Breytingar Glæpasagnahöfundurinn Fritz Már Jörgensson vildi þjóna í kirkjunni og lauk nýverið guðfræðinni.
Breytingar Glæpasagnahöfundurinn Fritz Már Jörgensson vildi þjóna í kirkjunni og lauk nýverið guðfræðinni. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Glæpasagnahöfundurinn og guðfræðingurinn Fritz Már Jörgensson er einn þriggja sem gefa kost á sér í stöðu prests í Seljakirkju í Breiðholti en íbúar munu kjósa um hver fær stöðuna.

Glæpasagnahöfundurinn og guðfræðingurinn Fritz Már Jörgensson er einn þriggja sem gefa kost á sér í stöðu prests í Seljakirkju í Breiðholti en íbúar munu kjósa um hver fær stöðuna. Fritz ákvað fyrir nokkrum árum að venda kvæði sínu í kross og snúa sér að guðfræðinni því hann fann hjá sér einlæga löngun og þörf til að vita meira um andleg mál og sinna þjónustu í kristinni kirkju.

Malín Brand

malin@mbl.is

Á fimmtugsaldri ákvað Fritz Már Jörgensson að fylgja hjarta sínu og hóf nám í guðfræði við Háskóla Íslands. Áður hafði hann verið í rekstri samhliða ritstörfum en glæpasögur hans hafa komið út hjá bókaútgáfunni Sögur og hjá Skjaldborg og notið nokkurra vinsælda. Þegar auglýst var eftir presti í Seljakirkju sá Fritz að þetta væri starf sem hann langaði af öllu hjarta að sinna og sótti um. Það þýðir þó ekki að hann sé hættur að skrifa glæpasögur. „Ef Guð lofar þá verð ég prestur sem skrifar glæpasögur í hjáverkum,“ segir Fritz. Sjálfur hefur hann taugar til Seljahverfisins þar sem sóknarprestskosningarnar fara fram í næsta mánuði en foreldrar hans búa þar og er hann sjálfur vel kunnugur hverfinu. Hann er sannfærður um að kirkjan eigi erindi við fólk í nútímasamfélagi og segir að hlutverk hennar í samfélaginu sé margþætt og ekki síður mikilvægt en annarra stofnana.

Kirkjan öllum opin

Fritz segist vera nokkuð frjálslyndur guðfræðingur og telur brýnt að opna dyr kirkjunnar upp á gátt, ekki bara fyrir útvalinn hóp fólks heldur alla. „Stærð, tegund eða gerð á ekki að skipta nokkru máli því við erum öll sköpuð í Guðs mynd, hver sem við erum og hvaðan sem við komum. Það er mín sýn og ég er sannfærður um að í kirkjunni eiga ekki að vera neinir minnihlutahópar og þar eiga allir að fá sitt pláss,“ segir Fritz. Það má velta því fyrir sér hvort trú á Guð sé grundvallarforsenda þess að taka þátt í starfi kirkjunnar. Fritz telur svo ekki vera en telur góðar líkur á því að hinir trúlausu geti öðlast trú innan umhverfis kirkjunnar. „Flestir Íslendingar líta á sig sem kristna. Menningin okkar er kristin og ég held að trúin sé í grunninn svo sterk í okkur og samofin menningunni. Allt okkar þjóðfélag byggir á kristnum gildum: Öll lagasetning, skólakerfið og spítalarnir,“ segir hann.

Ráðsmenn jarðarinnar

Fritz er umhugað um vistarverur okkar mannfólksins, jörðina. Ýmsar kirkjudeildir víðsvegar um heiminn hafa gert áætlanir í tengslum við umhverfismál og fundið leiðir til að stuðla að uppbyggingu umhverfisins. „Ég held að kristin trú sé mjög umhverfisvæn, þannig að hún eigi að geta verið hvetjandi í þá átt að fólk hugsi vel um umhverfi sitt og aðstæður. Mennirnir hafa oft látið eins og þeir hafi umráðarétt yfir jörðinni og fara með allt eins og þeir vilja en í raun og veru þá gegna mennirnir ráðsmennskuhlutverki,“ segir Fritz og að Guð hafi falið mönnunum það hlutverk að hugsa vel um það sem þeir voru settir ráðsmenn yfir.

„Maður þarf að passa vel upp á það sem manni er falið til umsjónar og sjá til þess að maður skili því ekki af sér í verra ástandi en þegar tekið var við því og helst betra,“ segir hann.

„Ég held að það sé mjög sterkur flötur og ég held að trúin almennt sé mjög sterkur flötur til að koma boðskap á framfæri, til dæmis friðarboðskap,“ segir Fritz sem myndi gjarnan vilja heyra rödd kirkjunnar betur í tengslum við fjölmörg málefni líðandi stundar. „Kirkjan á að hafa þessa spámannlegu rödd. Kirkjan á að benda á og leiðrétta. Hún á að benda á ef við erum á rangri leið og hafa meiri afskipti af málefnum líðandi stundar,“ segir hann.

Popp, djass og rokk

Á meðal þess sem Fritz sér fyrir sér í kirkjustarfi framtíðarinnar er fjölbreytt dagskrá sem höfðar til breiðs hóps fólks. Samkomur ættu að vera mun oftar en á sunnudögum, að hans mati. Auk þess mættu þær vera með fjölbreyttu móti eins og algengara er orðið. „Popp-, rokk- og djassmessur mættu alveg vera oftar. Ég held að starfið í kirkjunni þurfi að vera þannig að það höfði meira til unga fólksins. Gaman væri að sjá kirkju sem einbeitti sér sérstaklega að því að hafa aðsetur og samkomur fyrir ungt fólk auk þess sem bæta mætti aðgengi fyrir fatlaða. Kirkjan gæti verið með ýmis námskeið, tómstundastarf og í raun hvers konar félagsstarf þannig að það sé verið að nýta þessi flottu hús til fulls,“ segir Fritz sem sér fyrir sér að hlutverk kirkjunnar í samfélaginu verði víðara þegar fram líða stundir.

Það er ljóst að starf prestsins er margþætt. Auk fræðsluhlutverksins gegna prestar stóru hlutverki þegar erfiðleikar hrjá sóknarbörnin. Þá er það meðal annars hlutverk prestsins að vera þeim innan handar og ráðleggja fólki. „Það er ótrúlegt hversu margir leita prívat og persónulega til kirkjunnar og fá þar lausn og leiðbeiningar um það hvert þeir geta leitað þegar eitthvað bjátar á. Kirkjan hefur ákveðin úrræði og prestar fá þjálfun í því að vísa fólki á önnur úrræði þegar það á við. Það er því meðal annars þjónusta prestsins að ráðleggja um allt mögulegt. Ég er fullur af eldmóði og hlakka mikið til að hefjast handa,“ segir guðfræðingurinn og glæpasagnahöfundurinn Fritz Már Jörgensson.