Hörður Jónsson fæddist 24. mars 1934. Hann lést 2. júlí 2014. Útför Harðar fór fram 16. júlí 2014.

Ástkær tengdafaðir minn, Hörður Jónsson, er látinn. Mig langar að minnast hans í fáum orðum. Það var fyrir 37 árum sem tengdafaðir minn kom inn í líf mitt þegar ég kynntist Hrönn, dóttur hans.

Þegar ég hugsa til Harðar kemur upp í hugann hvað hann var ljúfur maður, barngóður og mjög umhugað um fjölskyldur barna sinna og fylgdist ávallt vel með barnabörnum sínum og langafabörnum. Hann var fyndinn, orðheppinn og gaman var að hlusta á hann segja frá. Hann var hjálpsamur og ávallt tilbúinn að rétta hjálparhönd ef á þurfti að halda og heilsan leyfði.

Hörður var áhugasamur um skógrækt og átti Sléttuhlíðin hug hans allan en þar hafði hann ásamt tengdamóður minni ræktað upp fallegan gróðurreit í kringum sumarbústað þeirra.

Hörður, þú varst mér ekki bara tengdafaðir heldur einnig góður vinur.

Ég er þakklátur fyrir og geymi hjá mér minninguna um ljúfan mann og kveð þig, elsku Hörður, með söknuði og virðingu. Blessuð sé minning þín.

Þinn tengdasonur,

Sigurður Oddsson.