Bogi Þór Arason bogi@mbl.is Eftir áratuga deilur og blóðsúthellingar eru Ísraelar og Palestínumenn nú sammála um eitt: vopnahlésumleitanir Johns Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hafa verið ákaflega klúðurslegar.

Bogi Þór Arason

bogi@mbl.is

Eftir áratuga deilur og blóðsúthellingar eru Ísraelar og Palestínumenn nú sammála um eitt: vopnahlésumleitanir Johns Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hafa verið ákaflega klúðurslegar.

Palestínumenn reiddust Kerry vegna þess að hann bauð ekki palestínsku heimastjórninni að taka þátt í viðræðum sem fram fóru í París og Ísraelar hafa gagnrýnt utanríkisráðherrann harkalega fyrir að beita sér fyrir vopnahléssamningi sem tryggi ekki öryggi Ísraels.

Barack Obama Bandaríkjaforseti lét í ljósi áhyggjur af blóðsúthellingunum á Gaza í yfirlýsingu á sunnudag og krafðist þess að komið yrði á „skilyrðislausu vopnahléi án tafar“. Fréttaskýrendur sögðu að Obama hefði í raun sett stjórn Ísraels úrslitakosti og nokkrir þeirra sökuðu jafnvel stjórn hans um að hafa snúið baki við Ísraelum.

Fjölmiðlar í Ísrael hafa þó einkum beint gagnrýni sinni að John Kerry. „Hann er vinur Ísraels, en með vini eins og hann er stundum betra að semja við óvini sína,“ sagði blaðamaðurinn Nahum Barnea í Yediot Aharonot , söluhæsta dagblaði Ísraels.

Fjölmiðlarnir segja að Kerry hafi verið eins og „fíll í postulínsbúð“ og „viðvaningur sem heldur að hann geti leyst vandamál heimsins með því einu að láta sjá sig“.

Gagnrýnin hefur ekki farið framhjá ráðamönnum vestanhafs. Marie Harf, talsmaður utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna, segir hana bæði „móðgandi og fráleita.“ Bandaríkin hafi veitt Ísrael stuðning „sem hreinskilnislega á sér ekki fordæmi í okkar sögu.“

Togstreita milli arabaríkja

Metingur arabaríkja hefur einnig torveldað friðarumleitanirnar, einkum togstreita milli Katara og Egypta. Katarar hafa stutt Hamas fjárhagslega og Egyptar hafa sakað þá um að hafa hvatt leiðtoga samtakanna til að hafna vopnahléi. Nýju valdhafarnir í Egyptalandi tortryggja Katara vegna þess þeir studdu Bræðralag múslíma, samtök Mohameds Morsi, sem var steypt af stóli forseta fyrir ári.

Hussein Ibish, sérfræðingur í málefnum Palestínumanna, segir að þótt áhrif Bandaríkjanna hafi minnkað í Mið-Austurlöndum séu þau enn eina landið sem geti knúið fram vopnahlé á Gaza. Kerry hafi áður gert misheppnaðar tilraunir til að koma á friði á Gaza og það kunni að vera honum til trafala núna. „Menn eru orðnir vanir því að Kerry reyni eitthvað án árangurs og að þeir geti sagt nei við hann,“ hefur fréttaveitan AFP eftir Ibish.