[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Anna Lilja Þórisdóttir annalilja@mbl.is Árangur andavarps við Tjörnina í Reykjavík og í Vatnsmýrinni er betri en í fyrra.

Sviðsljós

Anna Lilja Þórisdóttir

annalilja@mbl.is

Árangur andavarps við Tjörnina í Reykjavík og í Vatnsmýrinni er betri en í fyrra. Ný tegund hefur bæst í hóp þeirra anda sem þar verpa og fuglar voru ræktaðir þar í sumar í fyrsta skiptið í áratugi með góðum árangri.

Andarungar hafa verið taldir á þessum slóðum frá árinu 1974. Ólafur Karl Nielsen, fuglafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, segir niðurstöður nýjustu talninga frá því í síðustu viku enn ekki hafa verið teknar saman, en þó sé ljóst að ástandið sé talsvert betra en síðustu ár. „Allar þær tegundir, sem verpa þarna að jafnaði, voru með unga; duggönd, skúfönd, æðarfugl, gargönd og stokkönd. Reyndar er þetta mismikið eftir fuglategundum, en ég get fullyrt að varpið er heldur betra en síðustu ár,“ segir Ólafur. Þá bættist ein tegund í hóp varpfugla við Tjörnina sem er urtönd og segir Ólafur urtandarkollu hafa komið upp fimm ungum. Hann nefnir einkum tvær ástæður fyrir þessum bætta árangri í varpi. „Það gæti hafa dregið úr ungadrápi mávanna og hins vegar gæti verið meira æti fyrir endurnar.“

Fuglaræktun hafin á ný

Þótt andavarp á áðurnefndum slóðum sé meira nú en í fyrra er það vart nema svipur hjá sjón borið saman við það sem var á árum áður. Æti fyrir endur er nú talsvert minna en það var fyrir áratugum að sögn Ólafs og sum fæða sem nýtist andarungunum vel ýmist horfin eða fáséð.

Þær endur sem nú eiga búsetu á Tjörninni, aðrar en stokkönd og urtönd, eru afkomendur fugla sem voru settir þar um miðja síðustu öld. Þá var nokkuð um fuglaræktun á vegum borgarinnar sem lagðist síðan af. Gerðar voru tilraunir með nokkrar tegundir anda og einnig með álftir, grágæsir og æðarfugl. Í ár var hafist handa að nýju við fuglaræktun og 36 æðarungum komið fyrir í Vatnsmýrinni snemma í júlí. Ungarnir komu af Álftanesi og Hvallátrum við Breiðafjörð og voru aldir upp í Húsdýragarðinum uns komið var að sleppistærð. Sex ungar eru horfnir og ekki er vitað um afdrif þeirra, að sögn Snorra Sigurðssonar, líffræðings á Umhverfissviði Reykjavíkurborgar. „Þeir eru ófleygir og gætu ekki hafa farið mjög langt. Vissulega gætu þeir hafa orðið fyrir afráni, það er alltaf einhver hætta á því. Þeir ættu reyndar að vera orðnir of stórir til að mávar eða hrafnar gætu ráðið við þá en stór og stæðilegur köttur gæti mögulega tekið svona unga,“ segir Snorri.

Minna af mávi

Reykjavíkurborg hefur beint þeim tilmælum til almennings að gefa fuglum við Tjörnina ekki brauð frá 15. maí til 15. ágúst því sílamávar sækja mikið í það og þar með aukast líkurnar á því að nýklaktir andarungar verði þeim að bráð. Sett voru upp skilti við Tjörnina og Snorri telur að það hafi borið tilætlaðan árangur, minna sé af mávi í kringum Tjörnina nú en áður, en ekki hafi verið farið út í sérstakar aðgerðir til að stugga þeim í burtu. „Það sést minna af mávi en það gæti þó líka verið vegna þess að meira æti er úti á sjó nú í sumar en undanfarið.“

Snorri segir þá 30 æðarunga sem eftir eru af ungahópnum sem ræktaður var vera stóra og pattaralega. Þeir haldi til í friðlandinu í Vatnsmýrinni og þar sé þeim daglega gefið sérstakt andarungafóður. „Við erum ánægð með hvernig tekist hefur til,“ segir Snorri. „Reykjavíkurborg hefur ekki verið með svona ræktun í yfir 40 ár, en þá var farið í heilmiklar ræktunaraðgerðir til að efla fuglalíf í Tjörninni. Þetta er ein leiðin til að styrkja fuglalífið og ekki ólíklegt að við höldum áfram.“

Ungarnir gætu farið

Snorri segir alls óvíst hvort æðarungarnir muni verpa í Tjörninni í framtíðinni. „Nú styttist í að þeir verði fleygir. Hvað gera ungarnir okkar þá? Þetta eru sjófuglar og alls óvíst hvort þeir kjósa að verpa hérna. Þeir gætu vel farið á flakk og uppgötvað búsvæði annars staðar.“

Hvað er til ráða? „Við höfum verið að velta fyrir okkur að láta þá hitta æðarfuglana sem eru fyrir á Tjörninni. Þá þyrftum við að handsama ungana og flytja þá. Þeir eru gæfir og það ætti því ekki að vera erfitt. Áður voru þeir fuglar vængstýfðir sem voru settir á Tjörnina og þeir neyddust þá til að verpa þar. En við teljum það ekki vera fuglinum í hag, það er verið að hindra þeirra eðlislæga atferli.“