Hörður Ægisson hordur@mbl.is Er raunverulegur áhugi af hálfu erlendra langtímafjárfesta á að kaupa íslenskan banka?

Hörður Ægisson

hordur@mbl.is

Er raunverulegur áhugi af hálfu erlendra langtímafjárfesta á að kaupa íslenskan banka? Í meira en tvö ár hafa slitastjórnir Glitnis og Kaupþings reynt að selja eignarhluti búanna í Íslandsbanka og Arion banka til erlendra fjárfesta fyrir gjaldeyri. Sú vinna hefur skilað litlum árangri. Ýmsir hafa hins vegar verið nefndir sem áhugasamir kaupendur – til að mynda kínverskir fjárfestahópar. Ekki er þetta trúverðugt.

Því er stundum haldið fram að sala á hlut búanna í bönkunum fyrir erlendan gjaldeyri myndi greiða fyrir afnámi fjármagnshafta. Slíkt þarf þó alls ekki að vera. Sala á bönkunum til erlendra skammtímafjárfesta, sem myndu vitaskuld vilja umtalsverðar arðgreiðslur í framhaldinu í gjaldeyri, leysir á engan hátt greiðslujafnaðarvanda Íslands – heldur gæti þvert á móti gert hann verri. Fulltrúar kröfuhafa hafa enn ekki sett fram tillögur um hvernig slíkar arðgreiðslur til nýrra erlendra eigenda að bönkunum falli að áformum stjórnvalda um afnám hafta.

Staðreyndin er sú að þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hafa engir erlendir fjárfestar skuldbundið sig til að hefja formlegar viðræður um kaup á bönkunum. Sex árum eftir efnahagshrunið er stærstur hluti íslenska fjármálakerfisins því enn óbeint í höndum erlendra vogunarsjóða sem fæstir Íslendingar vita nein skil á. Slíkt eignarhald er óviðunandi öllu lengur. Stjórnvöld hljóta að íhuga að grípa til aðgerða til að binda enda á þetta ástand, óháð framgangi losunar hafta.