Hilmar Gunnarsson fæddist 16. september 1955. Hann lést 11. júlí 2014. Útför Hilmars fór fram 21. júlí 2014.

Mig langar að kveðja góðan vin og nágranna með fáeinum orðum.

Það fyrsta sem kemur uppí huga mér þegar ég hugsa um þennan eðaldreng er hversu glaðvær og hlýr persónuleiki hann var. Einnig höfðum við Inga oft á orði hversu mikill mannvinur Hilli var, þar sem maður heyrði hann aldrei halla orði til nokkurs manns og hvernig hann hlúði að þeim sem minna máttu sín.

Við Hilli kynntumst fyrst þegar ég fór að æfa fótbolta sumarið 1980 með Víkingum Ólafsvík, þar fór Hilli fremstur í flokki sem miðvörður í vörninni. Á æfingum fannst mér alltaf betra að vera með Hilla í liði, því hann hafði einstakt lag á að lesa út hvað andstæðingarnir ætluðu að aðhafast þegar þeir voru komnir inná hans varnarsvæði. Nákvæmin og fagmennskan voru honum í blóð borin í öllu sem hann tók sér fyrir hendur, enda bera verk hans þess merki hversu mikill völundur hann var.

Þær frábæru samverustundir sem við vinirnir áttum úti í hrauni þegar við byggðum parhúsið okkar saman eru og verða mér ómetanlegar í minningunni um þennan góða dreng.

Alltaf kom hann með nýja skemmtisögu á hverjum degi til að fá mann til að hlæja með sér og þegar vel tókst til og ég rak upp hlátursroku öðru hverju, þá var honum skemmt. Við Hilli vorum yfirleitt mjög samstilltir þar sem við erum báðir fæddir í meyjarmerkinu. Þegar við þurftum að taka málsetningu, þá var fyrst slegið á og svo aftur, þá kom smá bið og við horfðumst í augu, sögðum ekki neitt og tókum þriðju mælinguna til að vera alveg vissir enda bera húsin þess merki.

Það var mikil harmafrétt sem barst þegar ljóst var að Hilli minn myndi ekki hafa þetta af, en ég hugga mig við að hafa átt hann að sem góðan vin þann tíma sem við þekktumst og mun ég ætíð bera minninguna um þennan góða dreng innra með mér.

Við fjölskyldan í Dalprýði 8 vottum fjölskyldu Hilla okkar dýpstu samúð.

Ykkar vinir,

Hrafn og Inga.