Mótmæli Rómafólk hefur víða mótmælt illum aðbúnaði og fordómum. Rómafólk í Ungverjalandi gekk fylktu liði í júní og óskaði eftir virðingu fyrir alla.
Mótmæli Rómafólk hefur víða mótmælt illum aðbúnaði og fordómum. Rómafólk í Ungverjalandi gekk fylktu liði í júní og óskaði eftir virðingu fyrir alla. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Anna Lilja Þórisdóttir annalilja@mbl.is Saga Rómafólks hefur að mestu verið utan opinberrar sögu þeirra landa þar sem það hefur verið búsett. Nú stendur til að skrá sögu þessa þjóðflokks og munu íslenskir fræðimenn vinna að verkefninu sem m.a.

Anna Lilja Þórisdóttir

annalilja@mbl.is

Saga Rómafólks hefur að mestu verið utan opinberrar sögu þeirra landa þar sem það hefur verið búsett. Nú stendur til að skrá sögu þessa þjóðflokks og munu íslenskir fræðimenn vinna að verkefninu sem m.a. felst í að taka 600 viðtöl.

„Eftir því sem ég best veit er þetta í fyrsta skiptið sem verkefni af þessu tagi er unnið. Við erum að draga fram þeirra eigin sögu eins og þau segja hana sjálf,“ segir Guðmundur Hálfdanarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, einn þeirra sem starfa að verkefninu.

Margvíslegur tilgangur

Um er að ræða samstarfsverkefni á milli rúmenskra og íslenskra vísindamanna við Háskóla Íslands og háskólann í Cluj Napoca í Transylvaníu í Rúmeníu. Að því koma um 15 manns og vinnan hefst fljótlega. Verkefnið er styrkt af rannsóknarsjóðum EFTA-landanna og ESB. Tekin verða um 600 viðtöl við fólk af ætt Rómafólks, í Rúmeníu og víðar um Evrópu.

Hvað hafa íslenskir fræðimenn fram að færa varðandi skráningu á sögu Rómafólks? „Þetta virðist kannski að sumu leyti langsótt. En ég hef áður átt samstarf við þennan háskóla og mín aðkoma snýst meira um fræðilegu hliðina, t.d. hvernig saga og sagnfræði er notuð við sjálfsmyndarsköpun; hvernig saga þjóðar er sögð, notuð og hugsuð.“

Guðmundur segir tilganginn með þessari rannsókn margvíslegan. „Allskonar neikvæðar skoðanir og staðalmyndir tengjast Rómafólki og okkar von er að með meiri þekkingu á sögu þessa fólks dragi úr slíkum hugmyndum.“