Hjörleifur Hallgríms
Hjörleifur Hallgríms
Eftir Hjörleif Hallgríms: "Atvinnuleikhús er ekki inni í myndinni á Akureyri, nema þvílíkur peningaaustur komi til, en það eru til önnur ráð."

Þá er menningarfélag Akureyrar orðið að veruleika með sameiningu Leikfélags Akureyrar, sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og menningarhússins Hofs og mun þetta vera einsdæmi í menningargeiranum hér á landi. Þátttöku Hofs og sinfóníunnar mun ég ekki gera hér að umtalsefni, enda þekki ég ekki gjörla til þar á bæ. En ég hef í mörg ár verið mjög gagnrýninn félagi í leikfélagi Akureyrar (LA) og ekki að ástæðulausu. Fyrst vil ég geta þess að á framhaldsaðalfundi í LA fyrir skömmu þar sem greidd voru atkvæði um sameininguna var hún alls ekki samþykkt einróma, þó voru 17 atkvæði með, 6 sátu hjá og 1 á móti, þ.e. undirritaður. Það voru eldri félagar og leikarar þeir, sem vitrari eru og er annt um sitt gamla leikfélag og leist ekki á blikuna.

Eftir hverju er leikfélag Akureyrar að sækjast?

Um margra ára skeið hefur ekki verið fjárhagslegur grundvöllur fyrir því að reka atvinnuleikhús á Akureyri. Ég hef undir höndum yfirlit, sem sýnir að LA hefur í mörg ár haft úr að spila 200-220 milljónum á ári, þ.e. 130 milljónir í beinan styrk frá ríki og bæ og þar fyrir utan alla innkomu af miðasölu og fleiru að ógleymdum styrkjum frá Flugfélagi Íslands, Landsbankanum, Höldi og Norðurorku, en þó varð að fá lán eitt árið frá Akureyrarbæ upp á 80 milljónir og samt þurfti stjórn LA að þurrausa svokallaðan Jónssjóð, sem í voru 7,5 milljónir, og það ófrjálsri hendi. Það er því augljóst mál að eitthvað mikið er bogið við rekstur LA. Fyrir það fyrsta tel ég að LA hafi t.d. ekki efni á að hafa leikhússtjóra með hátt í milljón á mánuði þegar til eru í heimabyggð vel hæfur mannskapur fyrir helmingi lægri laun og vona ég að ekki sé hallað á neinn þó ég nefni einn af eldri og reyndari leikurum með meiru hjá LA, en það er Gestur Einar Jónasson. Leikritaval hefur ekki verið mjög hátt skrifað síðustu misserin, enda ekkert þeirra staðið undir sér utan Saga þjóðar með þeim félögum í Hundi í óskilum. Atvinnuleikhús er úr myndinni á Akureyri, nema þvílíkur fjáraustur komi þar til, en til eru önnur ráð.

Hálf-atvinnumannaleikhús eina ráðið

Ég hef í mörg ár, sem félagi í LA eins og fyrr segir talað fyrir því að „rifuð verði seglin“, ef svo má segja, í rekstri leikfélagsins og stofnað verði til sem kallað er semi-leikhús, eða hálf atvinnumannaleikhús, sem þekkjast víða á hinum Norðurlöndunum og rekin eru við góðan orðstír. Svona leikhús yrði mikið hagstæðara í rekstri á allan máta, þar væri hægt að lækka allan launakostnað að miklum mun, því í svona leikhúsi þyrfti ekki að notast við dýra atvinnuleikara úr Reykjavík, sem eru atvinnulausir þar, því nógu marga eigum við hér á Akureyri og þar að auki er fullt af fólki, sem er að leika hér fyrir norðan en hefur ekki full réttindi en er gjaldgengt í svona leikhúsi án þess að þurfa að sækja um leyfi í hvert skipti fyrir það fólk suður til Reykjavíkur.

Snobbið er nefnilega alls ráðandi í LA og allt lagt upp úr því að geta sagt að á Akureyri sé eina atvinnuleikhúsið á landsbyggðinni, en það er og hefur ekki verið nákvæmlega sama hvað hlutirnir kosta. Enn er verið að biðla til Akureyrarbæjar um lán upp á 7,5 milljónir króna. Við sjáum hvað setur.

Höfundur er framkvæmdastjóri, Akureyringur og unnandi leiklistar.

Höf.: Hjörleif Hallgríms