Fjölhæfur Hugleikur Dagsson er með nóg á sinni könnu og vinnur meðal annars að sjónvarpsþáttum og leikriti. Þar að auki kemur útgáfa hans af Snorra-Eddu út á næsta ári.
Fjölhæfur Hugleikur Dagsson er með nóg á sinni könnu og vinnur meðal annars að sjónvarpsþáttum og leikriti. Þar að auki kemur útgáfa hans af Snorra-Eddu út á næsta ári.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Davíð Már Stefánsson davidmar@mbl.is „Bækurnar eiga það sameiginlegt að þær eru á ensku. You Are Nothing er ensk þýðing á bröndurum úr Okkur- bókaflokknum sem birtist í heild sinni í safnbókinni 1001 Okkur .

Davíð Már Stefánsson

davidmar@mbl.is

„Bækurnar eiga það sameiginlegt að þær eru á ensku. You Are Nothing er ensk þýðing á bröndurum úr Okkur- bókaflokknum sem birtist í heild sinni í safnbókinni 1001 Okkur . Við ákváðum hjá Forlaginu, eftir að Finnar gáfu út afbrigði af þeirri bók sem var með 666 völdum bröndunum af þessum 1001, að velja þessa 666 brandara og prenta þá í þremur bindum fyrir útlendinga, þá helst túrista. Fyrsta bókin hét I Hate Dolphins, önnur hét My Pussy is Hungry og You Are Nothing er sem sagt sú þriðja. Hin bókin, Popular Hits III , kemur eingöngu út á ensku enda eru þar teknir fyrir enskir lagatitlar. Það er þriðja og síðasta bókin í þessum flokki. Þetta er í raun bara enska útgáfan af öðrum bókaflokki sem heitir Íslensk dægurlög . Ég held að ég segi skilið við þessa lagatitla eftir þessa bók, ég er búinn að klára hugmyndaflugið hvað þá varðar,“ segir Hugleikur Dagsson um tvær af sínum nýjustu bókum, You Are Nothing og Popular Hits III . Þess má geta að meðal lagatitla sem finna má í síðari bókinni eru t.d. „The Number of the Beast“, „Hit Me Baby One More Time“, „Killer Queen“ og „99 Problems“.

Vinsæll í Finnlandi

Hugleikur kveðst hafa orðið var við að fólk erlendis skilji þann svarta húmor sem hann vinnur svo listilega með, þá helst Finnar.

„Svo var verið að gefa mig út í Brasilíu nýlega. Ég vona að þeir taki jafn vel í þetta og Finnarnir, það væri fínt að fara í heimsókn til Brasilíu,“ segir hann. Nokkuð hefur borið á því að verk Hugleiks séu birt ótitluð í ýmsum kimum veraldarvefsins en hann kveðst ekki láta það trufla sig að miklu leyti.

„Mér þykir nú betra þegar nafnið mitt kemur einhvers staðar fram. Ég er búinn að venja mig á að hafa alltaf undirskrift með þegar ég set verkin á netið sjálfur. Ég reyni þó að láta þetta ekki bögga mig alltof mikið. Það er ekki hægt að gera rosalega mikið við þessu. Að standa í því að reyna að komast hjá þessu væri í raun bara full vinna. Ég hef hinsvegar gert það mikið af myndum að megnið af því sem er í bókunum er eitthvað sem lesendur hafa ekki séð á netinu áður,“ segir Hugleikur. Hann segir vinnuferlið ansi óreglulegt og oft sé hann á síðasta snúningi við að skila af sér efni.

„Ég skrifa undir samning hjá Forlaginu og þegar fer að líða að eindaga þá spýti ég í lófana og er yfirleitt að semja efnið síðustu dagana fyrir skil. Ég punkta þó iðulega niður einn og einn brandara hjá mér í skissubók sem ég geng með í vasanum. Ég hef komist að því að ég vinn betur á morgnana en á kvöldin, allavega þessa dagana. Ég reyni því að afgreiða eins mikið og ég get fyrir hádegi,“ segir hann.

Hvar er Guð?

„Þessi „sjokkfaktor“ er orðinn svo afstæður fyrir mér,“ segir Hugleikur spurður að því hvort hann haldi að fólk hleypi enn í brýrnar þegar það rýni í hans svarta húmor.

„Ég hef alltaf verið með þennan húmor og stundum finnst mér ég ekkert vera neitt sérstaklega sjokkerandi. Ég er þó á því að grínið hafi verið fréttnæmara þegar þessar bækur komu út fyrst. Nú fellur þetta svolítið í meginstrauminn,“ segir hann. Hugleikur segir það ekki ómögulegt að halda áfram að vinna með sama formið, hann sé þó ætíð í leit að nýjum grundvelli fyrir grínið sitt.

„Til að byrja með voru þetta bara venjulegir brandarar. Svo fórum við út í þetta með dægurlögin, reyna að finna eitthvað fyndið í textabrotum. Ég vann síðan ákveðið afbrigði af þeirri hugmynd í bók sem bar titilinn Bestsellers . Þar tók ég fyrir bókartitla og skrumskældi þá með einhverjum myndum. Nú er ég auk þess að vinna að svona Hvar er Valli -bók, opnur fullar af allskonar litlum körlum að gera einhvern óskunda. Ég var búinn að lofa þeirri bók í ár en það getur verið að ég þurfi að fresta henni um hálft ár, það hafa verið að detta inn önnur verkefni sem ég þarf að takast á við. Bókin sú mun engu að síður bera titilinn Hvar er Guð? en lesandinn á þar að reyna að finna Guð í mannhafinu,“ segir Hugleikur sposkur.

„Svo vinn ég í árlegu dagatali. Síðast var dagatal sem hét „Versus“. Í því lét ég tvö skrítin skrímsli berjast í hverjum mánuði. Kaktusakolkrabbi réðst þar til að mynda á kanínufólk, kúkaskrímsli slóst við sebrahesta og fleira í þeim dúr. Í næstu útgáfu mun ég einbeita mér að stjörnumerkjunum,“ bætir hann við.

Snorra-Edda í bígerð

Hugleikur er með nóg á sinni könnu en auk þess að vinna myndasögurnar semur hann sjónvarpsefni sem og leikverk.

„Það er stefnt að annarri þáttaröð af Hulla , það er búið að skrifa hana. Nú erum við í raun bara í biðleik, bíða eftir svari frá sjóðum,“ segir hann áður en hann sviptir hulunni af nýju verkefni sem lítur dagsins ljós að ári liðnu:

„Ég tilkynni það bara hér að á næsta ári kemur út mín útgáfa af Snorra-Eddu . Þar mun ég teikna helstu sögurnar úr ritverkinu í einföldum stíl, einskonar myndasöguútgáfu. Verkið mun koma út á sama tíma og leikritið Loki sem sýnt verður í Þjóðleikhúsinu næsta vor eftir því sem ég best veit. Um er að ræða leikrit með söngvum sem samdir eru af Sigurjóni Kjartanssyni. Selma Björnsdóttir sér síðan um leikstjórn,“ segir hann.

„Ásatrúin verður því svolítið tekin fyrir á næsta ári, jú og Guð,“ segir Hugleikur um hina heiðnu guði og hinn kristna Guð. Inntur eftir því hvort slíkt brjóti ekki fyrsta boðorðið í Biblíu kristinna manna svarar hann játandi.

„Ég hef reyndar aldrei áttað mig almennilega á þessu boðorði. Hann virðist vera svolítið afbrýðisamur þessi Guð. Hann vill ekki að maður sé að tala við aðra karlmenn,“ segir Hugleikur kíminn að lokum.