Hans Emil Atlason (t.h.) með meðstofnendum sínum Tómasi Máté (t.v.) og Guðmundi Gunnarssyni. Tæknin sem Levo er að vinna að gerir kleift að stjórna tölvum og tækjum nánast eins og í vísindaskáldsögu.
Hans Emil Atlason (t.h.) með meðstofnendum sínum Tómasi Máté (t.v.) og Guðmundi Gunnarssyni. Tæknin sem Levo er að vinna að gerir kleift að stjórna tölvum og tækjum nánast eins og í vísindaskáldsögu. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Sprotafyrirtækið Levo vinnur að þróun hugbúnaðar fyrir kanadískt tæki sem nemur vöðvahreyfingar í handleggnum. Markmiðið er að gera lausnir fyrir atvinnulífið sem munu gjörbreyta því hvernig fólk vinnur með tölvur og tæki.

Áttunda sinfónía Schuberts hljómar í bakgrunninum á meðan Tom Cruise sveiflar höndunum yfir risaskjá. Án þess að snerta skjáinn notar hann fingurna til að fletta í gegnum myndir af vettvangi glæps.

Þannig túlkaði leikstjórinn Steven Spielberg sína sýn á hvernig fólk mun í framtíðinni nota tölvur, í frægu atriði í kvikmyndinni Minority Report frá árinu 2002.

Nú er útlit fyrir að þessi vísindaskáldskapur sé að verða að veruleika, „nema hvað við áttuðum okkur á að það er ekki nógu hentugt að notast við hanska, eins og persóna Toms Cruise gerir. Að klæðast hönskum er truflandi og betra að nota vélbúnað sem nemur hreyfingar handleggs og vöðva í gegnum skynjara á framhandleggnum,“ segir Hans Emil Atlason.

Hverng hendurnar hreyfast

Hans er einn þriggja stofnenda sprotafyrirtækisins Levo (www.levo.is). Markmið Levo er að þróa hugbúnað fyrir tækið Myo sem kanadíska tæknifyrirtækið Thalmic Labs er að smíða. Myo er eins konar armband sem smeygt er upp á framhandlegginn og látið sitja rétt fyrir neðan olnboga. Þar nemur tækið hvort einstakir vöðvar í handleggnum eru krepptir eða slakir og um leið hvernig handleggnum er snúið, beint eða sveiflað. Þar sem hreyfingar fingranna stjórnast af vöðvum í framhandleggnum er með þessu hægt að nema handastöðu án þess að notandinn klæðist hönskum.

Auk Hans standa að fyrirtækinu þeir Tómas Páll Máté og Guðmundur Már Gunnarsson. Allir eru þeir menntaðir við Háskóla Íslands, Hans í rafmagns- og tölvuverkfræði en Tómas og Guðmundur í hugbúnaðarverkfræði.

Hans segir Thalmic Labs einblína á smíði Myo og sé undir öðrum komið að þróa hugbúnaðinn sem nýtir eiginleika þessarar nýju tækni. Margir hafi þegar komið auga á hvernig má t.d. nota Myo til að spila tölvuleiki en Levo vill skoða hvernig hreyfiskynjarinn getur nýst í atvinnulífinu.

Að sögn Hans hefur Myo burði til að frelsa fólk frá músum og lyklaborðum og starfsmaður getur gert margt í einu með tækinu en samt verið með báðar hendur frjálsar. Í stað stýripinna og fjarstýringa verður tölvubúnaður og vélbúnaður nánast eins og framlenging af starfsmanninum með armbandið á handleggnum.

Ímyndar Hans sér að bæði verði með þessu hægt að auka afköst, en einnig draga úr óhollri kyrrsetu og einhæfum hreyfingum. „Í mörgum greinum þar sem fjallað hefur verið um Myo hefur þessu verið líkt við að breyta fólki í hálfgerða Jedi-riddara því það er nánast eins og þeir geti hreyft hluti með huganum.“

Ef lesendur eiga erfitt með að gera sér í hugarlund hvernig tækið gæti virkað á vinnustaðnum má t.d. reyna að ímynda sér kranamann sem stýrir hreyfingum kranans ekki með því að ýta á takka inni í stjórnklefa, heldur með því að mynda krumlu með handleggnum. Hann grípur út í loftið og kraninn hreyfist á sama hátt til að lyfta upp gámi eða vörubretti.

Vélritað á ímyndað lyklaborð

„Því er spáð að innan fimm ára verði mögulegt með Myo að nema með nægilegri nákvæmni fingrahreyfingar til að úr verði nýtt afbrigði af lyklaborði. Gæti fólk þá vélritað út í loftið, t.d. til að skrifa inn texta á góðum hraða inn í lyklaborðslaus snjalltæki,“ útskýrir Hans.

Vill hann ekki gefa of mikið upp um hvað fyrsta útgáfa af hugbúnaði Levo mun gera, en ljóst er að um verður að ræða n.k. smáforrit, eða app, sem tengt getur saman eiginleika Myo og önnur forrit og vélbúnað. Hans segist sérstaklega spenntur fyrir lækningageiranum. „Skurðlæknir gæti t.d. í miðri aðgerð þurft að stýra tæki og skoða upplýsingar um sjúklinginn, en má samt ekkert snerta með höndunum. Gegnum Myo getur hann gefið þær skipanir sem þarf án þess að sótthreinsa hendur sínar upp á nýtt eða þurfa á aðstoð annars læknis eða hjúkrunarfræðings að halda.“