Stöðva þarf frekari útbreiðslu og efla aðgerðir gegn sjúkdómnum

Ekkert lát er á útbreiðslu ebólu í Afríku og er nú vaxandi ótti við að sjúkdómurinn kunni að breiðast út til annarra heimsálfa. Ebóla er bráðdrepandi. Á milli 50 og 90 prósent þeirra, sem sýkjast, láta lífið. Dánartíðnin fer eftir því hvaða afbrigði ebólunnar er á ferðinni.

Samtökin Læknar án landamæra hafa lýst yfir því að ástandið í Gíneu, Líberíu og Síerra Leóne eigi aðeins eftir að versna og telja áhyggjuefni að ekki skuli vera til allsherjaráætlun um að bregðast við mesta faraldri sjúkdómsins í sögunni. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnun Sameinuðu þjóðanna hefur 1.201 maður fengið sjúkdóminn í löndunum þremur og 672 látið lífið síðan í mars.

Faraldurinn hefur hafist þegar sjúkdómurinn barst úr dýri, líklega leðurblöku, í mann. Síðan hefur hann sennilega borist mann úr manni. Liðið geta átta til tíu dagar frá smiti þar til fyrstu einkennin koma fram. Á þessum tíma smitar sá smitaði ekki út frá sér.

Sjúkdómurinn berst á milli manna með líkamsvessum. Eins er hægt að verða fyrir smiti við snertingu við til dæmis rúmföt. Vírusinn þarf að komast í slímhúð eða sár til að smit eigi sér stað.

Sjúkdómurinn dregur fólk til dauða á nokkrum dögum eftir að einkennin koma fram. Honum fylgja hár hiti og miklir verkir, uppköst og niðurgangur, gríðarlegar blæðingar og bilun líffæra.

Fólk, sem lifir sjúkdóminn af, getur smitað lengi á eftir. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin nefnir dæmi um mann, sem enn var með vírusinn í líkamanum tveimur mánuðum eftir að hann veiktist.

Það ætti að auðvelda baráttuna gegn útbreiðslu ebólu að sjúkdómurinn smitast aðeins við snertingu, en ekki í lofti eins og til dæmis flensa. Einn vandinn í Vestur-Afríku er sá að þar er til siðs við jarðarfarir að snerta hinn látna. Margir vilja frekar leita til heilara en lækna. Á þessum slóðum ríkir einnig tortryggni í garð lækna og það er ekki til að draga úr henni að flestir, sem lagðir eru inn á heilsugæslustöðvar, láta þar lífið.

Tvö afrísk flugfélög eru nú hætt að fljúga til höfuðborga Líberíu og Síerra Leóne. Yfirvöld í Hong Kong hafa lýst yfir því að vakni grunur um sýkingu hjá fólki, sem kemur til landsins, verði það sett í einangrun. Þar eru menn minnugir þess þegar SARS-vírusinn breiddist út fyrir rúmum áratug.

Ekki er til bóluefni við ebólu, en unnið er að því að finna það. Ekki er heldur til lækning, en hægt er að auka lífslíkur með vökvagjöf. Mikilvægt er að koma böndum á sjúkdóminn í Afríku áður en hann breiðist frekar út og greinilegt að mun öflugri aðgerða er þörf en ráðist hefur verið í til þessa. Um leið þarf að sýna árvekni um allan heim til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu.