Birgir Ármannsson
Birgir Ármannsson
Utanríkismálanefnd Alþingis kom saman til fundar í gær til þess að ræða ástandið í Úkraínu og á Gaza. Auk nefndarmanna var utanríkisráðherra viðstaddur fundinn og svaraði hann fyrirspurnum viðstaddra.

Utanríkismálanefnd Alþingis kom saman til fundar í gær til þess að ræða ástandið í Úkraínu og á Gaza. Auk nefndarmanna var utanríkisráðherra viðstaddur fundinn og svaraði hann fyrirspurnum viðstaddra.

Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar, segir nefndarmenn um margt sammála þeim bréfum og yfirlýsingum sem íslensk stjórnvöld hafa sent frá sér varðandi málefni Gaza. „Nefndarmenn eru sammála um að það beri að hvetja til vopnahlés í þeim átökum sem þar eiga sér stað. Um leið fordæma menn árásir sem beinast að óbreyttum borgurum og þeim alþjóðlegu stofnunum sem starfandi eru á svæðinu,“ segir Birgir.

Formleg ályktun ekki gefin út

Aðspurður segir hann nefndarmenn hafa rætt það hvort bóka ætti sameiginlega afstöðu í þessum málum. „Það er hins vegar almennt ekki talið hlutverk utanríkismálanefndar eða annarra nefnda þingsins að senda frá sér ályktanir. Það er Alþingis í heild að gera slíkt.“

Minnihluti nefndarinnar lagði þó fram bókun en að honum standa fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar. Hvetur minnihlutinn til þess að allra leiða verði leitað til að stöðva blóðbaðið.

Spurður hvort hann eigi von á því að Alþingi taki málin upp þegar þing kemur saman að nýju kveður Birgir já við. „Það verður svo að koma í ljós hvort þingheimur nái samstöðu um ályktun og orðalag þegar þar að kemur,“ segir hann og bætir við: „Það sem meginmáli skiptir í mínum huga er að nefndarmenn eru sáttir við það sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa gert í þessum efnum þó að sumir hefðu viljað ganga lengra.“