Dulúð Ljósmyndin er samnefnd sýningunni og heitir Augnablik í tíma.
Dulúð Ljósmyndin er samnefnd sýningunni og heitir Augnablik í tíma. — Ljósmynd/Jóna Þorvaldsdóttir
„Ég tek gjarnan myndir af óhefðbundnu landslagi. Mér finnst oft eins og við séum ekki ein í náttúrunni, stundum finnst mér hún lifna við og þá sé ég ýmsar kynjamyndir út úr hrauni og klettum.

„Ég tek gjarnan myndir af óhefðbundnu landslagi. Mér finnst oft eins og við séum ekki ein í náttúrunni, stundum finnst mér hún lifna við og þá sé ég ýmsar kynjamyndir út úr hrauni og klettum. Margar myndanna minna verða því svolítið dulúðugar,“ segir ljósmyndarinn Jóna Þorvaldsdóttir en sýning hennar, Augnablik í tíma , verður opnuð í Gallerí Ófeigi næstkomandi laugardag kl. 15. Í ljósmyndun sinni notar Jóna gjarnan aðferðir sem vinsælar voru á fyrstu dögum ljósmyndunar. „Ég tek aldrei stafrænar ljósmyndir,“ segir Jóna. „Það hentar mér ekki. Gamla tæknin finnst mér líka henta myndefninu mínu betur. Auðvitað er gamla tæknin meira vesen en henni fylgir líka mikill sjarmi. Það er t.d. alltaf mikið fjör þegar kemur að framköllun og spennandi að sjá hvernig myndin kemur út. Oft er útkoman önnur en maður lagði upp með í byrjun en það er hluti af þessu.“

Á sýningunni Augnablik í tíma verður að finna ljósmyndir frá Íslandi, m.a. frá Ströndum og Gálgahrauni. Sýningin er níunda einkasýning Jónu hér á landi og stendur til 27. ágúst næstkomandi. Hún er opin alla virka daga á verslunartíma. gith@mbl.is