— Morgunblaðið/Styrmir Kári
Verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála skilaði félagsmálaráðherra í maímánuði ansi róttækum tillögum sem snúa að því að tekið verði upp húsnæðislánakerfi hér á landi að danskri fyrirmynd.

Verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála skilaði félagsmálaráðherra í maímánuði ansi róttækum tillögum sem snúa að því að tekið verði upp húsnæðislánakerfi hér á landi að danskri fyrirmynd. Í sem stystu máli byggist danska húsnæðislánakerfið á því að lánveitandi lánar gegn veði í húsnæði og sjá sérstakir íbúðalánabankar um að gefa út og selja skuldabréf á frjálsum markaði til að bæða fjármagna og miðla lánunum.

Eiginleikar kerfisins eru því þeir að útgefin skuldabréf eru ávallt jöfn útistandandi lánum. Lántakinn getur einnig alltaf greitt upp lánið þegar honum hentar.

Ekki verður betur séð en að fyrirmynd verkefnisstjórnarinnar sé hið danska kerfi eins og það var fyrir tíu til fimmtán árum. Margt hefur breyst síðan þá og hafa til að mynda stóru dönsku viðskiptabankarnir keypt flestalla íbúðalánabankana. Á Norðurlöndunum hefur þróunin nefnilega verið í þá átt að sameina íbúðalánabanka viðskiptabönkunum til að draga úr rekstrarkostnaði í bankakerfinu.

Þá eru jafnframt blikur á lofti á dönskum húsnæðismarkaði. Yngvi Örn Kristinsson, hagfræðingur Samtaka fjármálafyrirtækja, benti á það í grein í Morgunblaðinu nýverið að dönsku íbúðalánabankarnir byggju nú við verulega lausafjár- og endurfjármögnunaráhættu. Fram kom í The Economist ekki alls fyrir löngu að dönsk heimili væru með hæstu skuldsetningu sem hlutfall af ráðstöfunartekjum á meðal OECD-ríkja. „Sökudólgurinn, eins og svo oft áður, er húsnæðismarkaðurinn,“ sagði í umfjöllun blaðsins.

Þá er það einnig athyglisvert að þrátt fyrir mikla erfiðleika á húsnæðislánamörkuðum víða um heim í kjölfar kreppunnar hafa önnur ríki ekki séð ástæðu til að taka danska kerfið upp.