Gilda önnur lögmál um almenna launþega en stjórnendur?

Í kjarasamningum undanfarna mánuði hefur verið hamrað á því að fara þurfi með gát vegna þess að miklar launahækkanir muni kynda undir verðbólgu og á endanum leiða til minni kaupmáttar og skertra kjara. Samtök atvinnulífsins hafa ítrekað þessi viðhorf um að ella væri stöðugleiki í húfi og efnahagsglundroði blasti við og Alþýðusamband Íslands tók undir þau.

Í þessu ljósi er vandræðalegt að sjá hvernig stjórnendur hafa á undanförnum árum hækkað meira í launum en almennir launþegar. Reynt hefur verið að verja þetta með því að laun stjórnenda hefðu lækkað mun meira en almenn laun 2009 og því væri nær að líta á hækkun stjórnenda nú sem leiðréttingu.

Í úttekt Þorsteins Ásgrímssonar blaðamanns á mbl.is í gær kemur fram að frá 1998 hafa laun stjórnenda hækkað meira en laun á almennum vinnumarkaði. Samkvæmt gögnum Hagstofunnar, sem byrjað var að taka saman 1998, hækkuðu laun stjórnenda um 229% á tímabilinu en almenn laun um 190%. Í sjálfu sér er ekki hægt að amast við launum stjórnenda, en munurinn ýtir ekki undir samstöðu á vinnumarkaði og það verður heldur ótrúverðugt þegar atvinnurekendur segja að önnur lögmál eigi að gilda á plani en á kontórnum.