Tónlist Arnbjörg notar gjarnan hljóðfæri við andlega iðkun. Ýmis hljóð, eins og í gonginu, geta hjálpað til við slökun og komið ró á hugsanir.
Tónlist Arnbjörg notar gjarnan hljóðfæri við andlega iðkun. Ýmis hljóð, eins og í gonginu, geta hjálpað til við slökun og komið ró á hugsanir. — Ljósmynd/Margrét Rósa Jochumsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jógakennarinn Arnbjörg Kristín Konráðsdóttir nýtur þess að stunda hugleiðslu og jóga úti í náttúrunni. Þar finnur hún samhljóminn, kyrrðina og jarðtengingu.

Jógakennarinn Arnbjörg Kristín Konráðsdóttir nýtur þess að stunda hugleiðslu og jóga úti í náttúrunni. Þar finnur hún samhljóminn, kyrrðina og jarðtengingu. Hún byrjaði að hugleiða í Kjarnaskógi á Akureyri fyrir nokkrum árum og hefur nú bætt ýmsum stöðum við, þar á meðal Viðey og Ásbyrgi. Arnbjörg spilar gjarnan á hljóðfærið gong, bæði fyrir fólk og hvali sem kunna vel að meta óminn.

Malín Brand

malin@mbl.is

Arnbjörg hefur allt frá barnsaldri haft sterka tengingu við náttúruna og tengingin minnkaði ekki þegar hún byrjaði að stunda jóga heldur var það þvert á móti. „Ég fann dýpri einingartilfinningu með öllu lífríkinu í kringum mig,“ segir hún, bæði sé það gróðurinn, ferskt loftið og öll náttúran sem geri það að verkum að svo gott og heilnæmt sé að stunda jóga og hugleiðslu utandyra.

Staðirnir til andlegrar iðkunar í íslenskri náttúru eru ótalmargir. Eftir að hafa leitað uppi ákjósanlega staði víðsvegar um landið ákvað Arnbjörg að gefa út bók sem heitir Hin sanna náttúra og kom hún út hjá Sölku á síðasta ári. Bókin er eins konar leiðarvísir fyrir þá sem vilja stunda hugleiðslu á fallegum stöðum í náttúrunni. Arnbjörg vinnur nú að því að gefa bókina út á rafbókarformi og til þess að það takist þarf ákveðinn fjöldi áhugasamra að leggja útgáfunni lið í gegnum Karolinafund. Þess má geta að þeir sem styrkja útgáfuna fá ýmiss konar glaðning fyrir stuðninginn. Hægt er að lesa meira um það á vefnum www.karolinafund.com/project/view/446.

Gong og ómur náttúrunnar

Arnbjörg notar gjarnan hljóðfæri við andlega iðkun. Þar á meðal eru gítar og gong. Gítarinn þekkja flestir en gong er töluvert sjaldgæfara hljóðfæri, í það minnsta hér á Vesturlöndum. Gong er gert úr málmi og þegar slegið er í það ómar sérstakur tónn. Ómurinn berst um langar leiðir og segir sagan að fyrr á öldum í Kína hafi gong verið slegið til að kalla vinnumenn heim af ökrunum allt að fimmtíu mílur í burtu. Gongið sem Arnbjörg notar er þó ekki það stórt að hægt sé að senda með því boð landshluta á milli heldur er það mátulegt fyrir andlega iðkun. Þegar Arnbjörg hefur verið með hópa utandyra í jóga, eins og til dæmis í Viðey í fyrrakvöld, tekur hún hljóðfærið með og hjálpar það þátttakendum að koma ró á hugsanir sínar.

„Ég spila á það á heilandi hátt,“ segir Arnbjörg sem hefur lært að spila á gong bæði hér á landi og í Bandaríkjunum. Það eru heilmikil fræði á bak við það hvernig nota má hin ýmsu hljóð til að hjálpa fólki að slaka á og er gong á meðal þeirra hljóðfæra sem gagnast þar. „Maður getur notað hljóð bæði til að slaka á, losa um streitu og losa okkur við aukahugsanir sem trufla. Þetta hjálpar til við að finna innri kyrrð,“ segir hún. „Þetta getur líka hjálpað okkur ef við erum föst í einhverju myrkri sem er ekki gott fyrir okkur, eins og einhver ávani, ótti eða einhver tilfinning. Þetta hjálpar okkur að vinna með það og í gegnum það,“ segir Arnbjörg.

„Þetta er í rauninni frumhljóð og það heyrast svipuð hljóð úti í geimnum. Þetta frumhljóð hjálpar til við að hreinsa hugann og það er sagt í jógískum fræðum að allt sé skapað úr hljóði. Sjálfri finnst mér gongið tengja mig við dýpri stað í mér og ég heyri betur það sem mitt hjarta er að segja og þetta er hreinsandi. Ég held að við þurfum svolítið á því að halda í dag,“ segir jógakennarinn Arnbjörg Kristín Konráðsdóttir sem er um þessar mundir að vinna tónlist þar sem gongið fær að óma í íslenskri náttúru. Gongið á sannarlega eftir að koma meira við sögu í sumar, til dæmis úti á sjó, því farið verður í sérstaka hvalaskoðunarferð í ágústmánuði frá Reykjavíkurhöfn þar sem Arnbjörg mun leika á gong fyrir hvali sem láta sér vel líka við þetta frumhljóð.

Þeir sem vilja fylgjast með þeim fjölmörgu verkefnum sem eru á dagskrá Arnbjargar geta skoðað vefsíðuna hennar, www.graenilotusinn.is, og skráð sig þar á póstlista.

Geimurinn og hvalahljóð

Arnbjörg varð fyrir merkilegri upplifun þegar hún fór með hvalaskoðunarfyrirtæki í ferð á Húsavík í sumar. Hún tók gong-ið með og spilaði á það fyrir viðstadda og að sjálfsögðu fyrir hvalina líka. Viðbrögðin létu ekki á sér standa og hnúfubakur kom mjög nálægt skipinu og hélt sig þeim megin sem Arnbjörg var með gong-ið. Arnbjörg útskýrir að í óravíddum himingeimsins heyrist hljóð sem vísindamönnum hjá NASA hefur tekist að hljóðrita. Þeim svipar mjög til hvalahljóða og ómurinn í gong-inu er ekki svo ólíkur þessu þegar allt kemur til alls.