[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Fjárfestar hyggja á mikla uppbyggingu íbúða og atvinnuhúsnæðis í miðborg Reykjavíkur næstu misseri. Lausleg samantekt á áformaðri uppbyggingu íbúða er sýnd hér til hliðar. Miðað við að söluverð íbúðanna 1.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Fjárfestar hyggja á mikla uppbyggingu íbúða og atvinnuhúsnæðis í miðborg Reykjavíkur næstu misseri.

Lausleg samantekt á áformaðri uppbyggingu íbúða er sýnd hér til hliðar. Miðað við að söluverð íbúðanna 1.253 sé 30 milljónir er söluverðið alls 37,6 milljarðar. Hér er ekki gert ráð fyrir 195-206 íbúðum á fjórum reitum við Laugaveginn. Með þeim hækkar talan í minnst 43,4 ma.

Félagið Þingvangur hyggur á mikla uppbyggingu á þremur byggingarreitum í miðborg Reykjavíkur á næsta ári. Skipulag reitanna er nú langt komið og styttist í að framkvæmdir hefjist á tveimur þeirra. 120 til 130 íbúðir verða á reitunum þremur, auk þess sem nýtt húsnæði verður byggt undir hótel, skrifstofur og verslanir. Kostnaður við uppbyggingu á reitunum þremur er áætlaður 7-8 milljarðar króna.

Um er að ræða svonefnda Brynju-, Hljómalindar- og Vatnsstígsreiti. Félagið Festir keypti upp fasteignir á þessum reitum fyrir efnahagshrunið og var efnt til samkeppni um skipulag á þeim. Gerði vinningstillagan m.a. ráð fyrir stórri verslunarmiðstöð. Eftir hrunið runnu eignirnar inn í Hömlur, dótturfélag Landsbankans, og fór Reginn með söluna fyrir hönd bankans. Þingvangur keypti eignirnar.

Samtals 10-12 milljarðar

Framkvæmdir á reitunum þremur koma til viðbótar við fyrirhugaða uppbyggingu á Frakkastígsreitnum, sem Morgunblaðið sagði frá í gær.

Kostnaður við þá framkvæmd er áætlaður 3-4 milljarðar króna og alls við reitina fjóra 10-12 milljarðar.

Pálmar Harðarson, fjárfestir hjá Þingvangi, stendur fyrir uppbyggingunni á reitunum þremur. Hann segir Vatnsstígs- og Frakkastígsreit tengjast en að milli fyrirhugaðra nýbygginga séu hús sem séu ótengd verkefnunum.

Framkvæmdir á Hljómalindarreitnum hófust sl. vor og er ein byggingin sem mun tilheyra Hótel Kultura þegar risin. Hótelið verður með 144 herbergjum í húsum sem snúa bæði að Hverfisgötu og Smiðjustíg. Á miðjum reitnum verður opið rými og veitingarekstur. Stefnt er að því að afhenda hótelið um áramótin 2015/2016. Hefur opnun þess því frestast um hálft ár og segir Pálmar skipulagsmál ástæðu tafarinnar. Hinir reitirnir tveir, Brynju- og Vatnsstígsreitur, verða tilbúnir um mitt ár 2016.

„Á Hljómalindarreitnum verða 15-25 íbúðir. Við erum að breyta skipulaginu á Brynjureitnum og ætlum að byggja þar 80 smáíbúðir. Á Vatnsstígsreitnum verða um 35 íbúðir og verslun og þjónusta á Laugaveginum,“ segir Pálmar en 130-140 íbúðir verða á reitunum þremur. Alls 65-66 íbúðir verða á Frakkastígsreitnum og verða því alls 195-206 íbúðir á reitunum fjórum.

Hulunni svipt af nýju horni Hverfisgötu og Frakkastígs

Miklar framkvæmdir standa nú yfir á horni Frakkastígs og Hverfisgötu en félagið Hverfill ehf. hyggst byggja þar 22 íbúðir. Hefur félagið þegar endurbyggt Hverfisgötu 59 með 9 íbúðum.

Mikil eftirspurn er eftir nýjum íbúðum á svæðinu og þá sérstaklega í þessum stærðarflokki

Félagið Hverfill ehf. stendur fyrir framkvæmdunum en það hefur nú hafið lokafrágang við Hverfisgötu 57, eftir hlé í sumar. Húsið er fjórar hæðir að meðtöldu risi og eru þrjár efstu hæðirnar byggðar ofan á jarðhæð húss sem þar stóð fyrir. Það hús var teiknað 1928 og verður endurbyggt með útlit sem upprunalega var teiknað, en kreppan mikla, 1929, kann að hafa valdið því að aðeins var byggð ein hæð og ris.

Hafa beðið eftir leyfi í 2 ár

Jón Ómar Finnsson, verktaki og einn eigenda Hverfils ehf., segir sjö íbúðir verða í húsinu. Þær verða 62 og 74 fermetrar og er stefnt að því að þær fari í sölu á næstu mánuðum. Bílastæði fylgja ekki með íbúðunum.

Hverfisgata 59 var nýlega tekin í gegn og var endurbyggð. Við hliðina, á horni Hverfisgötu og Frakkastígs, standa auð hús sem verða rifin. Að sögn Jóns Ómars hyggst félagið Hverfill byggja þar 15 íbúðir með bílakjallara. Óvíst er hvenær framkvæmdir hefjast enda liggur ekki fyrir hvenær leyfi til niðurrifs verður veitt. Hafa verktakarnir beðið eftir slíku leyfi í rúm tvö ár.

Húsið sem reist verður á horninu verður merkt Hverfisgötu 61. Það verður lægra en Hverfisgata 59 og stallast svo niður Frakkastíg. Þegar byggingu hússins lýkur verða ekki frekari framkvæmdir á þessu horni. Fyrir hrun stóð til að reisa stórt glerhýsi á þessu horni. Núverandi verktakar létu arkitekt gera nýjar teikningar að byggingu í stíl við umhverfið. Jón Ómar segir nágranna ánægða með þær breytingar. Hann segir félagið ekki útiloka að breyta fleiri húsum eða byggja ný í miðborginni.