Leifur Þorsteinsson
Leifur Þorsteinsson
Eftir Leif Þorsteinsson: "Það er sem sé deginum ljósara að við verðum að taka til hendinni til að geta tekið á móti öllu þessu fólki, annars fer illa fyrir okkur."

Nú um stundir hefur mikið verið rætt og ritað um hvert skuli stefnt í þróun ferðamála á Íslandi. Ekki ríkir eining um það frekar en annað í íslensku samfélagi. Mikið snýst það um krónur og aura. Margir telja að hér ríki hálfgert gullgrafaraæði í þessum málum. Því miður held ég að nokkuð sé til í því. Margir vilja næla sér í sinn hluta af kökunni. Ef fram heldur sem horfir er ýmislegt sem bendir til að fjöldi erlendra ferðamann muni ná upp í eina milljón, kannski þegar á næsta ári. Þá velta menn því fyrir sér hvort við höfum gert heimavinnuna okkar þannig að hægt sé að taka á móti öllu þessu fólki svo sómi sé að. Þarna vantar því miður ýmislegt upp á til að sú sé raunin. En hvar kreppir skórinn. Ég hef áður tjáð mig um þessi mál á síðum Morgunblaðsins. Mér finnst stundum eins og ég sé að verða eins og gömul grammófónsplata og ég efast ekki um að þeir sem best þekkja eru sennilega orðnir langþreyttir á rausinu í mér en ég segi stundum að maður þurfi að skjóta yfir markið til að ná eyrum fólks. Það er sem sé deginum ljósara að við verðum að taka til hendinni til að geta tekið á móti öllu þessu fólki, annars fer illa fyrir okkur, náttúran mun bera skaða af, svo ekki verður aftur snúið. En hvað er það þá sem þarf að koma til. Því miður er þar af nógu að taka. Ég hef fram undir þetta reynt að sannfæra mig um að þessi mál séu í nokkuð góðu horfi á láglendi landsins en því miður get ég nefnt mörg dæmi sem sýna að svo er því miður ekki.

Á undanförnum árum hef ég gengið með hópa á vegum Ferðafélags Íslands leiðina á milli Þingvalla og Stóra-Botns í Hvalfirði, leið sem manna á meðal kallast Leggjarbrjótur þó svo það sé aðeins brot af leiðinni. Þetta hefur öll árin verið á þjóðhátíðardaginn. Fyrstu árin sat ég næstum einn að þessu, sá varla nokkurn mann þegar ég kom með minn hóp niður að Stóra-Botni. En á þessu hefur heldur betur orðið breyting. Þarna er næstum undantekningarlaust fjöldinn allur af bílum þar sem um er ræða fólk sem sennilega er að koma þarna til að skoða fossinn Glym, eina stærstu perluna í íslenskri náttúru. Þarna er engin hreinlætisaðstaða og hvernig skyldi svo svæðið í kring líta út? Ekki hef ég kannað það en held að það sé nokkuð ljóst. Í ár rigndi talsvert 17. júní. Af þeim sökum var svæðið sem bílarnir athafna sig á eitt drullusvað. Annað dæmi svipaðs eðlis er að fyrir nokkrum árum var ég með tvær danskar konur á ferðalagi. Við komum m.a. að Stöng í Þjórsárdal þar sem byggt hefur verið yfir rústir af gömlum sögualdarbæ. Að því kom að blessaðar konurnar spurðu hvar hreinlætisaðstaðan væri. Ég leit í kringum mig og sagði svo: Það er bak við runnann þarna. Ég gæti nefnt fleiri staði en læt þetta nægja í bili. Þú sem kannt að lesa þessar línur mínar ert vonandi sammála mér um að þetta gengur ekki. En förum nú til fjalla. Við skulum byrja á Torfajökulssvæðinu. Þar eru Landmannalaugar efstar á blaði. Þangað koma þúsundir manna á hverju ári, bæði vetur og sumar. Eitt af því sem þar dregur fólk að er heitur pollur sem fólk sækist eftir að baða sig í sem er hið besta mál. En hver skyldi búningsaðstaðan vera? Það er pallur með einum staur í miðjunni. Mér finnst eins og ég muni að þetta sé óbreytt frá því ég kom þarna fyrst fyrir 1970. Það sem ég legg til að þarna verði gert er að búningsaðstöðunni verði komið í skikkanlegt horf og að umhverfi laugarinnar verði breytt eins og gert hefur verið við Laugafell á Sprengisandi og við Grettislaug á Reykjaströnd í Skagafirði. Þar hefur verið hlaðið steinum bæði í veggi og í botn sem gerir allt miklu hreinlegra og aðgengilegra. Annar pollur er Strútslaug austast á Torfajökulssvæðinu. Að henni kemur maður fyrst þegar komið er niður af Torfajökli. Rétt ofan við pollinn er einn lítill grænn blettur sem fólk tjaldar á. Í því sambandi langar mig að benda á fyrirtæki sem heitir Hálendisferðir. Meðal ferða sem það auglýsir eru ferðir þar sem viðkoma er höfð í Strútslaug. Fyrir nokkru var viðtal við einn af fararstjórum fyrirtækisins. Með greininni sem birtist í Morgunblaðinu var mynd sem sýndi fólk vera að baða sig í áðurnefndum polli. Þó svo að ég geti ekki greint nein tjöld á myndinni geri ég ráð fyrir að þarna sé gert ráð fyrir náttstað. Ekki veit ég til að þarna sé aðstaða til eins eða neins. Væntanlega eru þetta ekki einu hóparnir sem þarna koma. Hvernig halda menn svo að staðurinn líti út í lok sumars? Í þessu sambandi langar mig að leggja til við þig, sem kannt að lesa þessar línur mínar að skoða Stikluþátt Ómars Ragnarssonar um þetta svæði. Eftir að ég horfði á hann langar mig ekki til að baða mig á þessum slóðum. Ég gæti talið upp mörg sambærileg dæmi en plássið í blaðinu leyfir það ekki. Margir minnast á það við mig þegar þetta ber á góma. Hver á að borga? Þá er því að svara að þetta á að greiða úr okkar sameiginlega sjóði. Tekjur þjóðarbúsins af þessu eru það miklar að við verðum að greiða fyrir uppbygginguna í byrjun, þá fyrst er hægt að ræða um gjaldtöku. Hér verðum við að taka til hendinni og það strax ef ekki á illa að fara. Betur má ef duga skal.

Höfundur er náttúrufræðingur og hefur verið fararstjóri í ferðum Ferðafélags Íslands um árbil bæði í byggð og óbyggð.