Víkverji er tiltölulega nýkominn til landsins eftir langt ferðalag. Tilhlökkunin að sjá litlu Reykjavík var mikil, með öllum sínum sérkennum, rigningu og fámenni á götum úti.

Víkverji er tiltölulega nýkominn til landsins eftir langt ferðalag. Tilhlökkunin að sjá litlu Reykjavík var mikil, með öllum sínum sérkennum, rigningu og fámenni á götum úti. Víkverja brá heldur betur í brún þegar hann einn daginn gekk niður Laugaveg og Bankastræti. Þar var varla Íslending að sjá.

Borgin var þess í stað full af erlendum statistum, klæddum í rauðar, bláar, grænar, gular og fjólubláar fjallgönguúlpur, þegar Víkverji var sjálfur í svitakófi í sumarjakkanum í 15 stiga hita. Um tíma velti Víkverji meira að segja fyrir sér hvort hann væri ekki örugglega á Íslandi.

Þessi breyting kom Víkverja vissulega í opna skjöldu, þó svo að hún sé sennilega til góðs. Þessir litríku statistar leggja sitt af mörkum við að fjármagna öldurhúsin, sem eru Víkverja svo kær, auk þess sem þau krydda miðborgarlífið. Víkverji er til dæmis hættur að rekast bara á fólk sem hann þekkir á göngu um miðborgina. Stundum er gott að vera dálítið nafnlaus.

Víkverji óttast hins vegar að með þessu missi litla Reykjavík svolítinn sjarma. Ferðafólk hefur undanfarin ár getað skoðað íslenskt mannlíf, með öllum sínum skeggjuðu hipsterum og glæsilegu stúlkum. Víkverji vonar því að Reykjavíkin verði ekki fórnarlamb eigin velgengni, einhvers konar Benidorm norðursins.

Í millitíðinni prísar Víkverji sig sælan að geta lapið sitt latté á nýju kaffihúsi á hverjum degi alla daga vikunnar og veltir fyrir sér hvort hann ætti að söðla um og gerast ferðaþjónustumógúll. Svona eins og hann dreymdi um að verða bankakarl árið 2005, keyra Range Rover og vera ráðsettur úthverfakall í einbýlishúsi.