Útgjöld Apple vegna rannsókna- og þróunarvinnu á öðrum fjórðungi ársins nam 4% af sölutekjum félagsins á tímabilinu. Hlutfallið hefur ekki verið hærra síðan árið 2006.“ – Úr frétt Financial Times 23. júlí.

- Er það fréttnæmt að tæknifyrirtæki fjárfesti í rannsóknar- og þróunarvinnu?

Við erum ekki að ræða um neitt venjulegt tæknifyrirtæki. Apple-sértrúarsöfnuðurinn er með kröfuharða fylgjendur og fyrirtækið hefur sett fáar nýjar vörur á markað að undanförnu.

- Af hverju er fólk svo sannfært um að loksins sé von á nýjum leikföngum frá Apple?

Apple setti 1,6 milljarða dala í rannsóknir og þróun á síðasta ársfjórðungi. Það er 36% aukning frá því á sama tíma í fyrra. Snillingarnir í Cupertino hafa ekki verið svona uppteknir frá því að þeir voru að þróa fyrsta iPhone-símann.

- En af hverju er allt með kyrrum kjörum?

Allt frá því að Steve Jobs lést og Tim Cook tók við sem forstjóri hefur Apple verið sakað um að vera að missa forskotið með því leggja meiri áherslu á skyndigróða í þágu hluthafa en að treysta langtímahagsmuni með vöruþróun. Hefurðu ekki tekið eftir að nýjungarnar í iPhone-símunum verða sífellt ómerkilegri?

- Innstungan var gerð minni þegar iPhone 5 var settur á markað.

Einmitt. Árið 1996 þegar Jobs tók á ný við stjórnartaumunum í fyrirtækinu sem hann hafði stofnað tuttugu árum áður, var Apple sökkvandi skip. Í dag njóta vörur félagsins svo gífurlegra vinsælda að það virðist vera áhættumeira að fjárfesta í vöruþróun en að aðhafast ekki neitt. Áður fyrr hagnaðist Apple á vöruhönnun og á því að vera í fremstu röð í framþróun tækninýjunga. Undanfarið hefur þróunin og nýjungarnar fyrst og fremst verið á sviði fjármála.

- Þú ert að vísa í þessa 164,5 milljarða dala sem félagið situr á í reiðufé?

Já. Svo er það þessi stórfellda endurkaupaáætlun sem ásamt arðgreiðslustefnu félagsins er að dæla út 130 milljörðum dala til hluthafa – þetta var allt kynnt til sögunnar eftir fráfall Jobs. Mariana Mazzucato er hagfræðingur sem sérhæfir sig í rannsóknum á nýsköpun og er höfundur bókarinnar The Entrepreneurial State. Hún segir þessa stefnu vera leið til þess að hífa upp gengi hlutabréfa Apple með það að markmiði að hækka laun stjórnenda félagsins.

- Ég geri ráð fyrir að stjórn Apple myndi ekki orða þetta með þessum hætti?

Hefðbundin skýring stjórnarinnar á endurkaupunum og arðgreiðslunum er að félagið hafi ekkert betra við peningana að gera. Þar af leiðandi þjónar það best hagsmunum hluthafa að fá þá til sín. En það hefur sjaldan reynst farsælt fyrir fyrirtæki að feta þessa leið.

- Hér er þá komin útskýringin á auknum útgjöldum vegna rannsókna og þróunar?

Hugsanlega. En samanborið við önnur tæknifyrirtæki hefur Apple aldrei varið miklu fé til rannsókna og þróunar. Fyrirtækið hefur reitt sig á frumlega hagnýtingu á tækni sem nú þegar er til staðar.

- Af hverju hætti Apple því?

Félagið gerði það ekki. En mikið af þeirri tækni sem Apple hefur nýtt sér er tilkomið vegna fjármögnunar stjórnvalda á rannsóknum. Eftir að fjármálakreppan skall á hafa stjórnvöld dregið úr útgjöldum og það hefur dregið úr nýsköpun. Þar af leiðandi hefur verið minna af tækni frá hinu opinbera sem fyrirtæki eins og Apple geta nýtt sér.

- Þannig að tæknin í iPhone-símum er ekki bundin einkaleyfi?

Rétt er það. Að mati prófessors Mazzucato hefur allt það sem gerir iPhone að snjöllum síma, allt frá GPS til Siri, verið fjármagnað með opinberu fé. Það væru meiriháttar tíðindi ef Apple væri farið að fjárfesta í frumrannsóknum af þeirri gerð sem leiðir til tækninýjunga. En líklegast er að fjárfesting félagsins sé í hagnýtum rannsóknum.

- Eru þetta slæm tíðindi fyrir hluthafa?

Hugsanlega. Það að láta tæknitröllin vinna yfirvinnu í nokkra mánuði leiðir ekki til tækninýjunga sem valda straumhvörfum. Til þess þarf þolinmótt fjármagn, af þeirri gerð sem gjarnan gerir hluthafa órólega.

- Hvaða aðrir valkostir eru í stöðunni?

Stjórnvöld gætu opnað tékkheftið. En þau hafa lítinn hvata til þess sökum þess hve lítið þau bera úr býtum eftir að einkageirinn hagnýtir þær tækninýjungar sem þau hafa varið miklum fjármunum í að þróa.

- Þú ert að tala um hið alræmda „skattalega hagræði“ í rekstri Apple?

Rétt er það. Stór bandarísk fyrirtæki forðast statt og stöðugt að mynda hagnað í Bandaríkjunum, til þess að komast undan háum skattgreiðslum.

- Hvað er þá til ráða?

William Lazonick, hagfræðingur við Massachusetts-háskóla í Lowell, hefur rannsakað viðskiptalíkan Apple. Hann telur að fyrirtæki á borð við Apple hafi tilhneigingu til þess að missa leiðandi stöðu þegar kemur að nýsköpun. Ástæðan er að stjórnendur einangra á endanum þá starfsmenn sem skipta sköpun fyrir nýsköpun og framþróun og leggja mesta áherslu á hagsmuni hluthafa. Að hans mati er þolinmótt langtímafjármagn lykillinn að vel heppnuðu nýsköpunarstarfi og gildir einu hvort það kemur úr einkageiranum, endurfjárfestingu fyrirtækis eða frá hinu opinbera.

- En hvað ef skortur er á þolinmóðu fjármagni frá einkageiranum?

Mazzucato og Lazonick myndu svara þessari spurningu á þann veg að þetta sé einmitt ástæðan fyrir því að við þurfum þolinmóða fjárfesta á borð við hið opinbera. Það getur komið inn og tekið upp slakann, sérstaklega með því að taka áhættu þegar aðrir eru ekki reiðubúnir til þess.