Herjólfur Gerðar verða breytingar á skipinu í haust til að auka stefnufestu.
Herjólfur Gerðar verða breytingar á skipinu í haust til að auka stefnufestu. — Morgunblaðið/Eggert
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Gerðar verða breytingar á Vestmannaeyjaferjunni Herjólfi í haust.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Gerðar verða breytingar á Vestmannaeyjaferjunni Herjólfi í haust. Tilgangurinn er að auka stefnufestu skipsins við siglingar inn í Landeyjahöfn og tryggja að skipið standist hertar kröfur um lekastöðugleika sem taka gildi að ári.

Nýju Evrópureglurnar taka gildi 1. október 2015. Til að fullnægja þeim og tryggja að skipið teljist haffært þarf að setja vatnsþétt flóðhlið þverskips á bíladekk skipsins, að sögn Guðmundar Helgasonar, forstöðumanns hjá Vegagerðinni.

Stefni skipsins verður breytt aðeins, rúnnað þar sem nú er flatjárn, og aftari veltiuggar lengdir. Þær breytingar eru gerðar samkvæmt ráðleggingum sérfræðings sem telur að þær muni bæta stefnufestu skipsins sem hefur við vissar aðstæður lent í erfiðleikum við siglingar í Landeyjahöfn. Guðmundur segir að reynslan verði síðan að skera úr um hvernig til takist.

Þegar byrjað verður að nota flóðhliðið þrengist um á ekjudekki skipsins og skipið getur tekið færri bíla.

Breytingarnar verða gerðar í Landskrona í Svíþjóð, samhliða reglubundnu viðhaldi skips og búnaðar. Herjólfur verður frá siglingum frá 8. september og að minnsta kosti til 26. september. Vegagerðin hefur tekið Breiðafjarðarferjuna Baldur á leigu til að sigla til Vestmannaeyja á meðan.

Sæferðir eiga von á nýrri Breiðafjarðarferju. Pétur Ágústsson framkvæmdastjóri segir stefnt að því að nýja skipið verði komið áður en Baldur fer til Eyja og muni það vera í siglingum á Breiðafirði. Ferjan er keypt frá Lofoten í Noregi og er nokkru stærri en Baldur.

Samið um hönnun nýrrar ferju

Unnið hefur verið að undirbúningi að smíði nýs Herjólfs. Nú hefur verið samið við norsku verkfræðistofuna Polarkonsult um að hanna skipið. Stefnt er að því að hönnun ljúki í janúar 2015. Samkvæmt minnisblaði sem Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, lagði fyrir bæjarstjórn hefur verið ákveðið að hanna ferjuna sérstaklega óháð smíðasamningum. Það þýðir að hönnunin getur tekið lengri tíma. Áður en hönnun lýkur verða gerðar prófanir í líkanastöð, sérstaklega til að athuga áhrif öldunnar við Landeyjahöfn á stöðugleika ferjunnar.